Alþjóðlegi hamingjudagurinn er haldinn í fimmta sinn í dag 20. mars. Dagurinn er haldinn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að vekja stjórnvöld og einstaklinga til vitundar um mikilvægi hamingjunnar.
Þó að ellin sé oft tengd við líkamlega, andlega og félagslega hnignun og missi hafa vísindalegar rannsóknir þvert á móti sannað að hamingjan eykst með aldrinum. Áströlsk rannsókn sýndi sem dæmi að lífsánægjan nær hámarki rétt fyrir sjötugt. Bandarísk rannsókn sem stóð yfir í 22 ár og var framkvæmd meðal um 2.000 heilbrigðra bandarískra fyrrum hermanna leiddi í ljós að ánægja þeirra með lífið jókst með árunum, og náði hámarki í kringum 65 ára aldurinn. Ekki dró úr hamingjunni svo um munaði fyrr en í kringum 75 ára aldurinn. Bresk rannsókn sýndi að fólk á aldrinum 45-59 upplifir minnstu hamingjuna á meðan hamingjusamasti hópurinn er á aldrinum 65-79 ára. Eftir það liggur hamingjulínan niður á við. Eftirlaunaárin virðast því vera „gullnu árin“ eftir allt saman og svo sannarlega hægt að láta sig hlakka til þeirra.
Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á aukinni hamingju með hækkandi aldri:
- Glaðvært fólk lifir lengur en vansælt fólk.
- Eftir því sem við eldumst lærum við að aðlagast styrkleikum okkar og veikleikum og kæfum ógerlegar langanir.
- Eldra fólk hefur upplifað andlát jafnaldra og ástvina og kann betur að meta það sem það hefur.
- Með hækkandi aldri verðum við færari í því að sjá fyrir aðstæður sem muni leiða til neikvæðra tilfinninga og forðumst þær skipulega. Með öðrum orðum, við veljum betur hvað við gerum og gerum ekki.
- Eftir því sem við eldumst eigum við það til að beina athyglinni að jákvæðum upplifunum og líta framhjá neikvæðum atriðum.
- Hjá eldra fólki er minna misræmi milli markmiða eða þess sem það leitast eftir og þess sem það fær, sérstaklega þegar kemur að efnislegum atriðum og félagstengslum. Eldra fólk gerir einfaldlega raunhæfari væntingar og kröfur til lífsins.
- Eldra fólk er hamingjusamara þar sem það ber sig saman niður á við félagslega s.s. við þá sem hafa það minna gott.
- Eftir því sem við eldumst eigum við auðveldara með að sætta okkur við neikvæðar tilfinningalegar upplifanir og upplifum tilfinningar eins og reiði og kvíða ekki eins sterkt.
- Þegar styttist í annan enda ævinnar og fólk upplifir að tíminn er takmarkaður er það hvatt áfram af markmiðum sem hámarka jákvæðar tilfinningar, eins og að dýpka samskiptin sem þegar eru til staðar, gefa af sér og kenna þeim sem yngri eru. Á sama tíma lágmarkar fólk neikvæð og merkingarlaus samskipti sem gefa því ekkert tilfinningalega. Fólk verður með öðrum orðum hæfara í að stjórna tilfinningum sínum.
- Eldra fólk hugsar jákvæðara til fortíðarinnar og hefur færri neikvæðar minningar en ungt fólk.
- Eftir því sem við eldumst höfum við vaxandi tilhneigingu til að sjá það góða í öðrum og fyrirgefa bresti fólks. Þetta leiðir til aukinnar vellíðunar og hamingju.
Eitt er víst og það er að eftir því sem við eldumst öðlumst við mörg dýrmæta þekkingu á því hvernig eigi að lifa hamingjuríku lífi. Að komast á efri árin er því sannarlega tilhlökkunarefni.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 20. mars 2017.