Þakklæti – leið til fyllra lífs

Þakklæti er ekki málefni sem er mikið rætt í íslensku samfélagi. Það má líka gera því skóna að íslenskur menningarheimur og arfleifð ýti frekar undir þá tilhneigingu að þykja fínt að vera sinn eigin herra og engum háður.

Þó það sé vissulega gott á stundum og henti þjóðarsálinni ágætlega má telja fullvíst að það myndi hreint ekki vera til skaða ef okkur tækist að innleiða nokkuð meiri þakklætisanda yfir víkingana í landi elds og ísa. Fyrir þeirri fullyrðingu liggja nokkrar góðar staðreyndir.

En hvað er þakklæti? Spurningin hljómar óþörf, hver veit ekki hvað þakklæti er? Hverjum var ekki kennt að þakka fyrir sig sem barni? Sennilega öllum, það má telja fullvíst. Málið er þó ekki alveg svona einfalt. Raunverulegt þakklæti er upplifun sem hefur bein áhrif á líkamsstarfsemi, bæði veitanda þess og þiggjanda. Það felur í sér nokkrar staðreyndir og ef við drögum þær fram verður ljóst að þakklæti er ekki sama og þakklæti ef svo má að orði komast.

Raunverulegt þakklæti felur í sér viðurkenningu á því að við erum öll öðrum háð, líf okkar væri ekki það sama og ekki eins gott ef við hefðum ekki notið margvíslegra góðra „gjafa“ frá mörgum öðrum. Þetta viðhorf felur í sér ákveðna auðmýkt gagnvart lífinu. Hér sést strax hvernig þetta stangast á við vestrænan hugsunarhátt sem gerir sjálfstæði einstaklingsins og því að vera engum háður hátt undir höfði. Í vestrænum samfélögum viðgengst að vera í eilífum samanburði og finnast maður „eiga rétt á“ hinu og þessu en þetta eru hindranir til upplifunar virkilegs þakklætis.

Raunverulegt þakklátt viðhorf til lífsins felur í sér að koma líka auga á og þakka fyrir það sjálfsagða, það sem er allt í kringum okkur alltaf og við höfum verulega tilhneigingu til að taka sem gefnu. Þetta eru hlutir eins og falleg sólarupprás, heilbrigði, fegurð fossanna, börnin okkar, makinn, góðmennska annarra, möguleikinn að lifa, lífið sjálft. Skoðað í þessu ljósi verður það ljóst að þakklæti hefur tilhneigingu til að taka á sig trúarlegan blæ, enda er þakklæti einn af hornsteinum allra trúarbragða og vanþakklæti fordæmt og jafnvel álitið ein stærsta synd sem hægt er að hugsa sér. Það er þó viðsjárvert að einskorða þakklæti við trúarbrögðin, í raun er engin ástæða til þess. Þó má benda á að þar sem hefðir trúarbragðanna fela í sér ástundun þakklætis þá hafa trúaðir ákveðið forskot en komið hefur í ljós í rannsóknum (Emmons, 2007) að trúaðir eru líklegri til að líta veröldina þakklátum augum en trúlausir og njóta því fremur þeirra jákvæðu áhrifa sem þakklæti veitir. Meira um jákvæðu áhrifin hér á eftir.

