Sjálfstraust er sú upplifun að eiga skilið árangur, velgengni, vellíðan, ánægju og hamingju. Við þurfum öll á sjálfstrausti og sjálfsöryggi að halda til að takast á við lífsins áskoranir og breytingar í umhverfinu okkar.
Einstaklingar sem búa yfir sjálfstrausti trúa á sjálfa sig og eigin getu. Þeir telja sig hæfa í starfi og líklega til að ná árangri. Þeir telja sig stjórna eða hafa áhrif á líf sitt og eru sannfærðir um að þeir muni geta framkvæmt það sem þeir óska, ætla og vonast eftir. Þeir þora að hafa óvinsælar skoðanir og læra af eigin mistökum. Einstaklingar með heilbrigt sjálfstraust hafa raunsæjar væntingar. Jafnvel þó að sumar þeirra bregðast halda þeir áfram að vera jákvæðir og bera virðingu fyrir sjálfum sér. Þeir samþykkja sjálfa sig og finnst þeir ekki þurfa að laga sig að öðrum til að fá viðurkenningu.
Fólk með lítið sjálfstraust á hinn bóginn er mjög háð viðurkenningu annarra til þess að geta liðið vel með sjálfu sér. Það hneigist til að forðast áhættu vegna ótta við mistaka. Það gerir almennt ekki ráð fyrir að ná árangri. Það talar niður til sjálfs síns og á það til að gera lítið úr eða hunsa hrós.
Sjálfstraust er ekki endilega almennt persónueinkenni sem gegnsýrir alla þætti lífsins. Við getum verið örugg á ákveðnum sviðum, t.d. í íþróttum eða stærðfræði, á meðan okkur getur skort sjálfstraust á öðrum sviðum, eins og t.d. í samskiptum við annað fólk eða framkomu okkar.
Niðurrífandi staðhæfingar og hugmyndir
Það sem getur haft mikil og niðurbrjótandi áhrif á sjálfstraustið eru ýmsar hugmyndir eða staðhæfingar sem fólk þróar með sér og telur víst að séu réttar, eins og t.d.:
Hugmynd: "Ég þarf ávallt að fá ást eða viðurkenningu frá öllum þeim sem skipta mig máli." Þetta er mjög óraunhæft markmið sem aldrei mun nást. Það er raunhæfara og æskilegra að þróa með sér viðmiðun og gildi sem eru ekki fullkomlega háð viðurkenningu annarra.
Hugmynd: "Ég verð að vera hæf(ur), vandvirk(ur) og árangursrík(ur) í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur." Hér er enn og aftur um að ræða óraunhæft markmið þar árangurinn er látinn ráða úrslitum um sjálfsvirðinguna. Árangur getur auðvitað verið ánægjulegur, en hann gerir þig ekki að verðugri manneskju.
Hugmynd: "Það sem gerðist í fortíðinni stjórnar hegðun minni og tilfinningum í framtíðinni." Það er mikilvægt að láta ekki slæma reynslu eða atburði í fortíðinni hafa heftandi áhrif á framtíðarmöguleika. Við höfum val til að ákveða hvað við viljum áfram láta hafa áhrif og hvaða lærdóm við ætlum að draga af slæmri reynslu.
Niðurrifshugsanir
Ef við samþykkjum ofangreindar hugmyndir eða staðhæfingar verðum við berskjölduð fyrir eftirfarandi niðurrifshugsunum:
- Allt-eða-ekkert hugsun: "Ég er gjörsamlega misheppnaður/misheppnuð ef árangur minn er ekki fullkominn."
- Að sjá aðeins dökk ský: Að gera ráð fyrir óréttlæti og óhamingju í hverju horni. Eitt neikvætt atvik, eins og t.d. að fá einkunnina 5 í stærðfræðiprófi, kemur fólki til að trúa því að það muni aldrei fá inn í háskólann.
- Að magna upp hið neikvæða og draga úr hinu jákvæða: Góðir hlutir hafa ekki eins mikil áhrif og neikvæðir hlutir. "Ég veit að ég muni ekki vinna fimm taflleiki í röð, en mér líður hræðilega með að hafa tapað þessum."
- Tilfinningar samþykktar sem sannleikur: "Úr því að mér finnist ég vera ljót(ur) þá hlýtur það að vera satt."
- Ofuráhersla á "ég ætti"-staðhæfingar: "Allir ættu að hafa starfsframaáætlun þegar þeir útskrifast. Ég er ekki með þannig áætlun þannig að það hlýtur að vera eitthvað að mér." Slíkar staðhæfingar tengjast fullkomnunaráráttu og endurspegla væntingar annarra frekar en eigin óskir og þarfir.
- Að kunna ekki að taka hrósi: "Finnst þér þetta vesti flott? Mér finnst ég vera svo feit(ur) í því."
Leiðir til að auka sjálfstraustið
Eftirfarandi leiðir geta hjálpað þér við að vinna bug á þessum niðurrifshugsunum og auka sjálfstraustið:
- Leggðu áhersla á styrkleika þína: Vertu ánægð(ur) með það sem þú gerir vel, jafnvel þó að það sé ekki fullkomið. Með því að leggja áherslu á það sem þú getur gefur þú sjálfum þér klapp á bakið fyrir að reyna frekar en að einblína aðeins á útkomuna.
- Taktu áhættu. Reyndu að nálgast nýja reynslu sem tækifæri til að læra og vaxa frekar en sem tækifæri til að mistakast. Með því að opna sig fyrir nýjum möguleikum er hægt að auka sjálfsvirðingu sína.
- Notaðu uppbyggilegt sjálfstal. Talaðu á uppbyggilegan hátt við sjálfan þig sem svar við röngum hugmyndum og staðhæfingum. Breyttu þeim í raunhæfari staðhæfingar. Ef þér finnst þú t.d. þurfa að gera allt fullkomið er gott að minna þig á að það er ekki hægt að ná fullkomnun og að það er aðeins hægt að gera eins vel og maður getur. Þar með viðurkennir þú sjálfa(n) þig á meðan þú heldur áfram að reyna að bæta þig.
- Leggðu raunhæft mat á sjálfa(n) þig. Lærðu að leggja raunhæft mat á sjálfa(n) þig í stað þess að treysta eingöngu á mat annarra. Með því að einblína á hvað þér finnst um eigin árangur, frammistöðu o.s.frv. nærð þú að bæta sjálfsálitið auk þess sem þú gefur ekki öðrum vald yfir þér.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 28. janúar 2004.