Það er kunn staðreynd að stórum hluta fólks vefst tunga um tönn eigi það að flytja ræðu og margir segjast ekki geta hugsað sér að gera slíkt.
Í bókinni The Book of Lists eftir David Wallechinsky, Irving Mallace og Amy Wallace var fólk í Bretlandi og Bandaríkjunum beðið um að nefna þau 14 atriði sem það kviði mest fyrir. Fjörutíu og eitt prósent þess setti það að koma fram fyrir hóp af fólki í fyrsta sæti, á undan kjarnorkustríði og gjaldþroti!
Þó að flestir séu kvíðnir fyrir að halda ræðu er engin ástæða til að missa stjórn á sér af hræðslu. Allir ræðumenn, jafnvel þeir sem lifa af því að flytja ræður og fyrirlestra, upplifa nokkurs konar spennu áður en þeir fara upp í pontu. Enginn er fæddur ræðumaður og það er allt í lagi að vera kvíðin(n) eða streitt(ur). Hóflegur kvíði er í raun jákvæður því hann veldur því að við nýtum betur hæfileika okkar og getu og afrekum meira. Með því að vinna með kvíðann getum við breytt honum í jákvæða orku sem hjálpar okkur í ræðumennskunni. Ekki er gott að losna algerlega við taugaspennu því það getur verið merki um að það að halda ræðu er orðið vanaverk og ræður okkar munu óhjákvæmilega endurspegla þetta viðhorf.
Kvíði hluti þess að þroskast
Gott er að hafa í huga að kvíðinn mun aldrei hverfa svo lengi sem við höldum áfram að vaxa, hann er hluti þess að þroskast. Ef við höfum ekkert til að óttast erum við farin að staðna. Eina leiðin til að ná tökum á kvíða er að fara og einfaldlega framkvæma það sem veldur okkur kvíða. Ef kvíðinn hamlar okkur ættum við að grípa hvert tækifæri sem gefst til að halda ræðu, eins og að halda fyrirlestur í grunnskóla barnanna, flytja þakkarávarp á óformlegri samkomu eða halda kynningu á vinnufundi. Það verður auðveldara með hverri ræðu sem við höldum.
Hjálplegt getur verið að gera sér grein fyrir að maður er ekki einn í þessu, að aðrir hafa upplifað svipaða hluti. Við erum ekki ein í að upplifa kvíða þegar við erum á ókunnugu svæði. Hver sá sem hefur nokkurn tíma talað fyrir framan hóp af fólki hefur upplifað sömu tilfinningar og við.
Annað sem gott er að hafa í huga er að það að ganga í gegnum ógnvekjandi reynslu er ekki eins hræðilegt og að lifa með undirliggjandi kvíða. Þó að við séum kvíðin fyrir að standa fyrir framan hóp af fólki og tala þá tekur aðeins nokkrar mínútur eða klukkutíma að flytja ræðu. Ef við vinnum aldrei bug á þessum kvíða okkar mun hann há okkur alla ævina. Okkar er valið!
Mikilvægi góðs undirbúnings
Besta ráðið til að sigrast á tauga er að mæta vel undirbúin(n) til leiks. Mikilvægt er að kunna góð skil á því efni sem fjalla á um. Huglægur undirbúningur eða sjónmyndun er einnig mikilvægur hluti þess að vinna bug á taugaóstyrk. Notaðu hugarflugið og reyndu að sjá velgengni þína og sjálfsöryggi fyrir þér í huganum. Ef þú gerir það er mjög líklegt að þér muni líða þannig þegar á hólminn er komið. Farðu yfir ræðuna í huganum, frá því fundarstjórinn kynnir þig og þangað til áheyrendur klappa fyrir þér. Þú talar skýrt og greinilega og nógu hátt til að allir geti heyrt til þín og segir það sem þú ætlar þér hiklaust og af öryggi. Þú ert róleg(ur) og ófeimin(n). Þú hefur fullkomna stjórn á aðstæðunum.
Sjálfsstyrkjandi innra tal
Annað sem við getum gert til að ná tökum á fyrirlestrarkvíða er að tala okkur til. Við eigum öll í innri samræðum (að meðaltali 70% af deginum) en erum yfirleitt ekki meðvituð um þær. Meðalhraði þessara innri samræðna er 800 orð á mínútu! Við notum þær oft í sjálfsásakanir, gagnrýni og niðurrif. Við hugsum um það sem við hefðum átt að gera eða segja eða ekki gera og ekki segja og rífum okkur niður. Neikvætt eintal við sjálf okkur magnar hræðslu og ýtir undir sjálfsefa og "Ég-get-það-ekki"-hugsanir. Dæmi um neikvætt innra tal er: "Ég er smeykur við að gera mig að fífli" eða "Ég klúðra öllum fyrirlestrum sem ég held." Mikilvægt er að temja sér jákvæðan og uppbyggilegan hugsunarhátt og snúa þessum neikvæðum niðurrifshugsunum yfir í jákvæðar staðhæfingar því okkur líður eins og við hugsum. Dæmi um jákvæðar fullyrðingar er: "Ég er hæfileikarík(ur) og vel að mér. Ég er fljót(ur) að læra. Ég get gert allt sem ég tek mér fyrir hendur. Enginn veit eins mikið um þetta viðfangsefni og ég." Þannig getur þú sannfært sjálfa(n) þig um ágæti þitt.
Sjálfsstyrkjandi eintal einblínir á möguleika og jákvæðar afleiðingar. Með því að tala við okkur sjálf á jákvæðan hátt hunsum við kvíða og það glæðir sjálfstraust sem gerir okkur mögulegt að yfirbuga hvaða hindrun sem er.
Nokkrar algengar aðstæður fyrir því að flestir kvíða því að þurfa að halda ræðu:
- Ég mun segja einhverja vitleysu og verða mér til skammar.
- Ég man örugglega ekki hvað ég ætlaði að segja.
- Áheyrendum þykir þetta örugglega heimskulegt.
- Ég er smeyk(ur) við að áheyrendur sýni engin viðbrögð eða finnist efnið leiðinlegt.
- Ég er smeyk(ur) við að einhver spyrji spurningar sem ég veit ekki svarið við.
- Ræðan er ekki fullkomin.
- Ég geri mig að fífli.
- Ég er smeyk(ur) við að gera mistök.
- Ég byrja að stama eða roðna.
- Það kemur allt öfugt út úr mér.
- Ég verð slegin(n) út af laginu.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 15. nóvember 2000.