Rannsóknarniðurstöður á áhrifum þakkláts lífsviðhorfs
Robert A. Emmons er sálfræðingur sem hefur síðustu ár rannsakað áhrif þakklætis á fólk, heilsu, hamingju og samskipti. Í bók sinni Thanks! (2007) greinir hann frá niðurstöðum rannsókna sinna sem verða að teljast athygliverðar svo ekki sé meira sagt. Emmons segir frá margvíslegum rannsóknum gerðum á mismunandi hópum og meðal þeirra er klassísk þriggja hópa rannsókn. Allir hóparnir fá það verkefni að skrá vikulega hjá sér 5 atriði frá vikunni á undan. Einn hópurinn á að skrá það sem vakti með þátttakendum þakklæti, annar atriði sem fóru í taugarnar á þátttakendum en sá þriðji á einungis að skrá 5 atriði sem höfðu áhrif á þá. Þetta er gert um nokkurra mánaða skeið. Fyrir og eftir eru tekin viðamikil próf af þátttakendum og aðstandendum sem eiga að varpa ljósi á andlega og líkamlega heilsu, ímynd þeirra, svefnvenjur, mataræði, hamingjustig, líkamsræktarvenjur og margt margt fleira. Til að gera langa sögu stutta má segja að niðurstöðurnar séu verulega áhugaverðar. Þetta einfalda atriði að hugleiða einu sinni í viku (markvisst) það sem fólk getur þakkað fyrir leiðir samkvæmt niðurstöðum Emmons til betri heilsu, betri svefns, minni streitu, meiri gleði og hamingju (25% hamingjusamari), betri samskipta, meiri ákafa, meiri ánægju með líf sitt, meiri bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar (1,5 tímum lengur í hverri viku) og er þá talið aðeins hluti þeirra góðu áhrifa þess að veita þakklætisgaum góðum hlutum í lífinu. Niðurstöðurnar eru eiginlega of góðar til að vera sannar en eru alls ekki einsdæmi og hafa verið endurteknar með mismunandi hópum. En hvað var það eiginlega sem fólk nefndi sem þakklætis- og pirringsvaka? Það er freistandi að álíta að þetta hljóti að hafa verið stórir og mikilsverðir atburðir í báðum tilfellum. Svo var þó ekki. Sem dæmi um þakklætisvaka nefndi fólk: rausn vina, réttinn til að kjósa, að hafa lært allt sem ég hef lært, Guðsgjöf ákveðninnar, sólarlag gegnum skýin, það að fá að vera lifandi, að tengdafólkið byggi í aðeins 10 mínútna fjarlægð. Með öðrum orðum, allt hversdaglegir hlutir sem hver og einn hefur nóg af. Sama er upp á teningum með pirringsvakana en þetta eru dæmi um það sem var nefnt; erfitt að finna stæði, subbulegt eldhús sem enginn vill þrífa, peningar sem eyðast fljótt, skattarnir, ekki til peningur fyrir bensíni, húsið okkar lyktar eins og mykjuhaugur, brenndi ostamakkarónurnar mínar, gerði vini greiða sem hann kunni ekki nógu vel að meta. Eða með öðrum orðum, allt hversdagslegir hlutir sem allir upplifa. Ekki þarf að taka fram að hóparnir voru mjög áþekkir áður þannig að sú breyting sem sást á þeim virðist eingöngu koma til vegna þeirrar athygli sem hóparnir veittu ýmist þáttum sem vöktu þakklæti eða pirring. Niðurstöður hlutlausa hópsins féllu nokkurnveginn mitt á milli þakkláta og pirraða hópsins.

Í stuttu máli má segja að þessar niðurstöður og aðrar sem Emmons og fleiri hafa fengið með rannsóknum sínum á ávinningi þess að temja sér þakklátt viðhorf til lífsins séu skýr skilaboð til okkar um að það sé einfaldlega hollara að hafa slíkt viðhorf fremur en annað, í líkamlegum og andlegum skilningi.

Þakklæti og lífshamingja
Það að ná að höndla hamingjuna hefur verið eilífðarverkefni okkar mannfólkins, allir vilja að sjálfsögðu geta sagt að þeir séu hamingjusamir. Því miður hefur margt komið í ljós sem rennir stoðum undir að hver og einn virðist hafa nokkuð fastsettan hamingjukvarða. Að vinna í Lottóinu til dæmis sveiflar fólki upp í meiri hamingju í svolítinn tíma en svo dettur fólk niður á fyrra stig hamingjunnar, hvort sem hún var mikil eða lítil. Þetta eru vissulega dapurlegar fréttir fyrir alla þá sem ætla sér að verða ríkir í þeirri fullvissu um að þá höndli þeir hina raunverulegu hamingju. En ekki er öll von úti. Þakklæti hefur mikið verið skoðað í ljósi áhrifa sinna á hamingjustig einstaklinga. Það er  sérlega athyglivert og upplífgandi að svo virðist sem að það að þróa með sér þakklátara lífsviðhorf hafi varanleg áhrif til hækkunar þessa náttúrlega hamingjustigs okkar.

