Krafan um þekkingu, aukna sérhæfingu og fjölbreyttara menntastig á flestum sviðum hefur vaxið til muna á undanförnum árum. Aldrei fyrr hafa verið gerðar eins miklar kröfur til starfsfólks og nú.
Vinnan er orðin flóknari, sem krefst aukins innsæis og samstarfs, og hraðinn er orðinn meiri, sem krefst frumkvæðis og drifkrafts.
Þjóðfélag og atvinnulíf nútímans einkennist af aukinni óvissu um framtíðina og sífellt örari breytingum, sem auk þess koma úr fleiri áttum en áður hefur þekkst. Það eina sem við getum í raun gengið að sem vissu eru sífelldar breytingar. Enginn veit hvað morgundagurinn leiðir af sér. Eina tryggingin sem við getum náð okkur í er að vera opin fyrir nýjum tækifærum, sýna jákvætt viðhorf, forvitni og persónulegt frumkvæði til að afla okkur nýrrar þekkingar og hæfni. Bilið sem varðar samkeppnishæfni á vinnumarkaði og möguleika til lífsgæða tengist í auknum mæli viðhaldi á hæfni og þekkingu. Sá sem tileinkar sér ekki nýja þekkingu og færni er síður í stakk búinn til að takast á við þær síbreytilegu kröfur sem atvinnulífið og samfélagið gera til hans. Þekkingin er orðin dýrasta aflið í samfélaginu.
Ásýnd atvinnulífsins breytist
Metsölurithöfundurinn Alvin Toffler, sem skrifaði m.a. bókina The Third Wave, heldur því fram að við séum komin inn í þriðja umbreytingatímabil sögunnar sem nefnt hefur verið "þekkingarsamfélagið". Fyrsta umbreytingatímabilið var fyrir um 10.000 árum þegar mannkynið hætti að hlaupa um slétturnar, settist að og hóf landbúnað. Þá hófst tímabil þar sem menn fóru að búa saman og þróa menningu. Landið varð verðmætt því þar mátti rækta.
Næsta umbreytingarskeiðið var iðnbyltingin sem hófst á 18. öld þegar mannkynið yfirgaf sveitina og landbúnaðinn og fór að vinna í verksmiðjunum, sem framleiddu vörur. Á þessu tímabili urðu framleiðsluþættirnir þrír: land, vinnuafl og fjármagn.
Í þriðja umbreytingaskeiðinu, sem við hrærumst í í dag, hefur hugvitið, þekkingin og kunnáttan leyst af vöðvaaflið og vélarnar sem undirstaða framfara. Þetta tímabil kallar Toffler "þekkingar- eða upplýsingatímabilið". Verðmæti fyrirtækja liggur ekki lengur í hlutum (landi, húsum, bílum, vörum á lager) heldur í þekkingu, þjónustu og upplýsingum. Fyrirtæki í dag eru þjónustu- og þekkingarfyrirtæki þar sem sérfræðingar vinna fyrst og fremst með upplýsingar, þekkingu, álit og fagmennsku. Þekkingin er orðin hráefni og hæfnin til að vinna þekkinguna er orðin verðmæti. Í dag þarf maður ekki endilega atvinnutæki eða verksmiðju til að hafa áhrif. Þekkingin og hæfnin eru orðin dýrmætari en framleiðslutækin. Þetta þýðir fyrir fyrirtæki eins og t.d. Delta, Íslenska erfðagreiningu og IMG að það eru ekki fasteignir, vélar eða tæki sem standa undir fyrirtækinu heldur þekking og hæfni starfsfólksins til að geta þróað, hannað og selt það sem fyrirtækið starfar við. Framtíð þessara fyrirtækja byggir á þekkingu og hæfni sem býr í kollinum á þeim starfsmönnum sem hjá þeim starfa.
Íslensk fyrirtæki verja 2% af launaveltu í fræðslumál
Þetta setur nútíma fyrirtæki í aðra aðstöðu en fyrirtæki hafa verið í hingað til, þar sem varan var stöðluð, vinnan oft tiltölulega auðveld og maður kom einfaldlega í manns stað. Vinnuaflið var mjög háð fyrirtækjunum og fyrir starfsfólk og vinnuveitendur var ástæða til að semja sérstaklega um sjálfsögðustu réttindi og skyldur. Í þekkingar- og þjónustusamfélaginu býr undirstaða verðmætasköpunarinnar í starfsfólkinu. Í dag er það geta fyrirtækja til að nýta sér sköpunargáfu, frumkvæði og hæfni starfsfólksins sem greinir á milli þeirra sem skara fram úr og þeirra sem sitja eftir í samkeppninni. Aldrei fyrr í sögunni hafa fyrirtæki verið jafn háð starfsfólkinu sínu og einmitt í dag.
