Hugflæði

Sumir njóta þess að mála, aðrir hafa gaman af því að klífa fjöll. Sumum finnst mjög gefandi að vera foreldri og aðrir helga sig vinnunni. En er eitthvað sameiginlegt með þessari upplifun fólks? 

Mihaly Csikszentmihaly, prófessor í sálfræði við Háskólann í Chicago og metsöluhöfundur, hefur í yfir 30 ár leitað að svari við spurningunni hvað gefur lífi fólks merkingu og gerir það ánægjulegt. Hann er höfundur nokkurra bóka um auðgun starfs og persónulegs lífs. Þar á meðal er Finding Flow: The Psychology of Engagement with Everyday Life frá árinu 1997. Niðurstaða hans er að flestir lifa tvær öfgar: þeir eru annaðhvort uppteknir af streitu og daglegum skyldum eða þá leiðir og verja frístundum sínum t.d. með því að glápa á sjónvarpið. Venjulegur dagur virðist þannig fullur af kvíða og leiðindum.

Flest virðumst við þó einnig upplifa hugflæði (flow), ástand þar sem við náum mikilli einbeitingu, missum tímaskynjun og skilum hámarksárangri. Hugflæði liggur samkvæmt Csikszentmihaly mitt á milli of mikillar áskorunar (sem veldur kvíða og streitu) og of lítillar áskorunar (sem veldur leiðindum), og kemur næst því sem við getum kallað hamingju. Leiðin að hamingjusömu lífi sé því að mörgu leyti að gera eins mikið og hægt er af því sem kemur okkur í hugflæðiástand.

Vinna verksins sjálfs sem heillar
En hvað veldur hugflæði? Csikszentmihaly tók viðtöl við þúsundir einstaklinga og fann að næstum því hvað sem er getur kallað fram hugflæði. Tökum sem dæmi listamálara. Þegar málverkið byrjar að verða áhugavert getur hann ekki slitið sér frá því. Hann gleymir hungri, félagslegum skyldum sínum, tíma og þreytu. Hugflæðið varir þangað til málverkinu er lokið; um leið og það hættir að breytast og bætast setur hann það til hliðar og byrjar á nýju.

Það sem heillar málarann er ekki tilhugsunin um afköstin - frábært málverk - heldur það að mála. Þetta hljómar kannski skrýtið við fyrstu sýn, sérstaklega þar sem sumar sálfræðilegar kenningar ganga út frá því að það sem hvetur okkur er annaðhvort þörfin fyrir að losna við óþægilegar tilfinningar eins og svengd eða ótta, eða þá væntanleg umbun í framtíðinni eins og peningur eða metorð. Það að einhver geti unnið marga daga og nætur vinnunnar vegna hljómar ekki mjög sannfærandi, eða hvað? En ef við stöldrum aðeins við og veltum þessu fyrir okkur er þetta kannski ekki svo skrýtið. Listamenn eru ekki þeir einu sem verja óhemju miklum tíma og orku í eitthvað sem hefur litla umbun í för með sér, fyrir utan vinnuna sjálfa. Börn verja t.d. miklum tíma í leik, fullorðnir tefla eða vinna í garðinum vegna þess eins að þeir hafa gaman af því.

Það getur vel verið að við verðum rík og fræg með því að gera þessa hluti. Málarinn nær mögulega að selja listasafni málverkið sitt. Rithöfundurinn skrifar hugsanlega það vel að hann fær að gefa út bókina. Ytri markmið eins og peningur eða frægð eru oft til staðar en eru sjaldnast aðalástæðan fyrir því að fólk helgar sig vinnunni. Við gerum hana einfaldlega vegna þess að við höfum gaman af henni.

Hvernig lýsir hugflæði sér?
Það virðist vera ýmislegt sameiginlegt í því sem við upplifum í hugflæðiástandi. Fyrsta einkenni þess er að einbeitingin er algjör. Við erum altekin, sogumst inn í verkefnið og njótum þess til hins ítrasta. Við vitum nákvæmlega hvað þarf að gera og fáum umsvifalausa endurgjöf á það hversu vel okkur gengur. Fyrirlesarinn er t.d. með skýra vitneskju um næstu orð og hvort þau séu rétt sögð eða ekki. Við einbeitum okkur algjörlega að því sem við erum að gera og gleymum öllu og öllum í kringum okkur. Það er eins og við stöndum utan við okkur. Við veltum ekki fyrir okkur hugsanlegum mistökum og upplifum algjöra stjórn á aðgerðum okkar. Tímaupplifunin breytist og tíminn virðist fljúga. Hið gagnstæða kemur einnig fyrir: ein sekúnda getur virðast eins og tíu.

Við virðumst ekki ná hugflæði nema með því að leggja mikið að okkur og skiptir þá í raun ekki máli hvert verkefnið er: Að gera við þvottavél, kenna barni stafrófið eða selja líftryggingar. Jafnvel verkefni sem venjulega telst leiðinlegt getur þannig orðið spennandi. Fólk virðist ekki upplifa hugflæði meðan það hvílir sig eða horfir á sjónvarpið heldur aðeins þegar krafist er mikils af því andlega eða líkamlega.

Markmið að komast í hugflæði eins oft og hægt er
Til að auðga starf okkar, persónuleg sambönd og frístundir þurfum við að komast í hugflæði eins oft og hægt er. Fyrsta skrefið að hugflæði er að gera verkefnið að leik og ákveða leikreglur, kraftmikið markmið og áskoranir til að takast á við ásamt umbun. Við þurfum að minna okkur stöðugt á andlega, félagslega eða vitsmunalega markmiðið sem stýrir framlagi okkar. Mikilvægt er að losa sig við hverskyns truflanir, hvort sem þær koma innan frá eða utan frá, og sleppa sér. Ráðlegt er að streitast ekki við að ná markmiðunum heldur einfaldlega njóta þess sem við erum að gera. Hugflæðið mun slá okkur allt í einu, kemur okkur á óvart, en við munum ekki missa af því. Það opnar svo birgðir af úrræðum, sköpunargáfu og orku og framleiðnin og vinnugæðin ná algjöru hámarki.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 27. júní 2001.