Flest höfum við þörf fyrir að standa okkur, sýna dugnað og skila góðum afköstum. Dugnaður er dyggð í okkar samfélagi og það er lítið umburðarlyndi fyrir fólki sem sýnir litla virkni.
Samt er það þannig að iðjuleysi er beinlínis heilbrigt fyrir heilann; hann vinnur best þegar við tökum hlé.
Skipulag á flestum sviðum lífsins
Iðjuleysi er stórlega vanmetið. Stundum er jafnvel fullyrt að aðgerðarlausar hendur séu tæki djöfulsins. Allt frá iðnbyltingunni höfum við verið háð klukkum og verið þrælar tímans. Við höfum verið hvött til að nýta hverja einustu mínútu og láta tímann ekki fara til spillis. Markmiðið hefur verið að auka framleiðni og afköst.
Skipulagið hefur meira að segja náð út fyrir mörk vinnunnar. Hver einasta stund af þeim tíma sem við erum vakandi er skipulögð í þaula, jafnvel sumarfríið. Við styðjumst við gátlista sem hjálpa okkur við að forgangsraða í hvað tíminn okkar fer. Við setjum okkur markmið um að lesa eins margar bækur og við getum. Jafnvel skólabörn eru með stundaskrá sem heldur utan um kennslustundir, íþróttir og tónlistarskólann.
Iðjuleysi og heilinn
Þegar við erum önnum kafin er heilinn ekki endilega mjög virkur. Þegar við tökum aftur á móti hlé og gerum eitthvað sem virðist hafa minni tilgang eins og að spila vist, horfa á The Crown eða moka snjó fer heilinn á fullt í að leysa vandamál. Okkur finnst við vera að taka andlegt hlé en sá hluti heilans sem leysir vandamál hvílist aldrei og er virkastur þegar okkur dagdreymir.
Þessi tímabil hugsunar án meðvitundar bæta ákvörðunartökuna þar sem heilinn vinnur jafnt og þétt að því að leysa vandamál, án þess að við séum endilega meðvituð um það. Niðurstöður rannsókna í taugavísindum benda til þess að við séum meira skapandi þegar við sinnum tómstundum og slökum á en ef við erum stöðugt upptekin og önnum kafin. Það að gera ekki neitt sé í raun æðsta listin. Einmitt þegar við höfum ekkert að gera er allt mögulegt. Það býr mikill kraftur í þögninni.
Tómstundir og sköpun
Heimspekingurinn Aristóteles áleit tómstundir vera hornsteinn vitsmunalegrar uppljómunar. Hann trúði því að sannar tómstundir fælu í sér ánægju, hamingju og blessað líf. Þeir sem telja sér þurfa að vinna öllum stundum eru að hans sögn ekki í færi á að upplifa þessar ánægjulegu tilfinningar.
Í þrælaþjóðfélagi Aristótelesar neyddust margir til að vera stöðugt að vinna, þeir höfðu ekki tækifæri til að sinna tómstundum. Nú til dags hafa flestir þó nokkurn frítíma. Það sem skiptir mestu máli er reyndar ekki svo mikið að hafa tíma til að sinna skapandi verkefnum heldur frekar viljinn til að gera ráð fyrir óskipulögðum tíma þar sem hugurinn getur fundið lausnir á hagnýtum, skapandi eða vitsmunalegum vandamálum.
Skapandi einstaklingar þurfa hvíld til að heili þeirra geti framleitt nýjar hugmyndir og nýjungar. Ein leið til að ná þessari innri ró er að draga sig í hlé frá samskiptum við aðra. Einvera getur haft jákvæð áhrif á sköpunargáfuna. Samt gegna félagsleg samskipti einnig mikilvægu hlutverki í allri sköpun. Hugmyndir verða oft til þegar skapandi einstaklingar hittast og skiptast á skoðunum. Við erum jú félagsverur og skilum okkar besta árangri með aðstoð og hvatningu frá öðrum.
Innviðir iðjuleysis
Þegar borgir, bæir og þorp ná að laða til sín fjölda fólks sem hefur tilhneigingu til skapandi starfa eykst árangurinn. Innviðir iðjuleysis samanstanda af kaffihúsum, veitingastöðum, börum og öðrum stöðum þar sem ókunnugir kynnast og verða vinir og samstarfsmenn. Hér á landi mætti nefna staði eins og Hugmyndaráðuneytið, sem var stofnað 2009 og starfrækt í nokkur ár. Það stóð fyrir reglulegum hópfundum þar sem frumkvöðlar, hugsuðir og fagmenn frá ólíkum sviðum atvinnulífsins, háskólunum og stjórnsýslunni hittust og skiptust á hugmyndum og reynslusögum, hlustuðu á fyrirlestra, mynduðu tengsl og veittu hver öðrum stuðning til framkvæmda. Annað dæmi er klasasamstarfið en markmiðið með því er m.a. að vinna með stefnumiðuðum hætti að ákveðnum markmiðum um nýsköpun og vöxt. Blábankinn er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem styður fólk sem vill skapa sjálfbær tækifæri fyrir þorpið og heiminn. Síðast en ekki síst má nefna Hugvöll sem var stofnaður í janúar 2021 með það markmið að tengja saman öflugt og reynslumikið fólk sem stendur á tímamótum og bjóða því tækifæri til að styrkja tengslanetið, skapa sér atvinnutækifæri og auka þekkingu sína.
Staðir sem þessir veita innblástur, örva heilann og stuðla að alls kyns skapandi vinnu.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Vísi í örlítið breyttri mynd 24. september 2021.