Afar sjaldgæft er að menn séu fæddir stjórnendur og enn sjaldgæfara að menn séu framúrskarandi frá þeim degi sem þeir setjast við stjórnvölinn.
Í flestum tilfellum er um lærdómsferli að ræða. Stjórnun fólks gerir kröfu um ákveðna færni sem hægt er að læra og þjálfa. En hvað gerir góðan stjórnanda?
Hér fyrir neðan eru tíu veigamiklir eiginleikar stjórnenda tíndir til:
- Samskiptafærni. Stjórnendur þurfa að láta hluti gerast í gegnum aðra. Þess vegna er algjört lykilatriði að þeir séu góðir í mannlegum samskiptum og hafi hæfileikann til að vekja áhuga og veita leiðsögn. Góðir stjórnendur senda skýr skilaboð, hvetja til opinna samskipta og eru samkvæmir sjálfum sér. Þeir meðtaka gagnrýni með opnum huga, beita virkri hlustun til að skiptast á hugmyndum og ná gagnkvæmum skilningi og leggja sig fram um að setja sig í spor annarra. Þeir taka umsvifalaust á erfiðum aðstæðum.
- Sjálfsþekking. Stjórnendur þurfa að þekkja eigin styrkleika og takmarkanir. Mikilvægt er að þeir læri af reynslu og mistökum og séu opnir fyrir hreinskilinni endurgjöf. Lykilatriði er einnig að þeir þrói með sér nýja styrkleika með því að einbeita sér að nýjum hlutum þar sem þeir nýta þá styrkleika sem þeir hafa nú þegar fyrir. Góðir stjórnendur lágmarka áhrif veikleika sinna með því að dreifa verkefnum og ábyrgð og nýta þannig styrkleika annarra.
- Frumkvæði. Góðir stjórnendur leita að tækifærum og nýta sér þau. Þeir gera það sem þarf og meira en búast má við. Þeir taka af skarið og setja sér hærri markmið en til er ætlast af þeim. Þeir taka áhættu, ná að virkja aðra og skapa skilyrði fyrir framtíðartækifæri.
- Ábyrgð. Góðir stjórnendur hafa í heiðri viðurkennd félagsleg og siðferðileg gildi. Þeir hegða sér siðferðislega rétt og í samræmi við eigin gildi. Þeir vekja traust með hreinskilni og heiðarleika og standa við skuldbindingar og gefin loforð. Þeir viðurkenna eigin mistök og taka siðferðislega ranga hegðun annarra til umræðu. Þeir taka ábyrgð á eigin gjörðum, standa við sínar skoðanir og fylgja eigin gildismati þrátt fyrir þrýsting um annað.
- Lausnamiðuð hugsun. Góðir stjórnendur gera ráð fyrir að það verði hindranir á veginum án þessu þó að missa jákvætt viðhorf sitt. Þeir gangast við staðreyndum, átta sig á vandamálum sem koma upp og takast á við þau. Þeir sjá heildarmyndina, skoða allar hliðar á vandamálinu en láta ekki ekki tilfinningar eða smáatriði hamla sýninni. Þeir forgangsraða verkefnum og falla ekki frá mikilvægum markmiðum þó illa gangi.
- Umboð til athafna. Góðir stjórnendur leiðbeina öðrum og fela öðrum ábyrgð á krefjandi og hvetjandi verkefnum. Í góðri valddreifingu felst mikill tímasparnaður til lengri tíma litið. Með því að fela starfsmönnum verkefni stuðlar hann að auknum afköstum og starfsþroska starfsmanna. Stærsti kostur umboðs til athafna er að starfsmenn fá að axla ábyrgð, þroskast og auka innsæi og hæfileika sína.
- Að vera í þjónustuhlutverki. Mælieining á góðum stjórnanda er ekki hversu margir þjóna honum heldur hversu mörgum hann þjónar. Góðir stjórnendur hafa löngun til að þjóna öðrum, ekki sjálfum sér. Þeir setja þarfir annarra hærra sínum eigin, eru tilbúnir til að hjálpa öðrum og skapa skilyrði svo að starfsmenn geti vaxið og náð árangri.
- Góð fyrirmynd. Góðir stjórnendur setja fordæmi sem aðrir vilja fylgja. Þeir helga sig starfinu og leggja sig fram sama hversu erfitt verkefnið er. Þeir eru knúnir áfram af þörfinni til að gera hlutina framúrskarandi og ljúka verkefnum sama hverjar aðstæður eru. Þeir leita stöðugt leiða til að læra meira, vaxa og verða betri. Þeir koma málum í höfn með besta mögulega hætti og sætta sig ekki við það sem er gott heldur leita ávallt leiða til að gera betur. Þeir eru öðrum hvatning til að fara fram úr væntingum.
- Að komast að kjarnanum. Stjórnendur hafa sjaldnast allar hliðar málanna þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir eða draga ályktanir. Þess vegna þurfa þeir að hafa blöndu af skýrri rökhugsun og öflugu innsæi til að geta komist að kjarna málsins.Góðir stjórnendur leita róta vandans og skilja kjarnann frá hisminu.
- Forgangsröðun. Að hafa forgangsröðunina á hreinu og geta einbeitt sér að því sem skiptir máli er lykilatriði fyrir stjórnendur. Samkvæmt Pareto-lögmálinu kemur 80% af þeim árangri sem við náum frá 20% aðgerða okkar. Því er mikilvægt að gera réttu hlutina til að ná sem mestum árangri.
Hvað ættu stjórnendur að hafa lært af hruninu?
- Tryggja góðar upplýsingar. Í aðdraganda hrunsins var skortur á góðum upplýsingum, og oft voru þær upplýsingar sem lágu fyrir ekki prófaðar með þeim afleiðingum að seint og illa var brugðist við, þegar of seint var að grípa til viðeigandi ráðstafana. Stjórnendur þurfa að tryggja að ávallt sé aðgengi að sem bestum upplýsingum.
- Horfast í augu við ískaldar staðreyndir. Í aðdraganda hrunsins var mikil afneitun á því að hætta var fyrir hendi þó að ýmis teikn hafi verið á lofti og þar af leiðandi var ekki brugðist við hættumerkjum. „Þetta reddast viðhorfið“ var allsráðandi. Það krefst hugrekkis að sjá og horfast í augu við raunveruleikann.
- Góðir hlutir gerast hægt. Róm var ekki byggð á einum degi og því þurfa stjórnendur að hafa í huga að árangur er langhlaup. Það tekur góðan tíma að byggja upp stöndugt og gott fyrirtæki.
- Kapp er best með forsjá. Hugsa verður til lengri tíma og huga bæði að byggingarstaðnum og byggingarefninu. Það hefur reynst mönnum vel að byggja þar sem undirstöður eru traustar og forðast sandinn.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Mannlífi í febrúar 2011.