Merkasti dagur ársins 2009

Þegar áramótin nálgast horfa margir til baka og rifja upp merka atburði sem gerðust á árinu sem er að líða. Merkasti dagur ársins 2009 er fyrir mér Þjóðfundardagurinn 14. nóvember í Laugardalshöll.

Þetta var sögulegur og algjörlega magnaður dagur sem fyllti mig bjartsýni og trú á að hlutir geti breyst þegar við snúum bökum saman. Þarna fengu 1500 fulltrúar heillar þjóðar, þekktir og óþekktir, tækifæri til að kynnast viðhorfum hverra annarra og koma sjónarmiðum sínum á framfæri um gildi þjóðarinnar og framtíðarsýn. Krafturinn og orkan sem leystist úr læðingi var ótrúleg og nánast áþreifanleg og maður fann einlægan vilja þátttakenda til að horfa fram á við og finna lausnir í sameiningu. Hugmyndaauðgi var ríkjandi og andrúmsloftið einkenndist af virðingu – virðingu fyrir hvert öðru og virðingu fyrir skoðunum annarra. Gildi þess að fá að ræða hugmyndir, hugsanir og skoðanir er ómetanlegt. Fólk fór með bros á vör inn í framtíðina að fundinum loknum og ég held að enginn hafi farið heim ósnortinn. Sú jákvæðni, bjartsýni og samhugur sem maður fann á svo áþreifanlegan hátt í Laugardalshöllinni hitti mig í hjartastað og var staðfesting á því að þessi þjóð getur hvað sem er.

Þátttakendur veltu fyrir sér þeim grunngildum sem þeir vilja leggja til grundvallar í samfélaginu, hvernig samfélagi þeir vilja vera þátttakendur í og hvernig samfélagi þeir vilja skila til barna sinna. Haldið hefur verið utan um allar þær tæplega 30.000 hugmyndir sem komu fram á fundinum og verða þær aðgengilegar öllum þeim sem áhuga hafa á vefsíðunni www.thjodfundur2009.is. Gagnabankinn, sem er gjöf Þjóðfundarins til þjóðarinnar, verður án efa verðugt rannsóknarviðfangsefni næstu ára auk þess sem samtök, vinnustaðir landsins, sveitarfélög, stjórnmálaflokkar og fleiri aðilar geta nýtt sér hann í sinni stefnumótun. Hugmyndum fundarins verður síðan fylgt eftir á næstu 12 mánuðum með ýmsum verkefnum, uppákomum og fundum.

Allir þeir sem tóku þátt í Þjóðfundinum og komu að honum með einum eða öðrum hætti bera ábygð á að tryggja að það sem kom fram verði ekki aðeins stafir á blaði. Við þurfum öll að tileinka okkur gildin og sýna þau í verki. Velta fyrir okkur hvernig við sýnum heiðarleika, virðingu, réttlæti og jafnrétti í verki og hafa þau til hliðsjónar við allar þær ákvarðanir sem við tökum. Setjast niður í okkar hópi og spyrja okkur: Fyrir hvað viljum við standa sem einstaklingar, fjölskylda, vinnustaður, samfélag? Hvernig viljum við hafa hlutina? Framtíðin er á okkar ábyrgð. 

Greinarhöfundur, Ingrid Kuhlman, var svæðisstjóri á Þjóðfundinum. Birtist í Fréttablaðinu 5. desember 2009.