Um áraraðir hefur stærsta áskorun kvenna á vinnumarkaðinum verið að komast í gegnum glerþakið og jafna stöðu kynjanna. Þó að glerþakið hafi kannski ekki verið fjarlægt fullkomlega hefur mikill árangur náðst á undanförum áratugum.
Fjöldi þeirra kvenna sem skipa áhrifamiklar stöður í fyrirtækjum og stjórnum hefur aukist. Aukinn fjöldi kvenna á vinnustað getur þó einnig skapað nýjar áskoranir, m.a. vegna þess að munur er á samskiptaformi karla og kvenna. Þessi munur ber reglulega á góma og sitt sýnist hverjum.
Einkenni samskipta kvenna
Í bókinni Woman‘s Inhumanity to Women eftir Phyllis Chesler geðlæknir og prófessor í sálfræði og kvennafræðum kemur fram að það eru nokkur atriði sem einkenna samskipti kvenna:
- Konur eiga það til að hafna því að þær séu kappsfullar. Ástæðan fyrir því er að þær eru aldar upp í því að tilfinningar eins og öfund og fjandskapur séu ekki „kvenlegar“. Judy Rosener prófessor í viðskiptadeild við Háskólann í California heldur því fram í grein sinni Sexual Static að þetta byrji strax í uppeldinu þar sem komið er fram við stelpur og stráka á mismunandi hátt. Það sé búist við því af strákum að þeir séu háværir og fyrirgangssamir. Af stelpum sé vænst að þær séu samvinnufúsar og liprar í samskiptum. Opin samkeppni er á bannlista hjá konum og því er kappsfull hegðun þeirra oft falin og birtist í formi baktals, rógburðar, orðróms, klíkumyndunar og útilokunar.
- Konur læra frá blautu barnsbeini að það að tilheyra hópnum og samskipti við fólk séu mikilvægari en að skara fram úr eða standa á rétti sínum. Konur leggja helmingi meiri áherslu á samvinnu, liðsheild og samloðun en karlar.
- Konur vænta þess af öðrum konum að þær veiti þeim stuðning og hvatningu og sýni samkennd. Þær vilja vinna á vinnustað sem einkennist af skilningi, persónulegum tengslum og heiðarlegum samskiptum.
- Konur eiga erfiðar með að taka gagnrýni en karlar. Þær eiga það til að taka ágreining persónulega og upplifa yfirgang frá öðrum konum sem svik.
- Konur dæma aðrar konur oft harðar en karlmenn dæma konur. Ástæðan fyrir því er að konur gera miklar og oft óraunhæfar væntingar til annarra kvenna.
Konur ganga oft mjög langt til að viðhalda jákvæðu andrúmslofti og því mætti halda að á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta væri að finna meira styðjandi vinnuandi. Svo virðist ekki vera en ágreiningur birtist oft á annan og meira falinn hátt.
Að stjórna samskiptum á milli kvenna
Þeir sem vilja takast á við samskiptaörðugleika kvenna á uppbyggilegan hátt þurfa að hafa eftirfarandi atriði í huga:
- Veita hegðunarmynstrum athygli: Tökum sem dæmi fund kvenna þar sem umræður eru þvingaðar og fundarmeðlimir þora aðeins að tjá sig þegar fundarstjórinn ávarpar þær. Engin þeirra þorir að tjá skoðun sína af ótta við að vera dæmdur of hart eða rangt. Góð leið fyrir fundarstjórann er að biðja um álit allra og endurtaka skoðanir allra þannig að það virki sem fleiri séu á sama máli og fundarmenn upplifi sig ekki einangraða. Eftir nokkra fundi verða allir orðnir vanir að tjá sig án þess að upplifa ótta við að standa einir.
- Finna hlutlæga mælikvarða: Rannsóknir hafa sýnt að konur eiga það til að dæma kynsystur sínar harðar en samstarfsmenn af hinu kyninu. Rannsóknir á atvinnuviðtölum hafa t.d. leitt í ljós að ef ráðningarviðtal er framkvæmt af karl og konu þá á konan það til að gefa kvenumsækjendum lægra mat en karlinn gefur þeim á meðan þau gefa karlumsækjendum sambærilegt mat. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkar huglægar skoðanir með því að einblína á staðreyndir og áþreifanlega hegðun. Það sama á við þegar um baktal er að ræða en í þeim aðstæðum er mikilvægt að biðja um áþreifanleg dæmi um atvik og hegðun til að draga úr alhæfingum og ýkjum.
- Uppbyggilegar athugasemdir: Ráðlegt er að setja fram uppbyggilegar athugasemdir og beina þeim að vandamálinu en ekki persónunni. Teresa Bernandez geðlæknir heldur því fram að konum sé kennt í uppeldinu að fela reiði þannig að þegar samstarfskona sýnir reiði er henni hafnað án þess að hlusta á skoðanir hennar.
- Þróa samskiptafærni sína: Í samskiptum við konur er sérlega mikilvægt að huga að því að nota ég-skilaboð, forðast alhæfingar eins og "aldrei" eða "alltaf" og einblína á hegðun en ekki persónuna. Einnig er nauðsynlegt að beita virkri hlustun og setja atriði fram sem sameiginlegt vandamál sem þarf að finna lausn á.
- Sjálfsrýni: Síðast en ekki síst er líka mikilvægt að vera meðvitaður um eigin hegðun og halda sig við staðreyndir og málefni en ekki tilfinningar. Eins er mikilvægt að taka möguleg neikvæð viðbrögð ekki persónulega og reyna að setja sig í spor viðmælandans.
Konur og karlar hafa mismunandi reynsluheim. Þau tala um aðra hluti, leika sér á annan hátt, lesa annars konar bækur og hafa mismunandi sýn á hlutina, t.d. þegar kemur að umbun, gæðum, frammistöðumati o.s.frv. Með því að læra meira um mismunandi samskiptaform er hægt að auka framleiðni, bæta þjónustu, tryggja hollustu og bæta líkamlega og andlega vellíðan allra á vinnustað.
Til viðbótar er gott að hafa í huga að hver og einn er einstakur og konur innbyrðis, alveg eins og karlar innbyrðis, eru ólíkar og því er góð þumalputtaregla í samskiptum að koma fram við fólk eins og fólk vill láta koma fram við sig.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 17. júlí 2008