Neikvæði heilinn

Þróunin hefur séð til þess að við mannfólkið erum fljót að bregðast við mögulegum ógnum í umhverfinu okkar, með því að skaffa okkur kerfi sem tekur eftir neikvæðum hliðum þess.

Mihaly Csikszentmihalyi höfundur bókarinnar Flow: The Psychology of Optimal Experience orðaði þetta þannig að þegar við höfum ekkert að gera þá sé hugur okkar ekki í stakk búinn til að koma í veg fyrir að neikvæðar hugsanir smeygi sig inn í sviðsljósið en hér geti verið um að ræða áhyggjur af ástarlífinu, heilsunni, fjárfestingum, fjölskyldunni og starfinu. Þessar hugsanir séu því ávallt á sveimi á útjaðri athyglinnar og bíði þangað til ekkert annað krefst athygli. Um leið og hugur okkar er tilbúinn að slaka á taki vandamálin sem biðu á hliðarlínunni yfir. 

Sálfræðingar eins og Ed Diener og David Meyers hafa bent á rannsóknir sem hafa sýnt af flest fólk segist vera í aðeins meira jákvæðu en neikvæðu hugarástandi stærsta hluta tímans. Upphafsmenn jákvæðnisálfræðinnar, þeir Seligman og Csikszentmihalyi, hafa aftur á móti haldið því fram að hugurinn hafi tilhneigingu til að vera neikvæður.

Csikszentmihalyi er á því, eins og kemur fram í tilvitnuninni hér fyrir ofan, að áhyggjur séu sjálfgild stilling hugans nema við séum upptekin af öðrum hugsunum. Það er þess vegna sem við þurfum stöðugt að leggja okkur fram um að flýja slíka „andlega óreiðu“ með því að læra að stjórna vitund okkar og beina athyglinni að hlutum sem koma okkur í hugflæðisástand – hlutum sem veita jákvæða endurgjöf og styrkja þá tilfinningu okkar að það sem við erum að gera hafi tilgang og skili árangri.

Seligman heldur því fram að heilinn sé forritaður til að vera neikvæður. Með öðrum orðum er allt of auðvelt fyrir heilann að einblína á áhyggjur og ótta og láta drungalegar hugsanir taka yfir. Rök Seligmans eru þau að forfeður okkar á ísöldinni hafi þurft að vera í viðbragðsstöðu til að lifa af, í aðstæðum þar sem veðrið var slæmt og lífið óöruggt og kvíðvænlegt. Hann segir að við höfum fengið gen þessara svartsýnu ísaldarmanna í arf en ekki gen bjartsýnu ættingja þeirra þar sem þeir voru líklegri til að hafa misst lífið í óvæntu flóði.

Ef maður skoðar þetta út frá þessu sjónarhorni er vit í því fyrir huga okkar að taka neikvæðar upplýsingar fram yfir jákvæðar. Þetta þýðir að við veitum gagnrýni miklu meiri athygli en hrósi sem dæmi, og veitum slæmum atburðum í lífinu eftirtekt frekar en góðum atburðum. Það er þess vegna sem rannsóknir sýna að fólk upplifir fleiri neikvæðar tilfinningar ef það tapar kr. 15.000 en jákvæðar tilfinningar ef það vinnur kr. 15.000. Þetta er líka ástæðan fyrir því að slæmar fréttir geta auðveldlega grafið undan góðu skapi á meðan góðar fréttir ná sjaldan að eyða slæmu skapi.

Í stuttu máli þá segir Seligman að neikvæðar tilfinningar hafi alltaf hæfnina til að sigra jákvæðar tilfinningar. Þess vegna benda Csikszentmihalyi og aðrir á það að við þurfum að læra að halda neikvæðu tilfinningum okkar í skefjum og magna jákvæðu tilfinningarnar.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman