Eitt af því sem ég kann að meta frá mínu fæðingarlandi Hollandi er umburðarlyndi en Hollendingar líta ekki aðeins á það sem dyggð heldur jafnvel sem þjóðlega skyldu.
Þeir bera mikla virðingu fyrir frelsi fólks að lifa lífinu eins og það sjálft kýs og standa vörð um rétt einstaklinga til að þroskast á ólíkum forsendum. Ég geri umburðarlyndi hátt undir höfði í skoðunum mínum til lífsins. En hvað felst nákvæmlega í umburðarlyndi?
1. Að fella ekki dóma
Í fyrsta lagi snýst þetta um það að breyta ekki fólki sem er ekki sama sinnis heldur frekar að njóta margbreytileikans og læra að virða líf og skoðanir annarra. Leyfa fólki að vera eins og það er án þess að fella dóma þegar það sem það gerir eða segir er okkur ekki að skapi. Það hafa nefnilega allir rétt á því að hafa sínar skoðanir hvort sem um er að ræða stjórnmálalegar skoðanir, trúmál, lifnaðarhætti eða fatasmekk svo nokkur dæmi séu tekin. Við þurfum að vera opin fyrir öðrum skoðunum og átta okkur á því að við erum öll mismunandi. Þetta snýst um sveigjanleika - það er jú ekki hægt að steypa alla í sama mótið. Margir hafa aðrar skoðanir og fara aðra leið í lífinu en við og með því að setja okkur í dómarasætið lítum við niður á þá og segjum í leiðinni að okkar leið sé æðri. Mikilvægt er að læra að sleppa þeirri hugmynd að manns eigin leið sé ávallt besta leiðin og hætta að ætlast til þess að aðrir séu eins og við.
2. Að leggja sig fram um að skilja fólk betur
Frekar en að reyna að breyta öðrum eða krefjast þess að aðrir sjái hlutina í sama ljósi og við reynum við að setja okkur í spor fólks og skilja það. Um leið og við skiljum hvers vegna fólk hegðar sér eins og það gerir erum við hætt að dæma það. Þegar við öðlumst aukinn skilning á fólki fáum við nýja sýn og nýjar hugsanir. Til að skilja fólk betur þurfum við að sýna áhuga, vera forvitin, spyrja spurninga og taka fólk alvarlega. Sýna því kærleika og virðingu og reyna að skilja tilfinningar þess, efasemdir og líðan. Með því skapast traust og gagnkvæm virðing.
3. Allir fá að vera eins og þeir eru
Það að leyfa fólki að vera eins og það er að viðurkenna það. Við höfum öll mismunandi hæfileika, kosti og lesti. Það sem okkur finnst gott er ekki endilega gott fyrir aðra. Hver og einn er með sín eigin viðmið. Hver erum við að ákveða hvað einhver ætti eða ætti ekki að gera? Þetta snýst um það að ræða það sem maður er ósammála um án þess að halda því fram að skoðun þín sé betri en skoðun hins aðilans.
Umburðarlyndi er ekki það sama og hlutleysi eða afskiptaleysi. Þegar okkur mislíkar eitthvað eða þá ef við teljum eitthvað siðferðilega rangt þá eigum við auðvitað að láta í okkur heyra. Þetta á t.d. við þegar um er að ræða mannréttindabrot, ofbeldi og grimmd. Lífsskoðun annarra má auðvitað ekki skaða né ganga á rétt annarra til orða og athafna.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 27. mars 2014.