Á vinnumarkaðinum eru mismunandi kynslóðir með mismunandi væntingar, óskir, þarfir og skuldbindingar. Hvert lífsskeið hefur sínar eigin þarfir og spurningar sem við þurfum að koma til móts við. Fertugur einstaklingur hefur t.d. allt annað viðhorf en tvítugur.
Það sem einkennir líf tvítugs einstaklings er að hann er að uppgötva heiminn, prófar mismunandi störf, nám og möguleika og reynir að finna út hver hann er, hvaða hæfileika hann hefur og vill nota. Hans val er oftast tímabundið val. Ómeðvitað er hann að þróa sinn innri „áttavita“.
Mismunandi þarfir á mismunandi lífsskeiðum
Þrítugur starfsmaður hefur öðlast ákveðna sjálfsþekkingu og leitar eftir stöðugleika í þeim tengslum sem hann byggir upp. Á þessu stigi tekur skynsemin yfir og líf hans snýst mikið um skipulag. Hann er allt í senn að vinna að því að ná starfsframa, skipuleggur heimili sitt, stofnar fjölskyldu, þarf að borga niður námslán og fjárfestir í íbúð.
Aldurinn í kringum fertugt er skeið tilfinnings og andlegs þroska þar sem vitundin og tilfinningar skipta miklu máli. Einstaklingurinn reynir að finna út hvað það er sem honum finnist mikilvægt í því sem hann hefur lært og gert hingað til og hvað það er sem skiptir hann verulega máli. Hann finnur oft hjá sér þörf fyrir að skapa möguleika fyrir aðra og ná þannig árangri. Mörgum finnst þetta breytingaskeið mjög erfitt. Oft eru menn sér meðvitaðir um allt það sem er ekki lengur hægt og sjá aðallega það sem þeir missa af en viðurkenna ekki nýja möguleika sem þetta skeið felur í sér.
Einstaklingur á sextugsaldrinum verður oft að mikilvægri persónu og stuðningsaðila innan fyrirtækisins. Hann er ekki lengur upptekinn af sjálfum sér, horfir á hlutina utan frá og sér stóru línurnar. Hann er sá sem aðrir leita til, sem veitir ráð og miðlar af þekkingu sinni og reynslu. Hans viðvera skapar traust og öryggistilfinningu á vinnustað.
Mismunandi kynslóðir á vinnumarkaðinum
Á vinnumarkaðinum í dag starfar saman fólk á þessum mismunandi lífsskeiðum, fólk sem hefur mismunandi viðhorf og væntingar gagnvart starfi og vinnustað. Eldri kynslóðin, sem fæddist fyrir seinni heimsstyrjöldina, er trygg og trú vinnustaðnum, hefur trú á lögum og reglum og leitar eftir stöðugleika. Hún leit á starfið sem ævistarf og fékk oft gullúrið eftir 50 ára starfsaldur. Þetta er kynslóðin sem ber mikla virðingu fyrir yfirmönnum og leitast við að gera hlutina rétt. Hún er ekki mjög hrifin af nýrri tækni eins og faxinu, talhólfinu og tölvupósti, vill frekar hafa persónulegt samband.
Kynslóðin fædd á tímabilinu 1944-1960 leggur mikla áherslu á ánægju í starfi. Hún vill hafa skipulag á hlutunum, umboð til athafna og forðast ágreining. Mikil áhersla er lögð á þjónustulund og hópstarf. Þessari kynslóð tilheyra vinnualkarnir sem fæddust á uppbyggingartímabilinu eftir seinni heimsstyrjöldina.
Nintendó-kynslóðin eða X-kynslóðin, fædd á tímabilinu 1961-1980, ólst upp með skyndibitafæði, skyndikynni, klukkutíma framköllun og instant kaffi. Þessi kynslóð vill fá mikið og hún vill fá það strax, hún nennir ekki að bíða. Þetta eru lyklabörnin sem voru ein heima og eyddu tímanum í símann og tölvunni á meðan foreldrarnir unnu myrkranna á milli. Nintendó-kynslóðin leggur þar af leiðandi mikla áherslu á jafnvægi milli vinnu og einkalífs, hún vill fá sveigjanleika núna en ekki þegar hún er orðin sextug. Þessi kynslóð er mjög sveigjanleg og hugsar alþjóðlega. Hún vill fá reglulega endurgjöf á frammistöðu sína.
Gameboy og GSM-kynslóðin
Nýjasta kynslóðin, stundum kölluð Gameboy og GSM-kynslóðin, fædd á tímabilinu 1981-2003, hefur aldrei kynnst lífi án tölva. Hún lærði á tölvu áður en hún lærði að hjóla. Hún er mjög fær í að meðtaka mikið af sjónrænum upplýsingum. Hún leggur áherslu á markmið og árangur og er lærdómsfús, sækir menntun alla ævi. Þessi kynslóð ólst upp á uppgangstíma, hefur mikið sjálfstraust en ekki eins mikla reynslu af erfiðum samskiptamálum augliti til auglitis þar sem tölvupóstur, Internet og GSM hafa tekið yfir.
Áhrif fjölbreytni starfsfólks
Þar sem mismunandi kynslóðir starfa saman getur komið upp misskilningur. Aldursmunurinn milli yfirmanns og undirmanns getur t.d. haft áhrif og einnig kemur oft upp hræðsla eða tortryggni gagnvart því sem við þekkjum ekki. Þannig fæðast fordómar og einelti. Eldri kynslóðir tala t.d. oft illa um yngri kynslóðina: „Hún nennir ekki að leggja sig fram, er löt, vill ekki axla ábyrgð.” Yngri kynslóðin á hinn bóginn er oft sannfærð um að eldri kynslóðin sé íhaldssöm og eigi erfitt með að takast á við breytingar. Slíkir fordómar geta haft mikil og neikvæð áhrif á vinnustaðarmenninguna.
Jákvæð áhrif þessarar fjölbreytni á vinnumarkaði eru þau að fjölbreytt vinnuafl þýðir fjölbreyttar hugmyndir. Fjölbreytni gefur sveigjanleika til að fást við fjölbreytileika og breytingar. Breiðari hæfnisspönn og reynsla starfsfólks leiðir auk þess til betri frammistöðu og betri skilnings á markaðinum.
Samvinna milli kynslóða snýst um okkur sjálf
Þegar kynslóðabilið er skoðað ber að hafa í huga að munurinn á milli einstaklinga er mun meiri en munurinn á milli kynslóða. Fjölbreytileikinn er auk þess mikill innan kynslóða. Samvinna milli kynslóða snýst í raun meira um okkur sjálf en aðra. Í allri samvinnu er mikilvægt að hafa í huga að það að vera öðruvísi þýðir ekki að við erum betri eða verri, við erum bara öðruvísi. Samvinna snýst um að leggja sig fram við að skilja sjónarmið annarra. Að vera opinn og forvitinn og hafna ekki hlutum, fólki eða skoðunum eða dæma fólk fyrirfram. Að sjá það góða í öðru fólki. Stærsti hluti samvinnu er okkar eigið viðhorf. Eða eins og Carl Jung orðaði það:
Ef það er eitthvað sem við viljum
breyta í barninu, þá ættum við fyrst
að skoða það og sjá hvort það sé ekki
frekar eitthvað í okkur sjálfum sem
þarfnast breytinga.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 24. september 2003.