Þjóðfundur var haldinn 14. nóvember sl. Á heimasíðu fundarins www.thjodfundur2009.is er að finna öll þau gildi sem þjóðfundargestir nefndu. Eitt orð trónar á toppnum og þetta orð er heiðarleiki.
Þjóðfundurinn metur heiðarleikann s.s. mestan allra þeirra orða sem nefnd voru. Það er kannski ekki að undra eftir það efnahagslega skipbrot sem landinn hefur þurft að upplifa. Gildin virðing, réttlæti og jafnrétti fylgja fast á eftir.
Hvað er að vera heiðarlegur?
Orðið heiðarleiki er kannski eins og orðið ást, það vita allir hvað ást er en þegar fólk er beðið um að skilgreina það nánar vefst því tunga um tönn. Hægt væri að skilgreina heiðarleika á eftirfarandi hátt:
- Heiðarleiki er að segja sannleikann og fara ekki í kringum hann.
- Heiðarleiki er að fela ekki hlutina af því að það getur komið manni eða öðrum illa.
- Heiðarleiki er að vera samkvæmur sjálfum sér.
- Heiðarleiki er að standa við gefin loforð og samþykktar skyldur og vera áreiðanlegur og traustur.
- Heiðarleiki er að horfast í augun við raunveruleikann og viðurkenna hann eins og hann er.
- Heiðarleikinn er að vera virkur og breyta.
- Heiðarleiki er að misnota ekki vald eða fyrirfram fengnar upplýsingar.
- Heiðarleiki er að gæta trúnaðar.
- Heiðarleiki er að taka ábyrgð á eigin gjörðum.
- Heiðarleiki er að gefa til kynna ef manni mislíkar hegðun annarra.
- Heiðarleiki er að fylgja eftir viðurkenndum hegðunarreglum líka þó að það hafi mögulega í för með sér spennu eða árekstra af einhverju tagi.
- Heiðarleiki er að vera meðvitaður um eigin gildi og skoðanir og taka ákvarðanir samkvæmt þeim.
- Heiðarleiki snýst ekki aðeins um það sem við segjum heldur líka um gjörðir okkar. Við erum t.d. ekki heiðarleg þegar við tilkynnum veikindi þó að við séum ekki veik eða hlöðum niður tónlist af netinu þó að það sé ólöglegt.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2009.