Þegar taka á upp nýjar venjur er gott að styðjast við eftirfarandi þrjár einfaldar reglur:
- Gerðu mjög einfalda útgáfu af nýju venjunni. Hún verður að vera það einföld að þú getir ekki sagt nei við henni. Gerðu t.d. 10 hnébeygjur fyrsta daginn.
- Auktu álagið smám saman. Gerðu t.d. 11 hnébeygjur á degi 2.
- Jafnvel eftir að hafa aukið álagið verða allar endurtekningar að vera einfaldar. Brjóttu verkefnið niður í viðráðanlegar einingar. Bættu við einni hnébeygju á hverjum degi. Þegar tölurnar fara hækkandi er gott að brjóta þær niður í minni einingar og taka t.d. þrjú sett (20-20-10).
Þegar við förum eftir þessum reglum byggjum við í fyrsta lagi upp þol með því að einblína á magnið. Þetta gerir okkur kleift að takast á við stærri áskorun seinna meir. Í öðru lagi gefum við líkamanum tækifæri til að jafna sig. Ef við hefðum tekið of margar hnébeygjur í byrjun hefðu harðsperrurnar hugsanlega skapað ákveðna hindrun. Í þriðja lagi drögum við úr andlegri byrði þess að ljúka við verkefnið. Hnébeygjurnar eru ekki of margar og krefjast því ekki mikillar hvatningar. Síðast en ekki síst þá einblínum við á venjuna frekar en að hafa áhyggjur af útkomunni.
Tökum nokkur fleiri dæmi.
Þig langar að hugleiða oftar:
- Hugleiddu í 60 sekúndur fyrsta daginn.
- Hugleiddu í 70 sekúndur á öðrum degi.
- Haltu áfram að auka við sekúndurnar og mínúturnar þangað þú verður komin(n) í viðráðanlega lengd, t.d. 10 mínútur. Síðan er hægt að brjóta tímann niður í smærri einingar, t.d. 5 mínútur á morgnana og fimm mínútur á kvöldin.
Þig langar að gera meira af því að fara út að ganga. Fyrsta skrefið er að fá þér skrefamæli.
- Gakktu 1000 skref á fyrsta degi.
- Gakktu 1100 skref á öðrum degi.
- Haltu áfram að auka við skrefin þangað til þú verður komin(n) í t.d. 10.000 skref á dag.
Þig langar að lesa fleiri bækur:
- Lestu í eina mínútu fyrsta daginn.
- Lestu í 2 mínútur á degi 2.
- Auktu við tímann þangað til þú verður komin(n) í tímalengd sem þú ert sátt(ur) við. Ef tíminn er orðinn of langur (t.d. 30 mínútur) gætirðu brotið hann niður í smærri einingar, t.d. tvisvar 15 mínútur.
Margt smátt getur skilað manni miklum árangri á stuttum tíma.
- Ef þú byrjar með eina hnébeygju og bætir við einni daglega tækist þér að gera 775 hnébeygjur á 30 dögum.
- Að taka 1000 skref á dag og bæta við 100 daglega þýðir að þú myndir taka heil 77.500 skref á 30 dögum.
- Ef þú lest í eina mínútu og bætir við mínútu daglega myndirðu lesa átta klukkutíma á 30 dögum, sem myndi líklega duga til að lesa 400 blaðsíðna bók.
Margt smátt gerir eitt stórt!
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 4. júlí 2014.