Maður sem nær árangri er með áætlun

Það er ekki tilviljun að sumir ná meiri árangri og koma oftar og fyrr í mark en aðrir. Rannsóknir sýna að þeir sem ná háum hæðum hafa haft það mark í miðið í einhvern tíma.

Þeir sem ná árangri hafa markmið og það er markið sem þeir miða á sem knýr þá áfram: Tindurinn fyrir fjallgöngumanninn, kakan fyrir bakarann og bókin fyrir rithöfundinn.

Til að geta nýtt þann kraft sem í okkur býr verðum við að einbeita okkur að því hvert við stefnum. Því ef við vitum ekki hvert við erum að fara þá er líklegt að við endum þar sem okkur langar ekki til að vera. Maður sem nær árangri er með markmið í huga og hugmynd (áætlun) um hvernig á að ná því. Stjórnlaust skip þarf tilviljun til að komast í höfn. Líf okkar getur ekki farið eins og við viljum ef við erum ekki með áætlun.

Árangur í nokkrum skrefum
Markmiðasetning er líklega mikilvægari en nokkurt annað í að ná árangri en almennt veit fólk lítið um hana. Með því að setja okkur skýr markmið tökum við fyrsta skrefið í áttina að árangri. Nokkur atriði þarf að hafa í huga:

  1. Öll góð markmið eru raunhæf og virka ögrandi á þann sem setur þau. Þeir sem eiga sér metnaðarfulla drauma ganga lengra en þeir sem eiga sér metnaðarlausa drauma. Við leggjum á okkur í samræmi við það sem þarf til.
  2. Mikilvægt er að skuldbinda sig til að ná markmiðinu. Skuldbinding gefur markmiðinu þýðingu, tilgang og hvatningu sem gerir okkur kleift að ná og viðhalda góðu gengi.
  3. Mikilvægt er að brjóta markmiðið niður í smærri einingar og áþreifanleg skref í aðgerðaáætluninni. Þannig eru bækur skrifaðar orð fyrir orð, blaðsíðu fyrir blaðsíðu, kafla fyrir kafla uns bókin er klár. 
  4. Við þurfum að geta brugðist við vonbrigðum á réttan hátt. Í lífinu þurfum við að takast á við bæði árangur og mótlæti. Það er ekki það sem kemur fyrir okkur heldur það hvernig við bregðumst við því sem kemur fyrir okkur sem ræður úrslitum um árangur okkar á hvaða sviði sem er.
  5. Þegar við verðum fyrir vonbrigðum er mikilvægt að breyta ekki ákvörðunum okkar heldur aðeins stefnunni. Í umhverfinu eru mörg atriði sem við höfum engin áhrif á, eins og t.d. umferðin, vaxtastigið, verðbólgan og hlutabréfamarkaðurinn.
  6. Við þurfum að sýna sjálfsaga og þrautseigju og gefast ekki upp, sama hvað gengur á. Því þegar komið er í mark þá sér maður ekki eftir mæðu og erfiði ferðarinnar.
  7. Gott er að treysta öðrum fyrir markmiðinu en aðeins þeim sem geta hjálpað okkur að ná því með því að veita okkur aðstoð, hvatningu og uppörvun.
  8. Mikilvægt er að mála mynd í huganum af því sem við viljum vera, gera eða eiga og sjá útkomuna fyrir okkur ljóslifandi. Stephen Covey orðar þetta skemmtilega með því að segja að hvert einasta hús sé byggt tvisvar, fyrst í huganum og síðan í raunveruleikanum.

Við erum það sem við hugsum og það sem við hugsum mest um er líklegast að muni gerast. Ef við horfum á lífið jákvæðum augum gerast jákvæðir hlutir. Sjónarhornið er jú það eina sem skilur á milli svartsýnna og bjartsýnna.

Skoski heimspekingurinn og rithöfundurinn Thomas Carlyle orðaði þetta þannig: "Maður með litla einbeitingu ráfar um og nær engum framförum þótt leiðin sé greið en einbeittur maður heldur stöðugt áfram, hversu erfið sem leiðin reynist."

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 16. apríl 2003.