Alþjóðlegi hamingjudagurinn er haldinn í sjöunda sinn sunnudaginn 20. mars að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að vekja stjórnvöld og einstaklinga til vitundar um mikilvægi hamingjunnar.
Stjórnvöld eru hvött til að leggja meiri áherslu á að efla hamingju og vellíðan í samfélaginu og að þessi atriði séu höfð til hliðsjónar við allar ákvarðanir stjórnvalda.
Leitin að hamingjunni er ævistarf hverrar manneskju. Það er margt sem hægt er að gera dags daglega til að öðlast hamingjusamt og gott líf. Hér fyrir neðan eru 10 atriði sem gera veginn að hamingjunni greiðari:
1. Skapaðu og ræktaðu tengsl við annað fólk
Heilbrigð og farsæl náin tengsl við aðra eru meðal mikilvægustu áhrifaþátta hamingjunnar. Því nánari sem tengslin eru og því oftar sem við eigum í samskiptum við fólk, því hamingjusamari verðum við. Gefðu öðrum tíma og áhuga, iðkaðu þakklæti og vertu óspar á hrós.
2. Gerðu áætlun
Alveg eins og við bökum ekki köku án uppskriftar getum við ekki skapað okkur hamingjusamt líf án áætlunar. Að gera góða áætlun hefst á því að skoða hvar þú ert staddur/stödd í dag þegar kemur að hamingjunni og hvert þú viljir stefna. Næsta skref er síðan að ákveða hvernig þú kemst þangað.
3. Þróaðu með þér gróskuhugarfar
Að skapa sér hamingjusamt líf er eins og læra að hjóla eða keyra. Fyrst sýnist verkefnið óyfirstíganlegt en svo kemstu að því að þú ert fullfær um það. Það sama á við þegar kemur að hamingjunni. Mikilvægt er að þróa með þér gróskuhugarfar og trú á eigin getu til að skapa þér hamingju, bera kennsl á gildi þín og skilgreina með eigin orðum hvað hamingjusamt líf þýði fyrir þér.
4. Temdu þér jákvæðar hugsanir
Með því að temja þér jákvætt viðhorf er hægt að gera jafnvel leiðinlegustu aðstæðurnar ánægjulegar og gera það besta úr því sem þú hefur. Mikilvægt er að veita jákvæðum hlutum athygli, varðveita og njóta skemmtilegra stunda og gera sem mest úr jákvæðum upplifunum. Einnig er gott að sanka að þér jákvæðum myndböndum og tilvitnunum.
5. Efldu sjálfstraustið
Sjálfstraust og sú tilfinning að stjórna eigin örlögum skiptir miklu máli þegar hamingjan er annars vegar. Til að efla sjálfstraustið er mikilvægt að þekkja þína styrkleika og kunna að nýta þá, fagna þeim árangri sem þú nærð og sýna góðvild í eigin garð.
6. Sýndu seiglu
Við lendum öll í því að þurfa að takast á við áföll og mótlæti í lífinu. Seigla hjálpar okkur að ráða við neikvæða þætti í lífinu og ná okkur á strik aftur. Til að byggja upp seiglu er gott að reyna að finna það jákvæða í neikvæðum aðstæðum, skilja ávinning neikvæðra tilfinninga og stöðva hringrás neikvæðra hugsana. Einnig er hjálplegt að gangast við líðan þinni og taka hana í sátt.
7. Samþættu starf og einkalíf
Þegar við erum í góðu jafnvægi gengur okkur betur að njóta lífsins í heild. Mikilvægt er að koma í veg fyrir ójafnvægi með því að draga úr streitu, forgangsraða og setja skýr mörk. Einnig er ráðlegt að gera meira af því sem endurnærir þig og vekur með þér gleði og vellíðan.
8. Finndu tilganginn í lífinu
Öll viljum við skipta máli og finna að við séum einhvers virði, að við höfum hlutverki að gegna. Það getur tekið tíma að finna hvað veitir þér lífsfyllingu. Gott er að bera kennsl á styrkleika þína og gildi og finna út hvað fær hjarta þitt til að slá örar. Hver er ástríða þín? Einnig er mikilvægt að leggja þig fram um að hafa jákvæð áhrif á líf annarra.
9. Stundaðu núvitund
Þegar við erum á sjálfsstýringunni, eins og gerist reglulega í lífi flestra, förum við á mis við jákvæðar upplifanir, uppbyggileg samskipti við aðra og jafnvel skemmtilegar stundir. Með því að stunda núvitund erum við betur í stakk búin til að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.
10. Gerðu góðverk
Við erum oft svo upptekin af eigin hamingju að við gefum því engan gaum hvernig við snertum líf annarra. Góðverk stuðla að aukinni vellíðan og hamingju. Þegar við sýnum góðvild í garð náungans eykst ekki bara vellíðan hans heldur líka okkar eigin.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman