Að hrósa er frábær leið til að hvetja samstarfsmenn. Með því að hrósa af einlægni sýnir maður persónulegan áhuga og viðurkenningu auk þess sem maður sýnir í verki að maður er eftirtektarsamur og vingjarnlegur.
Gott hrós segir því einnig mikið um þann sem hrósar.
Þetta er svo sem ekkert nýtt. Flestir eru í auknum mæli meðvitaðir um jákvæð áhrif þess að hrósa. Hins vegar erum við allt of spör á hrósið. Það er ekki sjálfsagt að veita hvert öðru daglega nauðsynlegan jákvæðan áhuga. Starfsánægjukannanir á Íslandi hafa t.d. ítrekað leitt í ljós að á íslenskum vinnustöðum er mikill skortur á hrósi, jafnvel þó ekki sé um að ræða nema einfalda jákvæða athugasemd um útlit eða fatnað. Þó að það virðist auðvelt að segja við samstarfsmann "Flottur jakki" eða "Þessi klipping fer þér vel" finnst okkur það samt erfitt, við frestum því eða sleppum því bara alveg.
Hér að neðan er fjallað um ástæður þess að við hrósum ekki nægilega mikið og komið með ráðleggingar um hvað væri hægt að gera til að breyta því.
Af hverju er svo erfitt að hrósa?
Ein af ástæðunum fyrir að við gleymum að hrósa almennt getir verið skortur á eftirtekt. Maður tekur hugsanlega ekki eftir því að einhver er í nýjum fötum og gerir því engar athugasemdir.
Í öðru lagi getur þetta tengst þörf okkar fyrir heiðarleika. Kannski finnst okkur klippingin ekki fín og því betra að þegja frekar en að veita hrós sem er ekki einlægt.
Enn önnur ástæða fyrir að hrósa ekki er ótti við röng viðbrögð. Við höfum oft tilhneigingu til að gera lítið úr hrósi eða draga úr því. Við hrósinu "Mikið er þetta falleg peysa" er þá kannski brugðist við með því að segja "Ég er búin að eiga hana í sjö ár" eða "Hefurðu ekki aldrei tekið eftir henni?" Þeim sem hrósar er þar með bent á skorti sínum á eftirtektarsemi. Viðkomandi gæti túlkað það eins og hann missi andlitið og mun líklega ekki hrósa aftur.
Hrós fyrir endurtekin verkefni?
Þegar um er að ræða hrós á vinnustað fyrir góða frammistöðu eru nokkrir þættir sem geta komið í veg fyrir að við kjósum að tjá okkur. Í fyrsta lagi er oft um að ræða endurtekin verkefni. Af hverju ættu maður allt í einu að hrósa gjaldkera sem sinnir vinnunni sinni ágætlega og vinnur sömu verkefnin dag eftir dag? Eða kannski er beðið þangað til í árlega starfsmannasamtalinu til að hrósa honum fyrir að hafa staðið sig vel allt árið. Hrósið missir þar með marks. Þegar stjórnandi gefur einkaritaranum blóm einu sinni á ári, t.d. á Alþjóðlegum degi ritara, vaknar spurningin hvort hann gerir það vegna þess að hann metur starfsmanninn það mikils eða hvort hann líti á það sem siðferðilega skyldu sína. Þegar veitt er hrós á fyrirfram ákveðnum tímum og alltaf á sama hátt skapast nefnilega væntingar ("Hvar eru blómin mín?") og áhrif hróssins minnka. Ef maður vill veita einhverjum athygli á sérstakan hátt er því betra að koma á óvart og forðast að gera það alltaf á sama hátt.
Viðkomandi á ekki skilið að fá hrós
Annar þáttur sem getur gert manni erfitt fyrir að hrósa er að manni finnst viðkomandi kannski ekki eiga það skilið. Hrósar þú starfsmanni sem loksins skilar villulausri skýrslu, á meðan þér finnst eiginlega sjálfsagt að hver skýrsla sé villulaus? Hrósið þitt gæti hugsanlega hvatt starfsmanninn - sem skilar ekki alltaf viðunandi frammistöðu - til að bæta frammistöðu sína. Á hinn bóginn getur þér fundist óréttmætt að veita fólki hrós sem þér finnst að eigi það ekki skilið. Það gæti auk þess verið að sá sem ekki skilar viðunandi frammistöðu túlki það frekar sem kaldhæðni en hrós. Ef maður ákveður að veita hrós er mikilvægt að hafa samræmi milli orða og líkamstjáningar til að sýna að maður virkilega meinar það.
Ótti við afbrýðisemi og samkeppni
Annar þáttur sem getur komið í veg fyrir að við veitum hrós er óttinn við afbrýðisemi eða samkeppni milli starfsmanna. Þegar um er að ræða nokkra starfsmenn sem standa sig misvel, ætti maður þá að hrósa aðeins þeim sem stendur sig vel fyrir framlag hans? Afleiðingin gæti jú verið að hinir upplifi að þú metir þá ekki eins mikils. Ef maður hrósar þar á móti öllum hópnum gæti sú spurning vaknað hvort allir eigi það jafnmikið skilið. Auk þess fær sá sem leggur sig mikið fram ekki sérstaka viðurkenningu fyrir framlag sitt.
Ekki áhættulaust að hrósa
Að hrósa er ekki áhættulaust. Maður skapar væntingar með því, sumir taka því illa eða halda að þú sért að reyna að komast í mjúkinn hjá þeim. Þetta getur leitt til þess að þú ákveðir að hætta að hrósa, nema þegar einhver stendur sig framúrskarandi vel. Endurtekin verkefni fá þá enga athygli - hámark einu sinni á ári á tyllidögum eða í starfsmannasamtalinu. Sérstaklega í síðastnefndu samtali fellur hrósið oft í skugga þess sem gengur ekki eins vel.
Hvernig á að hrósa?
Mikilvægt er að hafa nokkur atriði í huga:
- Allir hafa sína sérstöku eiginleika sem hægt er að veita viðurkenningu fyrir. Það er hægt að veita þeim sérstaka athygli án þess að aðrir fari í fýlu.
- Veittu hrós á áberandi og skýran hátt. Þar með sýnir þú að þetta er hrós af einlægni og ekki aðeins athugasemd.
- Veittu hrós á mismunandi tímum. Sálfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að verðlaun eða viðurkenning hefur meiri áhrif ef hún er ekki veitt á föstum tíma.
- Mikilvægt er að gleyma ekki daglegum verkefnum. Þau fá oft hlutfallslega litla athygli en eru unnin af stórum hluta starfsfólksins. Hér gildir einnig að hrósa ekki á fyrirfram ákveðnum tímum.
- Veittu nákvæmt hrós og komdu með sértæk dæmi um hegðun. Hvað gerði viðkomandi vel, hvar og hvenær?
- Veittu hrós eins fljótt og hægt er eftir að tiltekin hegðun á sér stað.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 31. ágúst 2005.