Hvort sem þú ert einstaklingur sem pantar köku þegar samstarfsmaður á afmæli eða vinurinn sem allir treysta á til að panta borð á veitingastað eða miða á leiksýningu, þá ertu að sinna því sem vísindamenn kalla ósýnilega vinnu.
Um er að ræða ólaunuð störf sem gegnsýra líf okkar og við erum oft ekki mjög meðvituð um. Craig Lambert kallar þessi verkefni „skuggavinnu“ í bók sinni Shadow Work: The Unpaid, Unseen Jobs That Fill Your Day sem kom út 2015.
Erum með marga hatta á höfðinu
Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um skuggavinnu:
- Við afgreiðum okkur sjálf, hvort sem það er á bensínstöð, í grænmetisdeildinni eða á kassanum í matvörubúð. Gott dæmi um sjálfvirknivæðinguna er ónefndur stórmarkaður sem býður nú upp á nýjung þar sem viðskiptavinir geta skannað inn vörur með snjallsímanum. Áður en þeir mæta geta þeir sett vörur á minnislista í smáforritinu. Sjálfsafgreiðsla þýðir í raun enga þjónustu eða afgreiðslu þar sem við sjáum um allt sjálf.
- Við skráum okkur inn í tölvu við komu á heilsugæslustöð eða þegar við förum til tannlæknis, sjúkraþjálfara eða sérfræðilæknis.
- Á sumum veitingastöðum er okkur boðið upp á að panta mat og drykk með því að leggja snjallsímann upp að örgjörva og þá opnast síða í símanum þar sem hægt er að panta og ganga frá greiðslu.
- Við náum í hádegismat úr hlaðborði, fáum okkur áfyllingu á gosi og göngum síðan frá bakkanum, diskinum og servíettunum á þar til gerðum stað.
- Við verjum dágóðum tíma í að leita að hagstæðu flugi, gistingu og bílaleigubíl áður en ferðalagið til útlanda hefst á Keflavíkurflugvelli, þar sem við þurfum að sjálfsögðu að innrita okkur sjálf og skila töskunum.
- Við sinnum öllum okkar bankamálum sjálf á netinu eða í smáforritum.
- Við gúgglum eða skoðum YouTube myndbönd þegar eitthvað bilar og gerum sjálf við bílinn, brauðristina eða prentarann.
- Við leitum til læknis til að fá „annað álit“ eftir að við erum búin að greina okkur sjálf á netinu og finna út hvaða lyf eru í boði.
- IKEA er gott dæmi um skuggavinnu þar sem við skoðum fyrst bæklinginn á netinu og þurfum síðan að sækja ósamsett húsgögnin á lagerinn, flytja þau heim og setja þau saman sjálf.
- Við framkvæmum COVID sjálfspróf heima þegar við erum á leið á mannamót.
- Tölvur og snjallsímar hafa tekið yfir starf einkaritarans og halda utan um fundi, símtöl, tölvupóstsamskipti o.s.frv.
- Í stað þess að leita til ráðningarskrifstofu notum við síður eins og Alfreð sem bjóða upp á að skrá störf og taka vídeóviðtöl auk ýmissa úrvinnslutóla.
- Við útbúum starfsmanna- og þjónustukannanir á eigin spýtur með litlum tilkostnaði eða ókeypis forritum eins og SurveyMonkey eða Google Survey í stað þess að leita til fagaðila.
- Við kaupum gjafabréf í stað þess að verja tíma í að leita að gjöf og komum þannig skuggavinnunni yfir á aðra.
- Margir sem eru að leita að ást segja að síður eins og Einkamál eða Tinder verði að aukastarfi þar sem þeir verja mörgum klukkutímum í að skoða notendasíður, svara skilaboðum og skipuleggja stefnumót.
Verkefnin slíta sundur daginn
Ofangreind verkefni eru hæfilega léttvæg ein og sér. En samanlagt slíta þau sundur daginn hjá manni, lengja hann og læðast inn í frítímann. Í stað þess að hafa óslitinn tíma þar sem við getum einbeitt okkur að verkefnum okkar erum við stöðugt að skipta um hatta – við breytumst úr maka í gjaldkera og úr foreldri í starfsmann ferðaskrifstofu. Tæknin gerir okkur auk þess kleift að vera neytendur allan sólarhringinn, sem þýðir að við erum alltaf að og skiptum á milli hlutverka.
Skuggavinna hefur kosti og galla
Skuggavinnan hefur auðvitað ýmsa kosti eins og t.d. meira sjálfræði auk þess sem það getur sparað okkur bæði tíma og pening þegar við tökum t.d. sjálf bensín. En á móti kemur að skuggavinna getur skapað streitu og kostað orku. Auk þess tekur hún oft dýrmætan tíma frá fjölskyldunni og áhugamálum. Sérfræðiráðgjöf fær einnig sífellt minna vægi þar sem við reynum að bjarga okkur sjálf auk þess sem skuggavinna dregur úr félagslegum samskiptum, sem eru mikilvægur þáttur þegar kemur að vellíðan. Samtalið við starfsmanninn á afgreiðslukassanum, í bankanum, á bensínstöðinni eða hjá tannlækninum var kannski ekki ýkja spennandi en uppfyllti vissulega ákveðnar félagslegar þarfir.
Við höfum aldrei haft eins mikið að gera og nú, þrátt fyrir að vinnutími okkar hafi styst. Líklegt er að skuggavinna muni bara aukast á næstu misserum og árum. Við þurfum því að vera meðvituð um skuggavinnu í daglega lífinu þar sem það getur gefið okkur val og aukið lífsgæði. Að ferðast í og úr vinnu er sem dæmi launalaust verkefni sem við vinnum í þágu atvinnurekandans. Þegar okkur er gert kleift að vinna heima einn eða tvo daga í viku sparar það okkur ótal klukkustundir sem er þá hægt að nota í annað.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Vísi 29. október 2021.