Tíminn flýgur

Þegar ævilokin nálgast hafa margir þörf fyrir að velta fyrir sér hvað skiptir raunverulega máli. Fólk, þegar það horfir til baka, óskar þess oft að það hefði tekið aðrar ákvarðanir um líf sitt. Margir hugsa um það sem þeir gerðu og ennþá fleiri um það sem þeir hefðu viljað gera en gerðu ekki.

Margir eru með eftirsjá með tilliti til persónulegs lífs síns. Þau markmið sem menn stefndu að fóru oft á kostnað annarra þátta eins og fjölskyldunnar og vinanna. Vinnan hefur gagntekið þá og þeir hafa ekki fundið tíma til að taka þátt í neinu öðru sem skiptir þá verulegu máli, eins og t.d. að stunda áhugamálin, horfa á leikrit barnanna í skólanum eða einfaldlega lesa skáldsögu. Vinnan er oft tekin fram yfir fjölskylduna á meðan við hugsum "Einn daginn þá..." og þannig frestum við því sem okkur langar að gera. Við höldum að það sé nægur tími eftir, en uppgötvum þegar við horfum til baka að það var ekki tilfellið. Það sorglega er að það eru ekki margir á dánarbeðinu sem óska þess að þeir hefðu varið meiri tíma í vinnunni. Útfararstjórinn á enn eftir að hitta ekkjuna sem kvartar undan því að eiginmaður hennar varði of litlum tíma á skrifstofunni!

Mörg hlutverk til að sinna
Nýlegar rannsóknir sýna að næstmesti streituvaldurinn í vinnunni er það að reyna að samræma vinnu og einkalíf. Við lifum erilsömu lífi og reynum að halda jafnvæginu milli starfsframa, fjölskyldunnar og annarrar ábyrgðar og áhugamála utan vinnunnar. Við dreifum tímanum yfir margt í einu og reynum að uppfylla allar þær væntingar sem samfélagið, vinnan og fjölskyldan gera til okkar. Margir finna sig neydda til að fórna fjölskyldunni fyrir vinnunna. Þeir eru með hugann við vinnuna þegar þeir verja tíma með fjölskyldunni og eru með samviskubit þegar þeir verja of miklum tíma í vinnunni.

Höfum allan þann tíma sem til er
Tíminn er merkilegt fyrirbæri. Við höfum öll jafn mikið af honum: 24 klukkustundir á dag, 7 daga í viku, ekki minna og ekki meira. Við höfum öll of mikið að gera. Tíminn er miklu meira virði en peningar, því við getum alltaf aflað meiri peninga, en við getum ekki endurlifað lífið. Um leið og tíminn er farinn kemur hann ekki aftur. Við getum ekki skapað tíma og við getum ekki geymt hann, aðeins varið honum. Við getum ekki einu sinni ákveðið að verja honum, aðeins hvernig. Tíminn er lífið. Þess vegna er mikilvægt að við komumst í tengsl við innri gildi okkar, það sem skiptir okkur raunverulega máli, bæði í vinnunni og í einkalífinu. Við þurfum að ákveða hvað við viljum fá út úr lífinu.

Margir bíða eftir vakningu
Margir taka meiri tíma í að skipuleggja sumarfríið en lífið sitt. Við lifum lífinu af hendingu í stað þess að lifa því af ásettu ráði. Að skipuleggja okkur og ákveða hvað við viljum fá út úr lífinu getur veitt okkur mikla ánægju. Tilfinningin að við stjórnum eigin lífi og höfum áhrif á það sem gerist er mjög mikilvægt fyrir vellíðan okkar. Stundum er það ekki fyrr en þegar ástvinur okkar deyr, við stöndum í skilnaði eða fáum þau tíðindi að við erum með ólæknandi sjúkdóm að við förum að sinna því sem við vitum að gefur lífinu gildi. Við sjáum allt í einu það sem hefði geta orðið, en varð aldrei af því að við vorum of upptekin. Það sorglega er að margir fá aldrei slíka vakningu.

Í upphafi skyldi endirinn skoða
Stephen Covey, höfundur bókarinnar Seven Habits of Highly Effective People, mælir með því að við veltum fyrir okkur hvar við viljum vera stödd á síðasta degi lífs okkar í vinnunni, með fjölskyldunni, með vinum o.s.frv. Svarið við þeirri spurningu hjálpi okkur við að einblína á markmiðin okkar í lífinu. Næsta skrefið er að skoða hvar við stöndum í dag og hvernig við getum komist þangað sem við viljum fara.

Önnur spurning sem getur vakið okkur til umhugsunar um hvort það sé samræmi milli þess sem við gerum og þess sem við þráum, er að velta fyrir okkur hvernig við myndum vilja verja tímanum ef við ættum aðeins hálft ár eftir ólifað. Algeng svör við þeirri spurningu eru: Verja meiri tíma með vinum mínum, ferðast, mynda dýpri tengsl við börn eða maka. En eftir hverju erum við að bíða? Af hverju gerum við aðalatriðin ekki að aðalatriðum? Af hverju er ekki hægt að verja meiri tíma með ástvinum í dag eða mynda dýpri tengsl? Málið er að við höfum aldrei nægan tíma fyrir allt, en við höfum alltaf tíma til að gera það sem skiptir mestu máli. Eina leiðin til að fá tíma til að gera það sem okkur langar til að gera er að taka hann. Tíminn flýgur, um það höfum við ekkert val. En við getum valið hvort við erum farþegar eða flugmenn. Hvort ert þú?

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman.. Birtist í Viðskiptablaðinu 27. febrúar 2002.