Eðli starfa er að breytast. Stöðugt stærri hluti verkefna varðar þróun, framtíðina, aðlögun og breytingar. Því reynir mikið á hina skapandi hugsun og hún skiptir vaxandi máli í fyrirtækjum í dag.
Skapandi hugsun hjálpar fyrirtækjum að vaxa og dafna og kemur í veg fyrir stöðnun. Viðhorf einstaklinga getur haft mikil áhrif á sköpunargáfuna. Mjög margir gætu verið meira skapandi ef þeir hefðu rétt hugarfar. Hér að neðan eru dæmi um hugarfar sem getur hindrað skapandi hugsun:
1. "Oh, nei, vandamál". Viðbrögðin við vandamáli eru oft meiri en vandamálið sjálft. Margir forðast vandamál eða afneita því þangað til það er orðið of seint, aðallega vegna þess að þeir hafa aldrei lært viðeigandi viðbrögð við vandamáli. Bjartsýnt fólk fagnar og jafnvel leitar að vandamálum, lítur á þau sem áskorun og tækifæri til að bæta hlutina. Skilgreining þess er að vandamál er (1) að sjá muninn milli þess sem maður hefur og vill; (2) að viðurkenna eða trúa því að það sé til eitthvað betra en það sem maður hefur; og (3) tækifæri fyrir jákvæðar aðgerðir. Að leita að vandamálum og takast á við þau styrkir sjálfstraustið, eykur hamingju og gefur okkur betri stjórn á eigin lífi.
2. "Það er ekki hægt". Margir gefast upp áður en orrustan er hafin. Með því að telja sér trú um að vandamál sé óleysanlegt gefum við vandamálinu vald og styrk. Það hafa verið til efasemdamenn sem hafa t.d. haldið því fram að við myndum aldrei fljúga, aldrei fara til tunglsins og aldrei finna lyf við sjúkdómum. Rétt hugarfar birtist í þessum orðum: "Við framkvæmum hið erfiða strax, hið ómögulega tekur aðeins lengri tíma."
3. "Ég get þetta ekki", eða: "Ég get ekkert gert". Sumt fólk heldur að sérfræðingar geti hugsanlega leyst vandamálið en ekki það sjálft vegna þess að það er ekki nógu klárt. Ef við skoðum söguna þá kemur hins vegar í ljós að hlutir í fyrirtækjum eru yfirleitt fundnir upp af fólki utan starfssviðs fyrirtækisins. Sem dæmi þá var uppfinningamaður kúlupennanna prófarkalesari á meðan slökkvitækið var fundið upp af foringi í varahernum. Rétt hugarfar og hæfni til að leysa vandamál skipta hér mestu ásamt áhuga og skuldbindingu. Það er alltaf hægt að gera eitthvað. Jafnvel þó að ekki sé hægt að rífa vandamálið upp með rótum þá er alltaf hægt að gera eitthvað til að bæta ástandið.
4. "En ég er ekki skapandi". Öll erum við skapandi að einhverju leyti. Flestir geta náð mjög háu stigi sköpunar; maður þarf bara að horfa á krakka leika sér eða ímynda sér hluti. Sköpunargáfan margra var bæld á meðan á skólagöngunni stóð. En við þurfum ekki annað en að láta hana koma aftur upp á yfirborðið.
5. "Þetta er barnlegt". Í viðleitni okkar að virðast fullorðin gerum við oft grín að því skapandi og glettna viðhorfi sem settu mark á yngri árin okkar. En ef maður leysir vandamál sem bjargar hjónabandinu eða gefur manni stöðuhækkun eða kemur í veg fyrir sjálfsmorð besta vinar manns, skiptir það þá nokkru máli hvort annað fólk lýsi þessu sem "barnlegt". Gott er að hafa í huga að fólk hlær stundum þegar eitthvað er raunverulega fyndið, en oft þegar það vantar hugmyndaflug til að skilja aðstæðurnar.
6. "Hvað mun fólk hugsa?" Það er mikill félagslegur þrýstingur á alla einstaklinga um að gera eins og hinir í hópnum, vera eðlilegur og ekki frábrugðinn. Dæmi um það er þegar skapandi einstaklingur segir: "Af hverju setjum við ekki smá hvítlauk út í?" Svar: "Af því að það er ekki í uppskriftinni." Eða: "Af hverju ferðu þessa leið, hún er miklu lengri?". Skapandi einstaklingur: "Af því að mér finnst hún skemmtilegri." Viðbrögð: "Þú ert skrítinn, veistu það?"
Skapandi einstaklingar hafa oft áhyggjur af því að aðrir muni tala um þá eða finnast þeir skrítnir. Þetta er það sem flestir uppfinningamenn hafa lent í í gegnum tíðina, oft var gert grín að þeim eða þeir jafnvel settir í fangelsi. Lausnir eru oft nýjar hugmyndir, og nýjar, skrítnar hugmyndir mæta oft aðhlátri og fyrirlitningu.
7. "Ég geri kannski mistök". Í viðleitni sinni að finna upp ljósaperuna reyndi Tómas Edisson hvað sem hann gat og gerði um 1800 tilraunir. Eftir 1000 tilraunir var hann spurður að því hvort það væri ekki erfitt að gera svona mörg mistök. Edisson sagðist ekki hafa gert mistök, aðeins fundið margar leiðir sem virkuðu ekki.
Óttinn við mistök getur staðið í vegi fyrir skapandi hugsun. Lausnin er að breyta viðhorfi sínu gagnvart mistökum. Mistök eru hluti af lærdómsferlinu og hjálpa okkur við að ná árangri. Það er ekkert að því að gera mistök, svo lengi sem við lærum af þeim. Mistök eru líka merki um framkvæmdir og áreynslu, þau eru miklu betri en að gera ekki neitt. Þeir sem gera aldrei mistök, gera aldrei neitt. Og þeir sem gera aldrei neitt gera heldur engin mistök.
Greinarhöfundur: Eyþór Eðvarðsson. Birtist í Viðskiptablaðinu 14. maí 2003.