Við sitjum núna mörg heima í mikilli óvissu. Eftir að samkomubann var sett á hefur félagslega dagskráin tæmst og það er lítið um matarboð, heimsóknir og fundi í raunheimum.
Þessi viðbrögð eru auðvitað nauðsynleg og góð til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar, en ekki eins góð fyrir andlega heilsu okkar.
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að sóttkví getur haft neikvæð áhrif á líðan okkar. Í fyrsta lagi þörfnumst við öll félagslegra tengsla. Við erum félagsverur og skortur á nánum félagslegum samskiptum getur haft neikvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Í öðru lagi upplifum við mikla óvissutíma, sem getur leitt til þess að við finnum fyrir óöryggi og kvíða.
Hvernig getum við tryggt að við höldum andlegri heilsu í sóttkví? Meðfylgjandi eru fjögur góð ráð:
1. Ræktaðu félagsleg tengsl
Rannsóknir hafa sýnt að góð og gefandi tengsl við aðra gefa lífinu gleði og innihald og hafa sterk jákvæð tengsl við hamingju og vellíðan.
Þó að við drögum úr heimsóknum og mannamótum er hægt að nota símtöl, myndsímtöl eins Facebook messenger og FaceTime, fjarskiptaforritið Skype eða Microsoft Teams til að tala saman augliti til auglitis og rækta þannig félagsleg tengsl við ættingja, vini og samstarfsmenn. Þetta er kjörinn tími til að auka sambandið með því að nota tæknina. Hvernig væri t.d. að skipuleggja rafrænan kaffihitting?
2. Haltu rútínu
Í fyrsta lagi er mikilvægt að halda rútínu og skipuleggja daginn og vikuna. Ekki verja tímanum í hámhorf á Netflix. Farðu á fætur á sama tíma og venjulega og farðu að sofa á svipuðum tíma og venjulega. Haltu áfram að lifa lífinu eins og þú værir að fara í vinnuna eða skólann. Farðu í sturtu, klæddu þig í (vinnu)fötin, burstaðu tennurnar og gefðu þér tíma fyrir kaffi. Skipulag, regla og festa skapar ró í hausnum og eykur ánægju með sjálfan sig.
Ef þú ert ekki með skrifstofu heima skaltu velja ákveðinn fastan stað á heimilinu til að skilin milli vinnu og einkalífs séu skýr. Hættu líka að vinna á réttum tíma. Er lítið að gera í augnablikinu? Líttu þá á tímabilið framundan sem áskorun: Lærðu eitthvað sem þú hefur ekki haft tíma til eða lestu þær bækur sem þig hefur alltaf langað til að lesa. Okkur líður betur þegar okkur finnst við vera hæf og gera gagn.
3. Heilsusamlegur matur og hreyfing
Til viðbótar við rútínuna er mikilvægt að hlúa vel að sjálfum sér. Borðaðu heilsusamlegan mat og taktu inn nauðsynleg vítamín (C, D, B6, B12 og sink). Borðaðu minna en venjulega. Þegar við vinnum heima þurfum við minni mat en þegar við erum meira á ferðinni.
Reglubundin hreyfingin er mikilvæg fyrir andlega líðan. Þegar við hreyfum okkur framleiðum við endorfín, serótónín og dópamín, sem eru taugaboðefni sem auka vellíðan og vinna gegn kvíða og þunglyndi. Útivera og hreyfing er góð blanda. Njóttu náttúrunnar (í hæfilegri fjarlægð frá öðrum), farðu í göngutúr eða skokkaðu meðfram sjónum. Náðu þér í ferskt loft, dagsbirtu og smá sólarljós en það er nauðsynlegt svo að líkaminn framleiði D-vítamín.
4. Taktu þér smá fréttapásu
Margir horfa á alla fréttatíma og fylgjast grannt með umræðunni á samfélagsmiðlum, en þar er nær eingöngu fjallað um kórónuveiruna. Þessi stanslausu áreiti geta skapað kvíða þar sem við höfum ósjálfrátt tilhneigingu til að einblína meira á hætturnar en jákvæðu hlutina.
Gott er að ramma inn hversu mikið þú talar um ástandið, minnka skjátíma og forðast allar dómsdagsspár. Settu hlutina í samhengi og gerðu þér grein fyrir því að óvissa er óhjákvæmilegur hluti af lífinu. Veltu fyrir þér hvað þú getir lært af þessum krefjandi tímum. Er t.d. hægt að líta á þá sem áskorun til að læra meira um styrkleika þína?
Það er einnig góð hugmynd að vera meira í núinu, það eykur hjá manni vellíðan og kyrrð.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman