Njótum íslenska vorsins

Að varðveita og njóta, sem kallast á ensku „savoring“, er sú athöfn að meta, taka inn og njóta jákvæðrar upplifunar, skynjunar eða tilfinningar. 

Þetta snýst um að taka fullan þátt í augnablikinu og beina athyglinni vísvitandi á ánægjulega þætti upplifunar í þeim tilgangi til að auka hamingjutilfinningar og þakklæti. Við getum t.d. varðveitt og notið dýrindis máltíðar, góðrar tónlistar, gæðastundar með ástvinum, Norðurljósanna eða fagurs útsýnis. Eða notið þess að sitja á ströndinni og finna fyrir hafgolunni á meðan við horfum á sólsetrið. Að varðveita og njóta getur stuðlað að því að við verðum meðvitaðri um jákvæðar hliðar lífsins og finnum fyrir aukinni vellíðan.

Margar leiðir til að varðveita og njóta
Vorið er frábært tækifæri til að njóta einstakrar upplifunar sem þessi árstíð hefur í för með sér. Hér eru nokkrar tillögur til að njóta vorsins:

  • Verðu tíma utandyra: Farðu í göngutúr eða hjólaferð til að njóta veðursins og fylgistu með náttúrunni þegar hún vaknar til lífsins. Andaðu að þér fersku lofti og taktu eftir því sem þú sérð, heyrir, getur snert og finnur lykt af. Það hjálpar til við að dýpka þakklætið og ánægjuna.
  • Hægðu á þér: Gefðu þér tíma til að taka upplifunina inn að fullu. Að flýta sér í gegnum upplifun eða athöfn getur komið í veg fyrr að þú njótir jákvæðu hliðanna. Með því að hægja á þér gefur þú þér tækifæri til að taka betur eftir. 
  • Taktu eftir gróðursprettunni: Vorið er tíminn þegar tré og blóm byrja að spretta. Gefðu litum og ilmum plantnanna gaum. Heimsæktu grasagarð til að sökkva þér niður í fegurð árstíðarinnar. Leyfðu þér að finna fyrir þakklæti, gleði og ánægju.
  • Taktu þátt í vorverkum: Taktu þátt í árstíðabundnum athöfnum eins og garðvinnu eða lautarferð. Hoppaðu á trampólíni eða fljúgðu flugdreka. Athafnir sem þessar geta hjálpað þér við að tengjast kjarna vorsins og skapa dýrmætar minningar.
  • Æfðu núvitund: Einbeittu þér að líðandi stundu og fylgistu með umhverfinu án þess að dæma það eða reyna að breyta því. Gefðu þér tíma til að taka eftir smáatriðum, eins og t.d. sólinni á húðinni, aukinni dagsbirtu eða fuglasöng.
  • Forðastu truflanir: Til að einbeita þér betur að upplifuninni  er gott að lágmarka utanaðkomandi truflanir eins og frá snjalltækjum eða tónlist. Með því geturðu sökkt þér að fullu niður í augnablikið og notið þess á áhrifaríkari hátt.
  • Deildu með öðrum: Njóttu vorsins með vinum og fjölskyldu með því að skipuleggja útisamkomur, borða saman eða taka þátt í árstíðabundnum viðburðum eins og t.d. útitónleikum eða götugrilli.
  • Hugleiddu vöxt og endurnýjun: Vorið er tímabil endurfæðingar og nýs upphafs. Notaðu þennan tíma til að setja þér persónuleg markmið, taka breytingum fagnandi og einbeita þér að því að bæta þig.

Með því að einblína á ofangreinda þætti getur þú notið alls hins góða sem íslenska vorið hefur upp á að bjóða.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á visir.is 20. apríl 2023.