Bros er ekki sérlega flókin athöfn. Þegar bros læðist á andlit okkar lyftast munnvikin og augun tjá hamingju og hlýju.
Bros er ein besta leiðin til að bæta líðan og ekki veitir af því á þessum síðustu og verstu tímum. Heilsusamleg áhrif þess að brosa eru margvísleg:
- Bros hægir á hjartslættinum, lækkar blóðþrýstinginn og hjálpar líkamanum við að slaka á.
- Þegar við brosum eykst framleiðsla endorfína, dópamíns og serótóníns en þessi svokölluðu vellíðanarhormón vega upp á móti streituhormónum eins og adrenalíni og kortisóli.
- Bros eykur mótefnisvaka í líkamanum, sem hafa þau áhrif að ónæmiskerfið ræðst hraðar og betur á veirur. Bros heldur því burtu flensu og kvefi.
- Bros bætir skapið og eykur jákvæðar tilfinningar. Það virkar eins og náttúrulegt þunglyndislyf.
- Vingjarnlegt bros hefur smitandi áhrif og getur lýst upp heilt herbergi. Það getur létt lund þeirra sem eru í kringum okkur og vakið löngun þeirra til að bera þessa jákvæðu strauma áfram og brosa til næsta manns.
- Bros og jákvæðar tilfinningar stuðla að auknum afköstum, aukinni sköpunargáfu og betri ákvörðunum.
- Innilegt bros eykur traust, sem stuðlar að betri samskiptum við aðra.
- Bros bræðir mann og annan og gerir okkur meira aðlaðandi. Karlmenn eru sem dæmi líklegri til að laðast að konu sem brosir en konu sem myndar aðeins augnsamband. Brosið er því mikilvægasti hlutinn í snyrtiveskinu.
- Þegar við brosum virkum við félagslyndari, greindari og sjálfsöruggari.
- Bros hefur yngjandi áhrif; þegar við brosum virkum við að meðaltali um þremur árum yngri en við erum.
- Ósvikið bros getur stuðlað að langlífi. Einlægt og ekta bros er oft kallað „Duchenne“-bros eftir taugasjúkdómafræðinginn Guillaume Duchenne sem árið 1862 bar kennsl á þá andlitsvöðva sem eru virkir í alvöru, sjálfsprottnu brosi.
- Bros kostar nákvæmlega ekki neitt og það eru engar aukaverkanir. Notum það því óspart.
Það er ekki að ástæðulausu að Móna Lísa eftir da Vinci er eitt frægasta málverk allra tíma. Einstakt bros hennar hefur vakið áhuga listunnenda og verið tónlistarmönnum innblástur. Bros er eins á öllum tungumálum. Við búum öll yfir krafti til að dreifa gleði og breyta heiminum, eitt bros í einu, og eins og í lesa má í kvæði Einars Ben, „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt“.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Man.is 4. nóvember 2020.