Skapandi hugsun er viðhorf; hæfnin til að samþykkja breytingar og hið nýja, vilji til að leika sér með hugmyndir og möguleika, sveigjanlegt hugarfar, að njóta hins góða og leita leiða til að bæta enn úr því. En hvað einkennir þá sem eru skapandi?
1. Forvitni. Skapandi einstaklingar vilja vita um hluti, alls kyns hluti, bara til að skilja þá. Þörf þeirra fyrir þekkingu krefst ekki ástæðu. Spurningin "Hvers vegna viltu vita það?" virkar því undarlega á þá. Þeir vilja ekki bara vita hluti heldur einnig þekkja ástæðurnar fyrir ákvörðunum, vandamálum, lausnum, atburðum, staðreyndum o.s.frv. Hvers vegna svona en ekki hinsegin? Af hverju ekki prófa þetta eða hitt? Þeir setja spurningamerki við marga hluti og forvitnilegt viðhorf þeirra er jákvætt.
2. Þörf fyrir áskorun. Skapandi einstaklingar hafa gaman af því að bera kennsl á og draga í efa ályktanir á bak við hugmyndir, tillögur, trú og fullyrðingar. Margar ályktanir eru auðvitað góðar og gildar en aðrar ekki, en með því að draga þessar ályktanir í efa fæðast oft nýjar hugmyndir, nýjar leiðir eða nýjar lausnir. Sem dæmi þá var alltaf litið á skólann sem húsnæði, samkomustað, með bekkjum, matsal og bókasafni. En í dag sækjum við skólann á rafrænan hátt, frá heimilinu.
3. Uppbyggileg óánægja. Hér er um að ræða hæfnina til að sjá þörfina fyrir endurbætur og leita leiða til að bæta hlutina. Óánægjan er nauðsynleg fyrir skapandi lausn vandamála því að ef maður er sáttur við allt eins og það er þá mun maður ekki þurfa að breyta neinu. Skapandi einstaklingar leita að vandamálum til að leysa. Þeir hugsa: "Þetta er frábær lausn, en ætli það sé ekki til önnur lausn sem virkar jafnvel betur, kostar enn minna o.s.frv?" Þeim líkar að kanna eigin takmörk og takmarkanir og stundum er óánægja þeirra næstum því tilbúningur. Þeir eru ekki raunverulega óánægðir með hlutina heldur vilja finna eitthvað betra áskorunarinnar vegna.
4. Trúin á að flest vandamál sé hægt að leysa. Skapandi einstaklingar hafa þá trú að það sé alltaf hægt að fjarlægja eða draga úr næstum því hvaða vandamáli sem er. Vandamál eru leyst með því að fjárfesta í þeim tíma og orku og þegar slík skuldbinding er til staðar er fátt ómögulegt. Trúin á að hægt sé að leysa flest vandamál er sérstaklega mikilvæg í upphafi ferlisins þar sem mörg vandamál virðast við fyrstu sýn gjörsamlega óleysanleg. Þeir sem takast á við vandamálin af sjálfstrausti eru líklegri til að horfa fram hjá þessari staðreynd.
5. Hæfnin til að fresta dómnum og gagnrýni. Margar nýjar hugmyndir virka skrítnar, fáránlegar eða jafnvel fráhrindandi. Það er fyrst seinna sem þær verða "augljóslega" frábærar. Aðrar hugmyndir eru raunverulega skrítnar og brjálæðislegar, en leiða til praktískra og góðra lausna. Mikilvægur eiginleiki skapandi einstaklinga er þeir fresta dómnum þegar nýjar hugmyndir fæðast, sýna jákvætt viðhorf gagnvart hugmyndum almennt og forðast að dæma þær með algengum neikvæðum viðbrögðum eins og: "Þetta mun aldrei virka", "Þetta er fáránleg hugmynd", "Þetta er ekki hægt" o.s.frv. Ef maður lítur til baka þá þurftu hugmyndir eins og útvarpið, tölvur og strokleður á blýöntum allar að takast á við neikvæð viðbrögð og jafnvel höfnun áður en þrautseigir uppfinningamenn þeirra náðu að selja heiminum hugmyndina. Með því að vera neikvæður eða hafna hugmyndum of fljótt er hægt að drepa niður skapandi hugsun.
6. Að sjá það góða í því slæma. Skapandi einstaklingar ganga út frá því að það getur verið eitthvað gott við lélega lausn, hversu lítið sem það er. Við föllum oft í þá gryfju að afgreiða slæma lausn sem alslæma án þess að skoða hvort hægt sé að nota sumt af henni við að finna nýja og betri lausn.
7. Trúin á að vandamál geti einnig verið lausn. Skapandi einstaklingar leita ekki aðeins að góðum hugmyndum í lélegum lausnum heldur líta einnig á vandamál og spyrja: "Hvað er gott við þetta vandamál?". Sem dæmi þá voru efnafræðingar hjá fyrirtækinu 3M að gera tilraunir með lím og fundu af tilviljun upp lím sem var það laust að hægt var að rífa það af aftur. Límið uppfyllti ekki lagmarkskröfurnar um styrk. Þetta vandamál var hins vegar einnig lausn því að þannig urðu til gulu miðarnir.
8. Trúin á að vandamál séu athyglisverð. Margir takast á við vandamál með því að stinga hausnum í sandinn og viðurkenna ekki vandann. Afleiðingin er oft að vandamálið vex og verður að krísu. Skapandi einstaklingar þar á móti sjá vandamál sem athyglisverða áskorun sem gaman er að takast á við. Í þeirra augum eru vandamál ekki ógnvekjandi skrímsli sem beri að forðast heldur góður andstæðingur til að takast á við og sigrast á.
9. Að sýna þrautseigju. Sköpunargáfa og lausn vandamála krefjast töluverðrar vinnu, tíma og orku. Það eru ekki til neinar fljótlegar og einfaldar lausnir. Maður þarf að afla þekkingar og rannsaka, beita þessari þekkingu með því að hugsa, tengja saman hluti og gera tilraunir. Maður þarf að sýna þrautseigju og láta það ekki hvarfla að sér að allt gæti farið út um þúfur. Leita leiða til að ryðja hindrunum úr vegi og þrjóskast við þangað til maður nær árangri. Þegar eitt gengur ekki upp þá reynir maður annað. Mörgum mistekst vegna þess að þeir verja aðeins níu mínútum í vandamál sem tekur tíu mínútur að leysa.
10. Líta á mistök sem jákvæð. Skapandi einstaklingar átta sig á því og viðurkenna að það er ekkert neikvætt við mistök. Þekkt er sagan af forstjóra nokkrum í stóru fyrirtæki sem sagði öllum nýráðnum stjórnendum að tvöfalda mistökin þar sem þau væru til að læra af og gætu leitt til árangurs.
Greinarhöfundur: Eyþór Eðvarðsson. Birtist í Viðskiptablaðinu 28. maí 2003.