Intróvertar eða innhverfir eru oft misskildir í þessum heimi. Þeir eru ekki feimnir, hræddir við fólk eða félagslega ófærir.
Þeir eru ekki óhamingjusamir, þeir hata ekki fólk, þeir eru ekki óvingjarnlegir eða snobbaðir, og fullkomlega færir um að halda samræðum gangandi. Þeir taka til máls á almannafæri og geta verið mjög virkir í félagsstörfum. Munurinn milli extroverta og introverta er ekki að þeir fyrrnefndu eru góðir í að blanda geði við fólk en þeir síðarnefndu ekki. Munurinn er sá að extrovertar fá orku úr ytri heimi og umhverfi og endurnærast með samskiptum við annað fólk á meðan introvertar fá orku úr sínum innri heimi, hugsunum og íhugun og þurfa oft að hvíla sig eftir samskipti.
Intróvertar hafa oft mjög gaman af fólki, en aðeins í litlum skömmtum. Orka þeirra minnkar oft eftir að hafa varið tíma innan um stóran hóp af fólki og þá finnst þeim gott að hafa tíma fyrir sjálfa sig til að hlaða batteríin og tengja sig. Þeir eru oft ekki mikið fyrir kurteisissamræður. Þeir finna bara ekki fyrir þessari þörf fyrir að tala bara um eitthvað. Ef þeir hafa ekkert að segja, þá bara þegja þeir. Hópavinna og hópsamræður í námi eða á námskeiðum henta þeim ekki alltaf. Þeir þurfa oft að hugsa aðeins áður en þeir taka til máls. Á hugarflugsfundum þurfa þeir smá tíma til að skipuleggja hugsanir sínar. Þeim finnst oft gott að vera einir í rólegheitum eða í litlum hóp þegar þarf að skipuleggja eða útfæra hugmyndir. Þeir þurfa ekki annað fólk til að örva sig. Bestu hugmyndirnar fá þeir yfirleitt í góðu tómi í sófanum heima eða fyrir framan tölvuna.
Introvertar eiga ekki alltaf auðvelt uppdráttar í samfélagi okkar þar sem þykir oft betra að vera á útopnu. Það virðist einhvern veginn hærra metið að vera hópsækinn og félagslyndur en að vilja vera inni að lesa bók og fá intróvertar þá oft að heyra að þeir séu félagsskítur eða kunni ekki að skemmta sér.
Leyfum fólki að vera eins og það er án þess að dæma. Öll erum við jú einstök.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 16. janúar 2015.