Flest tökum við gott frí með reglubundnum hætti til að kúpla okkur niður, losa okkur undan stressi og hlaða batteríin. Yfirleitt skiptum við þá um umhverfi og ferðumst innanlands eða til útlanda.
Við þurfum þó ekki að fara neitt til að komast í frí. Svokallað „andlegt frí“ er hægt að taka hvar sem er og hvenær sem er. Í andlegu fríi tengjumst við því sem fær hjartað til að slá hraðar og færir okkur gleði og unun. Hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir:
1. Aftengdu þig
Við erum mörg sítengd og því getur verið gagnlegt að gefa tækninni frí, jafnvel þó það sé ekki nema í nokkrar mínútur eða klukkutíma. Slökktu á sjónvarpinu, settu símann á hljóðlausa stillingu og njóttu þess að vera til án truflana. Dragðu djúpt andann og hugleiddu eða farðu í göngutúr án þess að vera með eitthvað í eyrunum.
2. Leyfðu þér að dagdreyma
Ein tegund andlegs frís er að leyfa sér að dagdreyma. Þegar okkur dagdreymir gleymum við skyldum okkar og vandamálum og njótum þess að vera í öðrum heimi. Láttu hugann skapa alls kyns skemmtileg ævintýri og týndu þér í draumaheimum. Dagdraumar geta fyllt okkur hugarró.
3. Njóttu svefnsins
Svefn er ein tegund af andlegu fríi. Hugsaðu um jákvæða hluti þegar þú ferð að sofa á kvöldin og iðkaðu þakklæti. Svefn er nátengdur líkamlegri og andlegri vellíðan og heilsu.
4. Sjáðu fyrir þér slökunarástand
Lokaðu augunum og hugsaðu um eitthvað sem fær þig til að slaka á, hvort sem það er brennandi sólin á húðinni, hljóðið í öldum hafsins eða stórt tún fullt af blómum. Rifjaðu upp aðstæður þar sem þú upplifðir frið og ró og einblíndu á að slaka á spennunni í líkamanum.
5. Skoðaðu myndir af ánægjulegum atburðum
Það getur verið ljúft að skoða myndir af ánægjulegu fjölskyldufríi eða skemmtilegum kvöldverði með góðum vinum. Rifjaðu upp gamlar og góðar minningar og hvað það var sem gerði atburðina svona ánægjulega.
6. Horfðu út um gluggann
Dreifðu huganum með því að horfa út um gluggann og njóta þess sem fyrir augu ber. Virtu fyrir þér trén, fljúgandi fuglana, skýjabreiðurnar, litagleði gróðursins og roða sólarlagsins.
7. Dansaðu
Dans getur stuðlað að betri andlegri líðan. Settu á skemmtilega tónlist og dansaðu eins og enginn sé að horfa. Hægt er að dansa hvenær sem er og hvar sem er, t.d. heima í stofu.
8. Horfðu á góða bíómynd eða uppáhaldsþáttaröðina
Kvikmyndir hjálpa okkur ekki aðeins við að flýja raunveruleikann og gleyma okkur heldur einnig við að bæta heilsuna. Rannsókn háskólans í Maryland leiddi sem dæmi í ljós að það að horfa á gamanmyndir víkkar út æðarnar og lækkar blóðþrýsting.
9. Hlustaðu á uppbyggilegt eða fræðandi hlaðvarp
Taktu þér frí frá eigin hugsunum og hlustaðu á hugsanir annarra. Mörg hlaðvörp eru uppbyggjandi, fróðleg og skemmtileg og frábær fyrir andlegu hliðina. Það er svo sannarlega af nógu að taka í íslenska hlaðvarpsgeiranum.
10. Farðu í göngutúr
Hreyfing og útivera eru frábær blanda til að hreinsa hugann og skjótvirk leið til að bæta geð. Farðu í endurnærandi göngutúr um nágrennið á daglega. Að labba meðfram sjónum, á útivistarsvæði eða upp á fjall getur enn aukið á slökunina.
Ávinningurinn af andlegu fríi
Ávinningur þess að fara daglega í andlegt frí er margvíslegur. Heilinn fær kærkomna hvíld, við öðlumst hugarró og náum betri fókus. Við fáum líka frí frá starfi okkar, námi og verkefnum og gleymum skyldum okkar og vandamálum hversdagsins, alveg eins og í alvöru fríi.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Kjarnanum 22. september 2020.