Hvað getum við lært af Vilborgu pólstjörnu?

Íslendingar eignuðust þjóðhetju þegar Vilborg Arna Gissurardóttir náði á Suðurpólinn í síðustu viku eftir 60 daga göngu við erfiðar aðstæður. Hún varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að ná þessu takmarki eins síns liðs.

Ég kynntist þessari hugrökku konu fyrir aðeins örfáum mánuðum og varð strax heilluð af kraftinum sem í henni býr. Ég efaðist aldrei um að henni tækist ætlunarverk sitt. 

Hver ætli sé uppskriftin að þessum árangri á heimsmælikvarða? Ég held að nokkur atriði hafi skipt sköpum.

Markmiðasetning
Vilborg byrjaði að undirbúa Suðurpólsleiðangurinn fyrir 10 árum síðan. Hún átti sér stóran og spennandi draum sem átti hug hennar og hjarta í langan tíma. Hún tók síðan eitt skref í einu til að gera þennan draum sinn að veruleika. Allt sem hún gerði miðaði að því að ná markmiðinu og þannig fylltist hún bjartsýni og löngun. Markmiðið var drifkrafturinn sem knúði hana áfram og myndaði undirstöðuna að árangri hennar. Það gaf henni einbeitingu til að halda stöðugt áfram þó að leiðin hafi á köflum reynst erfið. 

Góður undirbúningur
Vilborg fór vel undirbúin í leiðangurinn og tilbúin að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum sem upp gætu komið. Hún hefur stundað útivist og fjallgöngur í mörg ár. Til að undirbúa sig líkamlega fyrir ferðina lagði Vilborg mikla áherslu á æfingar utandyra t.d. gönguferðir, hjólreiðar og fjallgöngur. Hún æfði einnig með sleða með lóðum til þess að venjast þyngdinni. Til undirbúnings gekk hún yfir Grænlandsjökul síðastliðið sumar og varði rúmri viku ein til að venjast einveru í óbyggðum þar sem ekki nokkur sála er á ferð. Hún hafði einnig gengið yfir Vatnajökul á gönguskíðum og í fleiri ferðir á jökulinn sem og aðra jökla og var því vel þjálfuð í að fara yfir erfið sprungusvæði.

Vilborg undirbjó sig einnig vel andlega m.a. með því að setja sig inn í erfiðar aðstæður í huganum s.s. vonskuveður, erfitt færi og þess háttar aðstæður. Í æfingum sínum innandyra ímyndaði hún sér að hún væri ein á ísnum. Auk þess las hún sér til og ræddi við fólk sem hafði farið í svipaða leiðangra. Hún var búin að velta fyrir sér öllum þeim hindrunum sem hún gæti þurft að yfirstíga á leið sinni að markmiðinu og hvernig hún gæti rutt þeim úr vegi, sem gerði það að verkum að þær virtust ekki eins óyfirstíganlegar.

Jákvætt hugarfar
Í ferðinni þurfti Vilborg að takast á við bæði árangur og mótlæti. Hver dagur í leiðangrinum var henni áskorun og líkamlegt erfiði og hún þurfti að takast á við ýmsar hindranir á leið sinni að markmiðinu. Það sem réð úrslitum um árangur hennar var ekki það sem hún lenti í heldur það hvernig hún brást við. Hún sýndi þrautseigju og lét það ekki hvarfla að sér að allt gæti farið út um þúfur. Hún hélt fast í draum sinn og leitaði leiða til að ryðja hindrunum úr vegi. Hún þrjóskaðist við í erfiðu færi, miklum kulda, háum rifsköflum, glímdi við væg kalsár og magakveisu, en gafst ekki upp þótt á móti blési. Hún sýndi áræðni, hugrekki og jákvæðni, gildi sem hún valdi sér fyrir ferðina.

Vilborg er okkur öllum hvatning um að ekkert er ómögulegt. Hún er frábær fyrirmynd fyrir okkur öll um að við getum látið drauma okkar rætast.

Á heimasíðunni hennar www.lifsspor.is er hægt að lesa ferðasöguna í stuttu máli. Þar er einnig hægt að styrkja það góða málefni sem Vilborg ákvað að ganga fyrir.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 25. janúar 2013.