Margir upplifa aðventuna sem tímabil sem er fullt af ótal verkefnum og stressi. Við hugsum yfirleitt of mikið, skipuleggjum of mikið, og borðum og drekkum of mikið á þessum árstíma.
Förum á jólahlaðborð, tökum þátt í skipulögðum viðburðum í (tónlistar)skólanum hjá krökkunum, skellum okkur á jólatónleika, hlaupum kófsveitt á milli verslana, skreytum húsið fallegum ljósum, þrífum alla íbúðina hátt og lágt, bökum jólakökur, skrifum jólakort og mætum í ótal fjölskylduboð. Það er auðvelt að tapa sér og margir yfirkeyra sig í öllu þessu jólaati. Þegar jólin ganga svo loksins í garð erum við dauðuppgefin.
Hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð til að hægja á okkur og njóta:
- Hugleiddu daglega. Hugleiðsla dregur úr streitu, skapar meiri hugarró og sátt og eykur hæfni til að njóta.
- Dreifðu verkefnum. Aðventan og jólin eru fjölskylduhátíð. Því ekki að deila verkefnum með fjölskyldumeðlimum?
- Hafðu stjórn á eyðslunni. Það er óþarfi að fara fram úr sér og sitja svo uppi með skuldir og tilheyrandi stress og áhyggjur á nýju ári. Gerðu fjárhagsáætlun og haltu þig við hana.
- Haltu ofgnótt í skefjum. Það er freistandi að missa sig í kræsingum og gnægtum af mat og drykkjum. Nærðu líkamann með heilbrigðri, hollri fæðu og borðaðu óhollan mat í hófi.
- Gefðu til góðgerðarmála. Gefðu aukajólapakka fyrir bágstödd börn og farðu með föt sem þú ert hægt að nota í Rauða krossinn.
- Vertu í núinu. Að vera á staðnum er besta gjöfin. Slökktu á símanum og sjónvarpinu og njóttu samverunnar með fjölskyldu og vinum. Fáðu þér heitt kakó og piparkökur við kertaljós og njóttu.
- Gerðu raunhæfar væntingar. Lærðu að forgangsraða og segja nei. Það þarf ekki að mæta í öll boð. Hættu að keppast við að hafa allt fullkomið og sýndu velvild í eigin garð.
- Taktu frá tíma fyrir það sem gefur þér orku. Þetta getur verið eins einfalt og að lesa góða bók, hlusta á hugljúfa tónlist, fara í góðan göngutúr úti í náttúrunni eða föndra með börnunum.
- Hlæðu. Hláturinn er öflugt meðal fyrir líkama og sál. Hann hjálpar okkur að slaka á, eflir orkuna og eykur vellíðan. Gerðu eitthvað kjánalegt, horfðu á grínmynd eða leiktu þér við börnin.
- Þetta getur beðið… Spurðu þig hvort það skipti virkilega máli að þrífa alla skápana eða baka 18 sortir. Sparaðu orkuna fyrir það sem skiptir þig raunverulega máli.
- Slakaðu á og hvíldu þig. Jólin eru oft góður tími til að hvílast og hlaða rafhlöðurnar. Hættu að hlaupa, sittu kyrr, andaðu og njóttu.
- Sýndu þakklæti. Við höfum svo margt sem við getum verið þakklát fyrir. Stillum huga okkar á kærleika og ást.
Njótum aðventunnar og þess að vera til.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 6. desember 2016.