Minnkaðu streitu með heilbrigðum lífsstíl

Streitan er óumflýjanlegur hluti daglegs lífs. Hún getur verið jákvæð þegar hún kemur fram við réttar aðstæður en heilsuspillandi þegar hún er langvarandi.

Við erum misvel í stakk búin til að mæta álagi. Sumir ná að halda ró sinni í mjög krefjandi aðstæðum á meðan aðrir fara yfir strikið við minnsta álag. Ef við náum að beina streitunni í réttan farveg getur hún verið jákvæður kraftur sem hvetur okkur til dáða og eykur einbeitinguna og afköst.

Hér fyrir neðan eru nokkrar ráðleggingar til að ná betri tökum á streitu:

 • Þekktu eigin streituviðbrögð og hversu mikið álag þú þolir. Taktu eftir viðbrögðum og aðvörunum líkamans. 
 • Listaðu upp hvaða streitu þú ert að upplifa og leitaðu leiða til að minnka hana.
 • Hliðraðu þér við þær aðstæður sem þú veist að valda þér streitu.
 • Gakktu úr skugga um að vinnuumhverfið þitt sé aðlaðandi og líf þitt vel skipulagt. 
 • Forgangsraðaðu rétt og bættu tímastjórnunina. 
 • Lærðu að segja nei og sýndu festu í samskiptum.
 • Taktu þér frí reglulega og notaðu alla þína frídaga. Undirbúðu þig vel þannig að þú neyðist ekki til að fylgjast með tölvupóstum í fríinu eða taka vinnutengd símtöl.
 • Tryggðu líkamanum nægan svefn. Það eykur einbeitinguna, bætir vellíðan og eykur afköst í starfi.
 • Hlustaðu á skilaboð líkamans og virtu þarfir hans og takmarkanir. 
 • Skoðaðu hvaða hugsanir fara í gegnum kollinn. Skiptu út órökstuddum neikvæðum hugsunum fyrir jákvæðar og uppbyggilegar.
 • Taktu frá tíma fyrir hvíld í hverri viku, t.d. með því að sinna áhugamáli.
 • Borðaðu heilsusamlegan mat. Forðastu efni sem örva streitu eins og t.d. koffín, áfengi, nikótín og sykur.
 • Drekktu vatn ríkulega.
 • Hreyfðu þig reglulega og veldu þá tegund hreyfingar sem þér finnst skemmtileg. Hreyfing er ein besta leiðin til vellíðunar.
 • Ræktaðu tengsl við vini, fjölskyldu og ættingja. Skapaðu heilbrigt jafnvægi milli starfs og einkalífs. 
 • Stundaðu hugleiðslu, slökun, jóga eða djúpöndun til að útrýma spennu bæði úr huga og líkama. Veldu þá aðferð sem hentar þér best.
 • Gefðu þér tíma til að njóta lífsins og gera hluti sem þú hefur ánægju af. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 21. febrúar 2014.