Streita: ógnun eða áskorun?

Streita er einkenni dagslegs lífs, öll þekkjum við streitu og öll upplifum við streitu, sumir þó meira en aðrir. Fólk er mismunandi vel í stakk búið til að mæta álagi.

Sumir ná að halda ró sinni í mjög krefjandi aðstæðum á meðan aðrir fara yfir strikið. Það er líka einstaklingsbundið í hve langan tíma við þolum streitu. Fyrst þegar streituástand er orðið langvarandi og farið upp fyrir streituþol okkar fer það að hafa neikvæð áhrif á frammistöðu okkar og vellíðan.

Til eru nokkrar skilgreiningar á hugtakinu streita. Sumir tala um aðstæður sem streituvalda, aðrir halda því fram að streita sé birtingarform á viðbrögðum við ógnandi aðstæðum og álagi. Enn aðrir sjá streitu sem samspil umhverfis og einstaklings. Hér að neðan er farið nánar ofan í ofangreindar skilgreiningar.

Streituvaldandi aðstæður
Þegar fólk talar um streitu er oft vísað í ógnandi þætti, atburði eða aðstæður sem hafa áhrif á einstaklinginn. Þessar aðstæður geta verið í ytra umhverfinu en einnig í einstaklingnum sjálfum, t.d. hugsanir og tilfinningar.

Srfræðingar hafa mikið rannsakað tengsl sjúkdóma og breytinga í lífi fólks og sett saman lista yfir ýmsar breytingar og þá streitu sem þeim fylgir (sjá töflu 1). Stigafjöldi sem nemur hundrað á þessum lista þýðir mesta hugsanlega röskun, stigafjöldinn núll stendur fyrir breytingu sem hefur ekki áhrif. Dæmi um aðstæður í lífi fólks sem kalla fram mikil streituviðbrögð eru andlát maka, skilnaður, alvarleg veikindi eða slys, andlát náins ættingja og uppsagnir. Aðrir starfstengdir þættir sem geta kallað á streitu eru m.a. yfirvinna, ágreiningsmál á vinnustað, ófullnægjandi endurgjöf á frammistöðu, óskýr hlutverk og óvissa um framtíðina.

Ekki aðeins neikvæð atriði valda streitu því almennt talin jákvæð atriði eins og brúðkaup, frí, að vinna verðlaun eða fjölgun í fjölskyldunni kalla einnig fram streituviðbrögð. Streita tengist þannig ekki aðeins ógnunum og neikvæðum tilfinningum eins og kvíða og hræðslu heldur einnig áskorunum og jákvæðum tilfinningum eins og ákafa og spennu.

Viðbrögð líkamans við álagi
Önnur skilgreining á streitu er að hún er viðbragð líkamans við álagi og streituvaldandi aðstæðum. Viðbrögðin eru mismunandi eftir aðstæðum og einstaklingsbundin, það sem veldur streitukasti hjá einum getur verið áskorun fyrir aðra. Einkennum sem geta bent til streitu er gjarnan skipt upp í líkamleg einkenni, andleg einkenni og hegðunareinkenni. Dæmi um líkamleg einkenni eru hækkandi blóðþrýstingur, örari hjartsláttur, meltingartruflanir, vöðvabólga, svefntruflanir og breytingar á líkamsþyngd. Andleg einkenni eru einkenni eins og kvíði, pirringur, reiði, leiði, vonleysi, erfiðleikar við að einbeita sig og kyndeyfð. Hegðunareinkenni sem sjást glöggt eru m.a. árásargirni, eirðarleysi, notkun áfengis eða annarra vímuefna, ofát eða lystarleysi, slök frammistaða, mistök í starfi og tíðar fjarvistir. Hér er um að ræða mjög greinilegar breytingar á lífsmynstri fólks.

Oft getur verið erfitt að skilja á milli ofangreinda flokka. Hugsanir og tilfinningar um streitu geta valdið líkamlegum og hegðunartengdum einkennum. Líkamleg einkenni geta aftur á móti haft áhrif á hegðun einstaklingsins.

Samspil einstaklings og umhverfis
Streita er stundum skilgreind sem afleiðing ekki nógu góðrar aðlögunar einstaklings að umhverfinu. Hér er um að ræða samspil á milli krafna, ógnana og breytinga í umhverfinu annars vegar og hæfni einstaklingsins til að takast á við þær hins vegar. Streita tengist þá því hvernig einstaklingur aðlagar sig nýjum og truflandi atburðum og aðstæðum.

Það er einkum tvennt sem ræður því hvort samspil einstaklingsins og umhverfisins sé árangursríkt eða ekki: Í fyrsta lagi það hvernig hann skynjar aðstæðurnar og í öðru lagi hvaða aðferðum hann beitir til að stjórna þeim og tilfinningum sínum. Innri tjáskipti okkar þ.e. hvernig við tölum við okkur sjálf hafa mikil áhrif á hvernig við skynjum það sem gerist í kringum okkur. Við tölum oft á neikvæðan hátt við sjálf okkur og rífum okkur niður í stað þess að hvetja sjálf okkur til dáða. Neikvætt innra tal magnar hræðslu og ýtir undir sjálfsefa og "Ég-get-það-ekki"-hugsanir. Slíkar hugsanir hafa svo aftur mikil áhrif á upplifaða streitu. Mikilvægt er að temja sér jákvæðan og uppbyggilegan hugsunarhátt og snúa neikvæðum niðurrifshugsunum yfir í jákvæðar staðhæfingar því okkur líður eins og við hugsum.

Fyrsta skrefið við að ná tökum á streitu er að þekkja eigin streituviðbrögð og vita hversu mikið álag við þolum. Þeir sem eru ekki meðvitaðir um eigið tilfinningalegt ástand eru ekki líklegir til að geta stjórnað því. Næsta skrefið er svo að læra að stjórna og meðhöndla þessar tilfinningar því ef við nýtum okkur streitu á uppbyggjandi hátt getur hún verið jákvæður kraftur, sem hvetur okkur til dáða og laðar fram sköpunargáfu.

Tafla 1. Breytingar á högum fólks og sú streita sem þeim fylgir
Andlát maka 100
Skilnaður 73
Fangelsisdómur 63
Andlát náins ættingja 63
Alvarlegt slys eða veikindi 53
Uppsögn 47
Að fara á eftirlaun 45
Brúðkaup 50
Þungun 40
Nýtt starf 36
Breytingar á vinnustað 39
Að ná afbragðsárangri 28
Frí 13
Jólin 12
   
100 = mesta mögulega röskun

 
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 31. janúar 2002
.