Leiðir þakklátt lífsviðhorf til stöðnunar?
Það er óhjákvæmilegt að spyrja þess hvort það að temja sér að gleðjast yfir hlutunum og lífinu eins og það er í dag og þakka fyrir það ástand, feli ekki í sér þá áhættu að fólk hætti að gera kröfur og verði bara sátt við stöðuna eins og hún er í dag? Í fljótu bragði litið gæti það leitt mann að þeirri niðurstöðu að þakklátir væru síður til þess fallnir að leiða framfarir. Niðurstöður Emmons benda til þess að svo sé alls ekki. Rannsóknir sem hann gerði á getunni til að finna lausnir á vanda sýndu að það að finna fyrir þakklæti (í sinn garð) gerði þátttakendum kleift að leysa þrautir mun hraðar og jók líkur á lausn verulega. Fleiri rannsóknir studdu þetta á margvíslega vegu. Svo virðist sem einmitt það að auðsýna þakklæti og verða fyrir því hafi þau áhrif að fólk leiti fremur lausna og gangi betur við það heldur en án þessara tilfinninga. Ef litið er aftur til rannsóknar Emmons sem sagt er frá hér að ofan þá er vert að taka eftir því að það sem fólk lætur fara í taugarnar á sér og hafa neikvæð áhrif á hugsun sína eru ekki stór eða mikilsverð atriði. Fólk er að ergja sig á litlum hversdagslegum hlutum sem tilheyra daglegu lífi. Sama gilti um þakklætið, þetta voru ekki stórir hlutir sem vöktu það. En það hugarástand sem fylgir þakklætinu virðist gera fólk hæfara til að nýta hugsun sína og þekkingu í lífi og starfi og því líklegra til að ná árangri en pirraðir og neikvæðir.

Vanþakklæti – stóra syndin
Ein leið til að skoða áhrif þakklætis er að skoða andstæðu þess, áhrif vanþakklætis. Skortur á auðsýndu þakklæti er álitið merki um allt frá vanþroska til ills innrætis. Þetta virðist gilda um flest, ef ekki öll, samfélög. Vanþakklæti getur verið af tvennum toga, þ.e. fólk sýnir ekki þakklæti vegna gleymsku, feimni eða óttans við að sýnast veiklyndur svo dæmi séu tekin. Þetta er sennilega algengasta form vanþakklætis. Hinsvegar er til virkilegt upplifað vanþakklæti sem lýsir sér í þeirri lífssýn að viðkomandi skuldi öðrum ekki neitt, finnist hann eiga rétt á því sem viðkomandi fær og helst meira, finnist aðrir óæðri í samanburði við mikilfengleik hans sjálfs. Félagslegar afleiðingar slíks viðhorfs geta verið slæmar. Slíkir einstaklingar eiga á hættu að einangrast og þeim helst illa á vinum. Tengslanet þeirra er veikt og félagslegur stuðningur takmarkaður. Slíkir einstaklingar lenda úti á kanti í samfélaginu nema til komi völd vegna peninga, ættarstöðu eða þvíumlíks. Það er svolítið gaman að velta þessu fyrir sér í ljósi sögufrægra persóna. Það má til dæmis spyrja sig um ævi og örlög Hallgerðar Langbrókar sem sögð var skapstór og langrækin og náði óbeint að sálga þremur eiginmönnum. Hefði lífshlaup hennar verið öðruvísi hefði hugarfarið verið annað?

Þakklæti sem varanlegt lífsviðhorf
Það er ljóst að það eru margar góðar ástæður fyrir því að temja sér þakklátt lífsviðhorf. Það má til dæmis benda á að það er almennt orðið samþykkt að jákvæðni sé mikilvægur eiginleiki í fari fólks og ljóst er að þakklæti getur verið ein leið til að öðlast þessa jákvæðni. Það krefst þó tíma og ástundunar að læra þakklætið. Fyrir það fyrsta þarf að samþykkja að þakklæti verður að koma innan frá sem sönn og auðmjúk tilfinning. Það hefur verið sýnt fram á að sé þakklæti nýtt sem leið til að koma sínu á framfæri eða af öðrum eigingjörnum hvötum þá hefur það ekki þessi margvíslegu jákvæðu áhrif sem virkilegt þakklæti hefur, málið er því nokkuð snúið. Það er heldur ekki hægt að þröngva þakklátu viðhorfi upp á hugann með því til dæmis að reyna að hugsa um þakklæti sínkt og heilagt. Ein góð leið til æfingar þakklætis er að halda dagbók svipað eins og var líst hér að ofan. Önnur athyglisverð leið er að skrifa þakklætisbréf til einhvers sem hefur gert manni eitthvað gott en maður hefur ekki náð að þakka almennilega fyrir og helst lesa það fyrir viðkomandi. Áhrifin eru furðusterk og vara svo mánuðum skiptir.

Þakklátt lífsviðhorf verður að teljast vera leið sem fara þarf ævina á enda og er ekki einföld skyndilausn í neinum skilningi þess orðs. Allar líkur eru samt á að sú leið verði bæði innihaldsríkari og skemmtilegri en margar, ef ekki flestar aðrar. Veitum þakkir og gleðjum þar með okkur sjálf og aðra, öllum til góðs.

Greinarhöfundur: Þórhildur Þórhallsdóttir.