Við lifum á krefjandi tímum. Þetta ár hefur einkennst af djúpri og alltumlykjandi óvissu um hvað framtíðin beri í skauti sér og hvenær lífið verði orðið eðlilegt á ný.
Það er áskorun að búa við óvissu og finnast maður ekki hafa stjórn á neinu. Okkar verkefni er að læra að lifa með óvissunni því hún er í raun eina vissan sem við höfum.
Hér fyrir neðan eru sex leiðir til að takast á við óvissu.
1. Ekki streitast á móti
Það að streitast á móti gerir ekkert annað en magna þær krefjandi tilfinningar sem við erum að upplifa. Betra er að æfa samþykki, sem felst í því að mæta raunveruleikanum eins og hann er og halda sínu striki frekar en að lamast af óvissu eða ótta. Þetta þýðir ekki að við séum ekki lengur svekkt, vonsvikin eða sorgmædd yfir ástandinu. Stór hluti samþykkis er að sætta sig við hvernig manni líður. Samþykki er ekki það sama og uppgjöf. Að samþykkja aðstæðurnar þýðir ekki að þær muni aldrei batna eða verði óbreyttar að eilífu. Við samþykkjum aðeins hver staðan er á þessu augnabliki.
2. Ekki trúa öllu því sem þú hugsar
Á þessum óvissutímum er sérlega mikilvægt að trúa ekki verstu sviðsmyndinni sem við sköpum í huganum. Það getur vissulega verið gagnlegt að velta fyrir sér hvað gæti gerst til að vega og meta mögulegar hættur. Þegar við aftur á móti trúum neikvæðum hugsunum okkar höfum við tilhneigingu til að bregðast við eins og versta sviðsmyndin eigi sér þegar stað í raunveruleikanum, frekar en bara í höfðinu á okkur. Þá syrgjum við hluti sem við höfum í raun ekki glatað og bregðumst við atburðum sem eru ekki að gerast í raun og veru. Afleiðingin er að við verðum óörugg og reið. Þegar við búumst við því versta erum við oft of hrædd eða of þröngsýn til að grípa tækifæri eða bregðast við áskorunum með sköpunarkrafti og hugrekki að leiðarljósi.
3. Taktu eftir
Andstæða óvissu er ekki vissa heldur nærvera. Í stað þess að ímynda okkur ógnvekjandi og óþekkta framtíð er gott að athuga með okkur sjálf. Í hvert skipti sem við þvoum okkur um hendur getum við t.d. spurt okkur: Hvernig líður mér akkúrat núna? Taktu eftir þeim tilfinningum sem þú upplifir og hvar í líkamanum þú finnur fyrir þeim. Vertu forvitin(n) og samþykktu upplifun þína. Jafnvel þó að okkur líði eins og við ráðum ekki neinu getum við stjórnað því hvað við einblínum á. Við getum hætt að dvelja við neikvæðar hugsanir með því að einbeita okkur að því sem er að gerast í okkar innri heimi, hér og nú. Það gerir okkur kleift að rækta með okkur ró og víðsýni.
4. Hlúðu að sjálfum/sjálfri þér
Persónan okkar er verðmætasta auðlindin sem við höfum og því er mikilvægt að hlúa að okkur sjálfum, t.d. með því að rækta nærandi samskipti við annað fólk, tryggja nægan svefn og gera ánægjulega hluti. Ein leið til að hlúa að okkur sjálfum er að finna heilbrigða huggun. Þegar við erum óörugg virkjar heilinn dópamínkerfin sem ýta okkur í áttina að þægindum eins og nammiskálinni eða aukaglasi af rauðvíni. Í stað þess að snúa okkur að ruslfæði, samfélagsmiðlum eða áfengi til að róa taugarnar er betra að leita heilbrigðrar huggunar, t.d. með því að að taka lúr, hringja í góðan vin, fara í göngutúr eða hugleiða hvað við erum þakklát fyrir.
5. Hættu að bíða eftir að einhver bjargi þér
Þegar við upplifum okkur máttlaus eigum við það til að bíða og vonast eftir að einhver forði okkur frá eymdinni. Þó að áform annarra geti verið göfug er oft betra að treysta á sjálfan sig. Stundum hættum við að taka ábyrgð á eigin lífi þegar aðrir stökkva til og hjálpa okkur. Til að takast á við óvissu er gott að hætta að einblína á vandamálin og einbeita sér frekar að útkomunni sem við sækjumst eftir. Hvernig getum við gert það besta úr aðstæðunum? Hvernig getum við grætt á þeim? Þegar við tökum ábyrgð á eigin lífi fáum við vald til að skapa það líf sem við viljum lifa.
6. Finndu merkingu í ringulreiðinni
Merking er vitrænt og tilfinningalegt mat okkar á því að hve miklu leyti okkur finnst líf okkar hafa tilgang, virði og áhrif. Við upplifum oft mestu hvatninguna þegar við erum einhvers virði fyrir annað fólk. Við vinnum meira og betur og erum ánægðari með verk okkar þegar við vitum að einhver annar nýtur góðs af því. Okkur líður vel þegar við hættum að hugsa um okkur sjálf og erum til staðar fyrir aðra. Gott er að velta fyrir sér hvaða færni eða þekkingu við getum lagt til? Hvernig getum við orðið að liði?
Merking og tilgangur eru uppspretta vonar og geta skapað jarðtengingu þegar heimurinn virðist ógnvekjandi staður. Best er að bíða ekki eftir að bóluefni líti dagsins ljós heldur velta frekar fyrir sér hvað þig hafi alltaf langað til að gera. Hvaða útkomu vonastu eftir? Hvaða lífi langar þig að lifa?
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020.