Nú þegar kórónuveiran herjar á heimsbyggðina eykst streitan og tekur á sig nýja mynd. Margir hafa fært vinnustöðina heim og eru að reyna að samræma fjarvinnu og umönnun barna.
Daglegt líf hefur tekið töluverðum breytingum og við stöndum frammi fyrir spurningum sem við höfum aldrei þurft að takast á við áður:
Hversu oft á ætti ég að sótthreinsa hurðarhúna og ljósatakka? Á ég að nota andlitsgrímu í matvörubúðinni? Hvernig held ég mér í formi? Get ég faðmað barnabörnin? Ofan á þetta allt saman erum við hvött til að láta tímann heima ekki fara til spillis. Við eigum að hreyfa okkur, hugleiða, rækta tengslin við ástvini með notkun samskiptaforrita, elda hollan mat, lesa, baka, prjóna, spila og horfa á rafræna tónleika, til að nefna aðeins nokkur atriði. Auk þess þurfa margir að læra á nýja tækni til að geta unnið heima.
Hvernig er best að takast á við þessa nýju tegund af streitu?
Ákvörðunarþreyta
Upplýsingar breytast dag frá degi og upplýsingastreymið er stöðugt, hvort sem það er um faraldurinn sjálfan, samkomubann, búðarferðir, skólaáætlanir barnanna o.fl. Kórónuveiran neyðir okkur til að taka erfiðar ákvarðanir í óstöðugu og síbreytilegu umhverfi. Venjulega hugsum við ekki mikið um siðferðileg áhrif þess að panta mat á netinu og styðja þar með uppáhaldsveitingastaðinn eða hvort við ættum að bjóða eldri nágrönnum að versla fyrir þá í matinn.
Þessar ákvarðanir skapa sálfræðilegt álag. Á einum klukkutíma geta áhyggjur okkar farið frá því að hugsa um hvernig við getum passað upp á öryggi fjölskyldunnar og yfir í það að velta fyrir okkur hvað við ættum að hafa í matinn. Við erum að reyna að átta okkur á því hvernig við eigum að fóta okkur í þessum breytta heimi. Að finna út hvernig best sé að skipuleggja daginn eða forgangsraða verkefnum virðist skipta sköpum, sérstaklega þegar heimilið, sem var griðastaðurinn okkar, er nú allt í senn vinnustaður, samskiptamiðstöð, æfingasvæði og hálfgerð heimavist.
Slökunarstreita
Það er eðlilegt að upplifa tilfinningalega þreytu og streitu á meðan við erum að læra að takast á við nýjan veruleika. Vandamálið er hins vegar að mörg af okkar bjargráðum hafa horfið tímabundið, eins og t.d. að mæta í ræktina eða í sund, sækja tómstundanámskeið, hitta fólk í matarboði, syngja í kór o.s.frv. Að reyna að taka upp nýtt áhugamál getur jafnvel aukið álagið, sérstaklega hjá þeim sem finnast þeir ekki vera nógu afkastamiklir fyrir.
Lotte Dyrbye, sem er læknir við Mayo Clinic, eina af stærstu rannsóknarstofnunum heims, segir að fólk þurfi að finna hluti sem virki fyrir það, hvort sem það er hugleiðsla, göngur í einrúmi eða hámhorf á Netflix. Þetta þurfi að vera einstaklingsmiðað og það sé ekkert rétt eða rangt í þessu. Dyrbye segir að sumir upplifi mikla pressu til að nýta tímann heima vel og læra t.d. að spila á hljóðfæri eða skrifa bók. Það sé hins vegar óraunhæft að búast við því að þetta verði að veruleika, jafnvel þó að fólk hafi nægan tíma heima. Til að skapa ekki aukaálag er að mati Dyrbye betra að snúa sér að áhugamáli sem fólk er nú þegar með, það sem gleður það og dregur úr streitu. Kannski er það besta sem við getum gert í dag að gera ekkert og leyfa okkur að vera í stað þess að gera.
Þetta tekur allt saman enda
Fyrir utan pressuna sem margir upplifa yfir því að þurfa að standa sig vel í vinnunni bætast við fjárhagsáhyggjur, ótti við að missa vinnuna, áhyggjur af öldruðum foreldrum og vonbrigði vegna ferðalaga sem varð af aflýsa. Mikilvægt er þó að horfa á stóru myndina. Þetta er tímabundið ástand og það mun taka enda. Með hverjum deginum sem við höldum okkur heima og virðum nálægðartakmörk komumst við nær lokapunktinum.
Jákvæðu fréttirnar eru að þessi heimsfaraldur gæti jafnvel kennt okkur eitthvað nýtt og breytt sjónarhóli okkar. Við verðum líklega öll betri og sveigjanlegri í að aðlagast nýjum aðstæðum.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2020.