Sköpum minningar á Degi barnsins

Í dag 21. maí fögnum við Degi barnsins. Dagurinn, sem helgaður er börnum, var haldinn háíðlegur í fyrsta sinn þann 25. maí 2008. 

Eitt helsta markmið dagsins er að hvetja til ánægjulegra samverustunda foreldra og barna. Mikilvægt er að skapa fjölskylduvænt samfélag þar börn finna að á þau sé hlustað, þau tilheyri, upplifi ást og öryggi. Dagurinn er barnsins, setjum það og þarfir þess í fyrsta sæti. Leggjum allt annað til hliðar, slökkvum á snjalltækjum, veitum barninu óskipta athygli og sköpum jákvæðar og ánægjulegar minningar saman.

Leyfðu deginum í dag að kalla fram barnið í þér þar sem hlátur, forvitni og barnslegt viðhorf ræður ríkjum. Leyfðu þér að leika, taka þátt og njóta. Leyfðu deginum að fylla hjarta þitt af barnslegri gleði, hamingju og von.
Veldu að verja deginum í núvitund og vera fullkomlega til staðar í því sem þú tekur þér fyrir hendur. Taktu eftir líðandi stundu með fulla athygli og opinn huga. Leyfðu þér að finna friðinn í augnablikinu án þess að festast í fortíð eða framtíð. Leyfðu þér að njóta dags barnsins.

Gleðiöndun
Notaðu djúpa öndun til að hjálpa þér að sleppa takinu, auðvelda þér að leyfa barninu að vera við stjórn og njóta. Gleðiöndun er æfing sem ýtir undir gleði og vellíðan hjá þér og þínu barni.
Andaðu djúpt að og ímyndaðu þér að lungun og líkaminn fyllist af gleði.
Andaðu frá og leyfðu gleðinni að streyma frá þér.
Endurtaktu nokkrum sinnum þar til þú finnur gleðina umvefja þig.

Gæðastund fjölskyldunnar
Dagurinn í dag er tilvalin gæðastund fjölskyldunnar. Misjafnt er hvað fjölskyldumeðlimir flokka sem gæðastund. Hvettu barnið til að skipuleggja daginn, segðu já við tillögum þess, þó innan skynsamlegra marka. Leyfðu barninu að skapa sinn dag, fullan af athöfnum sem því þykja skemmtilegar eða ánægjulegar. Hér eru nokkrar tillögur:

  • Spila, púsla, baka, elda, dansa
  • Semja saman sögu eða brandara
  • Fara í leiki (bæði inni og úti)
  • Mála, leira, föndra
  • Fara í göngutúr, hjólatúr, fjöruferð
  • Fara í bíó, ísbúð, kaffihús, safn, bæjarferð
  • Horfa á mynd, vera á náttfötunum allan daginn
  • Taktu þátt í degi barnsins og leyfðu því að kalla fram bros með innihaldsríkri samveru án truflana eða áreitis m.a. frá snjalltækjum.

Sköpum ánægjulegar minningar á Degi barnsins sem barnið getur leitað í um ókomna tíð.

Greinarhöfundar: rafnhildur Sigurðardóttir, Ingrid Kuhlman og Unnur Arna Jónsdóttir. Birtist á Vísi 21. maí 2023.