Rannsóknir sýna að íslensk fyrirtæki bregðast við þessari þróun með því að leggja aukna áherslu á þjálfun og fræðslu. Í könnun Gallup um starfsmannastjórnun í íslenskum fyrirtækjum frá september 2000 voru svarendur spurðir um breytingar á ýmsum þáttum varðandi þjálfun og fræðslu starfsfólks á næstu tveimur árum í þeirra fyrirtæki. Allir svarendur telja að þjálfun og fræðsla almennt munu aukast á þessu tímabili. Ríflega 93% svarenda telja að útgjöld fyrirtækja til þjálfunar / fræðslu muni aukast á næstu tveimur árum. Tæplega tveir þriðju svarenda telja að þjónustunámskeið muni aukast og 83% svarenda telja að stjórnendaþjálfun muni aukast. 79% svarenda telja að aðkeypt þjálfun og fræðsla muni aukast. Í könnuninni kemur ennfremur fram að íslensk fyrirtæki verja að meðaltali um 2% af launaveltu í fræðslumál. Þetta eru sambærilegar tölur og gengur og gerist í Bandaríkjunum því að samkvæmt 2001 State of the Industry Report frá American Society for Training and Development (ASTD) var hlutfall launakostnaðar sem varið var til þjálfunar í Bandaríkjunum 1,8% árið 1999.
Vakning í samfélaginu um stöðuga þekkingaröflun
Fyrir einstaklingar þýða breytingarnar á vinnumarkaðinum að starfsframi hvers og eins er meira undir hverjum og einum kominn en áður var. Það er ekki lengur nóg að mæta samviskusamlega í vinnuna og stunda hana af kappi, heldur þurfum við að viðhalda þekkingu okkar og selja okkur sem hverja aðra vöru. Það hefur orðið ákveðin vakning hvað þetta varðar á síðustu árum og meiri áhersla hefur verið lögð á símenntun og þekkingaröflun sem hluti af starfi eða starfsskyldum fólks. Segja má í raun að nám og vinna séu að renna saman. Stéttarfélög eins og VR bjóða félagsmönnum sínum í vaxandi mæli aðgang að starfsmennta- og fræðslusjóðum sem hafa það að markmiði að styðja við endurmenntun félagsmanna og tryggja þar með stuðning til símenntunar á hverju ári. Menntamálaráðuneytið hefur einnig lagt sitt af mörkum til að hvetja til vakningar um stöðuga menntun og þekkingaröflun. Ráðuneytið setti af stað fimm ára átak árið 1999 og skipaði nefnd sem hefur það hlutverk að vekja athygli almennings á mikilvægi símenntunar og hvetja til virkrar þátttöku fólks í símenntun. Árlega verður haldinn dagur eða vika símenntunar meðan á átakinu stendur.
Svo lengi lærir sem lifir
Þekking í dag er með þeim hætti að skólalærdómur úreldist á nokkrum árum. Samkvæmt bandaríska prófessornum Dr. Dwight Allen, sem nýverið hélt fyrirlestur á Íslandi á námskeiðinu Lífsleikni á 21. öldinni á vegum Íslensku menntasamtakanna, úreldist helmingur allrar kunnáttu og fróðleiks sem fólk býr yfir á þremur árum. Áður fyrir skiptist starfsferill einstaklings í þrennt: nám, starf og eftirlaunaár. Það að koma úr námi og vera þá menntaður fyrir ævina á í dag ekki lengur við, heldur þurfum við öll að leita áframhaldandi og stöðugri (endur)menntunar ævilangt - frá vöggu til grafar - jafnhliða öðrum störfum. Menntun og þjálfun eru þannig orðin órjúfanlegur þáttur lífsferils okkar, við þurfum að læra eins og við munum lifa að eilífu. Afleiðing þessarar þróunar er að menntun mun færast nær afþreyingu og verða upplifun og lífsstíll í stað þess að vera kvöð. Hún verður ekki lengur eitthvað sem við verðum að fjarfesta í heldur eitthvað sem við viljum fjarfesta í og hafa ánægju af. Kröfurnar um að námskeið og þjálfun sé lifandi og skemmtileg munu aukast, menntun á að vera skemmtun.
Þekkingin opnar margar dyr
Stöðug endurnýjun þekkingar og þjálfunar opnar margar dyr og er nauðsynleg hverjum þeim sem vilja tryggja stöðu sína í nútímasamfélagi. Þetta á jafnt við um einstaklinga, vinnustaði og samfélög. Fræðsla og þjálfun hjálpar einstaklingum að auka þekkingu sína og færni til starfa, og styður þannig fyrirtækin sem þeir starfa í við að þróa og efla samkeppnishæfni sína. Námskeið auðvelda jafnframt einstaklingum sjálfum að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðinum og þar með möguleika til starfsframa og / eða breytingu í starfi. Slíkt getur síðan aftur leitt til aukinnar starfsánægju og möguleika á fjölbreyttara starfi eða meira krefjandi verkefna. Starfsfólk með sérhæfða þekkingu og kunnáttu stendur í dag auk þess yfirleitt mjög vel að vígi fjárhagslega séð og á síður við atvinnuleysi að stríða og aðrir. Námskeið gera fólk opnara fyrir nýjum hugmyndum og auka löngun þess til að læra meira. Óbeint leiðir þátttaka í námskeiðum til sjálfsstyrkingar, aukins sjálfstrausts og sterkrar ímyndar, sem er nauðsynleg þar sem starfað er í faglegu umhverfi.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í VR-blaðinu í september 2001.