Samfélag okkar virðist vera gegnsýrt af neikvæðni. Daglega flæða yfir okkur fréttir af niðurskurði, slysum, stríðsátökum í fjarlægum löndum, gjaldþrotum, bráðnun jökla, skandölum fræga fólksins í Hollýwood, spillingu, yfirvofandi uppsögnum ofl.
Þar sem neikvæðu fréttirnar hafa greiðar aðgang að fjölmiðlum en þær jákvæðu og fá þar af leiðandi meira pláss verðum við ónæm og ómeðvituð um áhrifin sem þær hafa á daglegt líf.
Þegar við einblínum þetta mikið á neikvæðar fréttir síast smám saman inn hjá okkur að heimurinn sé ekki góður staður og staða mannkynsins vonlaus. Afleiðingin er að við erum minna líkleg til að reyna að breyta einhverju í samfélaginu. Það virðist vera niðurdrepandi og óyfirstíganlegt verkefni að stuðla að jákvæðum breytingum og þar af leiðandi gera margir ekki einu sinni tilraun til þess.
Mikilvægt er að velta fyrir sér hver beri ábyrgðina, eru það fjölmiðlarnir eða lesendur/áhorfendur? Líklega eiga bæði fjölmiðlarnir og áhorfendur/lesendur sinn þátt í þessu. Þegar maður skoðar sem dæmi mest lesnu fréttirnar á fréttavefnum mbl.is kemur í ljós að meirihlutinn er fréttir um glæpi og ofbeldi. Þetta er greinilega það sem selur, það sem fólk hefur mestan áhuga á og það sem fær mesta áhorfið. Ef fjölmiðlar eru einfaldlega að bjóða neytendum það sem þeir biðja um, hvernig getum við þá kennt þeim um neikvætt viðhorf í samfélaginu? Eða hefur ofgnótt þeirra neikvæðra frétta sem fjölmiðlarnir færa okkur kannski gert okkur ónæm fyrir þeim skaðlegu áhrifum sem þær hafa á viðhorf okkar? Ættum við að hvetja Alþingi Íslendinga til að setja kvóta á neikvæðar fréttir, eins og rúmenska þingið reyndi árið 2008 en án árangurs þar sem í ljós kom að lagafrumvarpið braut gegn stjórnarskrá landsins.
Það eru nokkur atriði sem við getum gert sjálf í baráttunni gegn neikvæðum fréttum:
- Við getum tekið þátt í að breyta viðhorfi okkar með því að veita jákvæðum fréttum meiri athygli og sneiða fram hjá neikvæðum fréttum. Það er nefnilega fullt af jákvæðum hlutum að gerast. Slík hugarfarsbreyting mun stuðla að breyttu og betra andrúmslofti í samfélaginu og hafa jákvæð áhrif á líf og heilsu fólks.
- Við getum kúplað okkur frá niðurdrepandi fréttalestri og -áhorfi eða dregið allavega stórlega úr því þótt ekki væri nema tímabundið. Slíkt fréttabindindi getur reynst nauðsynlegt þegar síbyljan hamrar á neikvæðninni.
- Við getum sjálf sett kvóta á neikvæðar fréttir og sett okkur markmið um að deila aðeins jákvæðum fréttum, t.d. í samfélagsmiðlum eða á kaffistofunni í vinnunni. Leggjum okkur fram á hverjum degi um að finna eitthvað jákvætt og segja frá því.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2014.