Leynimorðingjar, einræðisherrar og nöldrarar

Erfiðir einstaklingar kosta okkur hin mikla orku og tíma. Við ergjum okkur á hegðun þeirra og upplifum okkur hjálparvana því það er erfitt að taka á þeim.

En það er einmitt ergelsið sem fær okkur til að grípa til aðgerða. Það að taka á erfiðum einstaklingum krefst góðs undirbúnings. En hvað gera þessir einstaklingar og hvað getum við gert til að hafa áhrif á hegðun þeirra til betri vegar?

Hér að neðan er gefið innsýn í hegðun nokkurra erfiðra einstaklinga og hvernig best er að bregðast við þeim.

Leynimorðingjar

Leynimorðingjar eru erfiðustu erfiðu einstaklingarnir, en þeir ráðast á þig aftan frá. Þeir gera lítið úr þér og nota hæðnar athugasemdir, gagnrýni og gróusögur sem vopn. Þeir forðast allar umræður um eigin athafnir og láta eins og þeir viti ekki neitt. Þeir safna gjarnan í kringum sig klíku þar sem sannleikanum er snúið á þann hátt sem hentar þeim.

Leynimorðingja þarf að reyna að standa að verki. Gerðu það skýrt fyrir þeim að þeir geti ekki ráðist á þig án þess að taka afleiðingunum. Farðu þó ekki í kappræður við þá vegna þess að þeir munu neita öllu. Reyndu að komast að því hversu stór klíkan er og láttu hana vita að þú vitir hvað sé að gerast. Ekki er skynsamlegt að afvopna leynimorðingja opinberlega. Gefðu þeim tækifæri til að halda andlitinu og talaðu við þá í einrúmi.

Einræðisherrar
Einræðisherrar eru háværir og öðlast vald með því að gera lítið úr öðrum. Þeir verða fljótt reiðir og eru oft óútreiknanlegir. Þeirra orð eru lög og þeir eru ekki hrifnir af hugmyndum sem rekast á við eigin hugmyndir.

Bestu viðbrögðin við slíkum einstaklingum eru að hörfa hvergi. Farðu ekki í sókn en verðu sjálfan þig og hugmyndir þínar. Ekki er ráðlegt að bregðast við meðan á reiðikasti einræðisherra stendur heldur bíða þangað til hann hefur róast. Veikleiki einræðisherrans liggur í lélegri sjálfsmynd hans og því er mikilvægt að viðurkenna sjálfsálit hans.

Skoðanaleysingjar
Skoðanaleysingjar eiga erfitt með að taka ákvarðanir og hafa tilhneigingu til að slá öllu á frest. Þeir eru eftirlátssamir og hafa sterka þörf fyrir að öllum líki vel við sig. Þeir reyna að draga upp jákvæða mynd af sjálfum sér og því hljómar allt sem þeir segja mjög vel. Þeir samþykkja oft hluti sem þeir standa kannski ekki á bak við síðar.

Skoðanaleysingjar hafa þörf fyrir stuðning. Gerðu þeim það auðvelt að koma fram með skoðanir sínar. Hjálpaðu þeim að forgangsraða og styddu þá þegar þeir loks ná að taka ákvörðun. Aldrei má ganga út frá því að samþykki þeirra þýði fullkomið "samþykki".

Hinn þögli
Þessir einstaklingar veita engar upplýsingar að fyrra bragði og svara oft með eins atkvæðis orðum. Þeir svara heldur ekki spurningunni hvers vegna þeir séu svona hljóðir. Þeir hafa oftast einhverja skoðun en láta hana ekki í ljós.

Best er að forðast spurningar sem hægt er að svara með "Já" eða "Nei". Gerðu hinum þögla ljóst að þú bíðir eftir svari. Þó að freistandi sé að grípa inn í til að draga úr spennunni er ráðlegt að sýna þolinmæði. Gerðu hinum þögla ljóst að þú fallist ekki á þegjandahátt hans. Gagnrýndu hann þó ekki fyrir þegjandaháttinn þar sem það gæti leitt til enn meiri þagnar.

Vitringar
Vitringar þykjast vera sérfróðir um allt og tjá sína skoðun þannig að svo virðist sem kunnátta þeirra sé afar mikil og einstök. Ekki er rými fyrir aðrar skoðanir og skrýtið að einhver skuli yfirhöfuð hafa aðra skoðun! Allt snýst um þeirra skoðanir og ákvarðanir en þegar ljóst er að þeir hafa rangt fyrir sér vita þeir alltaf nákvæmlega hvers vegna og hverjum það er að kenna.

Best er að vera vel undirbúinn þegar þú mótmælir vitringi. Hann hefur viðkvæmt sjálfsálit og því er mikilvægt að gera honum ljóst að þú virðir hugmyndir hans. Leggðu fram gagnrök í formi spurninga og kynntu mögulegar lausnir sem hugmyndir. Ekki er ráðlegt að hegða sér sem "gagn-sérfræðingi" þar sem það mun aðeins magna upp fjandskap. Skynsamlegt er að gera ekki lítið úr sjálfum þér eða þekkingu þinni því búast má við að vitringurinn verði þér sammála!

Nöldrarar
Nöldrarar gagnrýna allt og alla í kringum sig. Það er alltaf einhver sem gerir hlutina ekki nógu vel og það vantar alltaf einhvern sökudólg fyrir vandamálunum. Nöldrarar kvarta undan þér við aðra og undan öðrum við þig.

Best er að vera ekki sammála nöldrurum. Reyndu að gefa þeim engan gaum, en farðu varlega vegna þess að þeir geta auðveldlega eyðilagt góð samskipti. Mikilvægt er að taka ekki undir kvartanir þeirra og benda þeim á ábyrgð þeirra: Eftir allar þessar kvartanir verða þeir líka að taka þátt í að finna lausn.

Okkar ótti þeirrra styrkur
Við höfum alltaf val þegar við lendum í erfiðum einstaklingum. Við getum gert ekki neitt og látið þá vaða yfir okkur á skítugum skónum. Við getum líka forðast þá og reynt að halda samskiptum okkar við þá í lágmarki. Eða við getum tekið slaginn og neitað að sætta okkur við hegðun þeirra. Gott er að hafa bak við eyrað að þeirra styrkur liggur í okkar ótta. Okkar er valið!

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 28. mars 2001.