„Þekktu sjálfan þig“, hin fleygu orð gríska heimspekingsins Sókrates sem letruð voru á hof Delphis fyrir um tveimur öldum síðan, eiga enn mikið við í dag.
Það er afar mikilvægt að vera meðvitaður um það sem gerir mann sérstakan. Öll búum við yfir sérstökum hæfileikum og við þurfum að læra að virða þá og virkja til að við getum notið okkar sem best í leik og starfi og verið besta útgáfan af okkur sjálfum.
Þegar við þekkjum vel eigin færni og styrkleika stöndum við einfaldlega betur að vígi.
- Vegvísir. Það að koma auga á eigin styrkleika auðveldar val á starfi eða námi. Okkur líður betur í starfi þar sem við getum nýtt styrkleikana og blómstrað. Það að þekkja styrkleikana getur forðað okkur frá röngu vali á námi eða starfsvettvang.
- Aukinn árangur. Það að átta þig á því sem við erum sterk í eða getum skarað fram úr í gerir okkur kleift að stefna hærra og ná enn meiri árangri. Við verðum einbeittari, lærum hraðar og hugmyndaflæðið eykst.
- Aukið sjálfstraust og stolt. Það að rækta hæfileikana eykur sjálfstraustið og gerir okkur sterkari. Við getum náð svo miklu lengra þegar við finnum ástríðuna og erum full sjálfstrausts.
- Meiri hamingja. Þegar okkur líður vel í eigin skinni erum við sannfærð um að við getum allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Að þekkja styrkleika sína hefur áhrif á hamingju okkar og gerir líf okkar betra.
- Innblástur og fyrirmynd. Þegar maður þekkir sína kosti og ýtir undir þá getur maður verið öðrum innblástur og lyft fólkinu í kringum sig upp.
Til að bera kennsl á styrkleika sína er gott að rýna í sjálfan sig. Eftirfarandi spurningar geta verið hjálplegar:
- Hvað ertu góð(ur) í og veitir þér ánægju? Gerðu lista yfir öllum þeim styrkleikum sem koma upp í hugann. Veltu fyrir þér hvernig þér líður þegar þú nýtir þessa styrkleika. Fylla þeir þig orku og gleði? Ertu í essinu þínu þegar þú sýnir þessa hæfileika? Ertu fljót(ur) að læra?
- Hvað hefurðu fengið þakklæti eða hrós fyrir?
- Farðu yfir listann og fækkaðu þeim niður í fimm til tíu aðalstyrkleika. Vertu eins nákvæm(ur) og hægt er.
- Staðfestu styrkleikana með því að nefna skýr dæmi sem sýna hvernig þú hefur þróað hvern og einn styrkleika. Eru einhverjir styrkleikanna hugsanlega vannýttir?
- Leitaðu til náins vinar, maka þíns eða samstarfsmanna og biddu um hreinskilna endurgjöf á það sem þú gerir vel að þeirra mati. Hvernig lýsir viðkomandi þér?
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 28. apríl 2014.