Þó að glerþakið sé vissulega ennþá til staðar á íslenskum sem erlendum vinnustöðum draga konur sjálfar oft úr möguleikum á meiri starfsframa með tjáskiptum sínum.
Þetta er það sem kom í ljós í könnun Catalyst, sem er rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtæki sem einbeitir sér að málefnum kvenna. Þegar spurt var hvernig konur gæti aukið árangur sinn sagði 61% að konur þyrftu að þróa með sér kröftugri samskiptastíl.
Höfundar könnunarinnar nefna í grein sinni tíu atriði sem geta haft neikvæð áhrif á starfsframa kvenna og hvað þær geta gert til að ná meiri árangri.
1. Að kinka kolli of mikið. Með því að kinka kolli erum við að segja: “Ég heyri hvað þú ert að segja. Ég skil þig.” Hægt er að mistúlka þetta sem samþykki við hugmyndir. Að kinka kolli í sífellu getur verið upplifað sem veikleiki og getur leitt til misskilnings.
2. Ris raddarinnar í lok setningar hljómar hikandi eins og verið sé að spyrja spurningar. Þetta getur dregið úr trúverðugleikanum og eykur hættu á að verða ekki tekin alvarlega. Mikilvægt er að röddin hnígi í lok setningar þar sem ris í íslensku tali þýður óvissu eða spurningu á meðal hníg þýðir kröfu eða yfirlýsingu.
3. Veikt orðalag. Að setja fram yfirlýsingu og biðja síðan um staðfestingu, eins og t.d.: “Þetta er góð hugmynd, finnst þér ekki?” “Er þetta ekki frábær vara?”, getur dregið úr sannfæringu og áhrifum. Orð eins og “sumir”, “bara”, “aðeins”, “vonandi” og “ég held” eru dæmi um veikar fullyrðingar. “Þetta er bara hugmynd”, “Vonandi kom ég þessu til skila”, “Ég held að þetta hafi tekist vel” eru ekki nógu sterkar fullyrðingar. Að biðjast afsökunar á ábendingum sínum getur haft sömu áhrif. Mikilvægt er að nota kröftug orð til að koma skilaboðum sínum á framfæri.
4. Að láta aðra grípa fram í. Rannsóknir hafa sýnt að karlar eiga það til að grípa oftar fram í en konur. Konur eru líklegri til að leyfa slíkt og leyfa viðmælandanum þar með stundum að eigna sér heiðurinn af hugmyndum sínum. Því væri gott að segja: “Ég er ekki búin”, “Geymdu þessa spurning” eða einfaldlega halda áfram og klára mál sitt.
5. Að tjá sig ekki að fyrra bragði. Mikilvægt er að láta skoðun sína skýrt í ljós og taka virkan þátt um umræðum, t.d. á fundum. Þetta getur verið eins einfalt og að undirstrika það sem einhver annar sagði eða bæta einhverju nýju við. Sumir bíða þangað til þeir fá orðið eða eiga erfitt með að vekja athygli á sér. Stundum er nauðsynlegt að grípa fram í til að koma sínu á framfæri.
6. Að tala of lágt. Að tala lágt er oft merki um óöryggi eða skort á sjálfstrausti. Öndunin skiptir mjög miklu um hvort tal okkar er skýrt og hljómar vel. Ef við öndum grunnt og höfum lítið loft í lungunum berst röddin illa. Því er mikilvægt að beita röddinni rétt, nota þindaröndun og tala það hátt að allir heyri í okkur. Ef áheyrendur þurfa að leggja við hlustir missa þeir áhugann. Það dregur úr sannfæringarkrafti og athygli ef hugmyndir eru settar fram með óstyrkum rómi.
7. Að leyfa öðrum að eigna sér hugmyndir. Algeng kvörtun kvenna er að karlmenn eigni sér hugmyndir þeirra. Þegar þetta gerist er mikilvægt að láta í sér heyra með því að segja t.d.: “Fyrirgefðu, ég nefndi þetta fyrir mínútu síðan.”, “Er þetta frábrugðið því sem ég sagði rétt áðan?”
8. Veik líkamstjáning. Líkamstjáning er líkamsstaða okkar, hvernig við sitjum, hvreyfum okkur, svipbrigði, göngulag o.s.frv. Líkamsmál er tungumál án orða en getur þó sagt meira en nokkuð annað tungumál. Um 55% af öllum þeim skilaboðum sem við sendum frá okkur eru í gegnum líkamstjáningu. Líkamshreyfingar eins og að yppa öxlunum, halda ekki augnsambandi, krossleggja fætur, vera á sífelldu iði og veikt handaband draga úr áhrifum og eru merki um óöryggi. Því er mikilvægt að sýna tjáningu sem endurspeglar öryggi og áhrif eins og að standa og sitja upprétt, halda góðu augnsambandi og dreifa þyngdinni yfir báðar fætur.
9. Að forðast ræðuhöld. Að koma fram fyrir framan hóp af fólki er tækifæri til að vera sýnileg og fá athygli. Því er mikilvægt að takast á við óttann, yfirstíga sviðsskrekkinn og láta ljós sitt skína. Taktu til máls á fundum og hafnaðu ekki boðum um viðtöl í fjölmiðlum eða um að vera fundarstjóri eða fyrirlesari á fundum eða ráðstefnum.
10. Óviðeigandi klæðnaður. Of háir hælar, fleginn bolur, stutt pils og of áberandi andlitsfarði getur haft neikvæð áhrif á starfsframa kvenna. Klæðnaðurinn þarf að endurspegla hlutverkið. Þetta er ekki spurning um að fórna kvenleikanum en of áberandi og óviðeigandi klæðnaður getur dregið úr virðingu og trúverðugleika.
Mikilvægt er að ná öruggu valdi á tjáskiptum, bæði í rituðu og töluðu máli. Sá sem hefur gott vald á tjáskiptum stendur feti framar en aðrir.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 7. maí 2008.