Þegar við mætum mótlæti eða stöndumst ekki eigin væntingar erum við oft dómhörð í eigin garð. Við rökkum okkur niður og missum sjónar á styrkleikum okkar.
Eða við högum okkur sem fórnarlömbum og kennum öðru fólki eða aðstæðunum um til að líða betur með okkur sjálf. Hvorugt viðbragðið er gagnlegt.
Þegar við stöndum andspænis áskorunum er oft gagnlegt að ræða við einhvern sem minnir okkur á styrk okkar og endurræsir drifkraftinn. Þó að gott geti verið að leita til annarra um staðfestingu og hvatningu megum við ekki gleyma því að við höfum aðgang að bakhjarli sem er alltaf tiltækur, okkur sjálfum.
Þrjú mikilvæg skref
Til að geta verið sinn eigin bakhjarl er nauðsynlegt að vinna gegn þeirri eðlishvöt að hlaupa frá því sem er óþægilegt eða sársaukafullt. Meðfylgjandi eru þrjú skref sem hjálpa til við það:
Skref 1: Vertu til staðar
Sýndu nærveru sem er bæði skilyrðislaus í kærleik sínum og fordómalaus í afstöðu sinni. Rannsóknir Pauls Gilberts, prófessors á sjálfsumhyggju (e. self-compassion), hafa sýnt að nærveran þarf að hafa eftirfarandi fjóra eiginleika: Visku, styrk, hlýju og dómleysi. Leyfðu nærveruna að leiða þig ef það veitir þér stuðning og faðma þig ef það veitir þér huggun. Kannski segir hún: "Þetta er erfitt, ég veit. Ég er hérna hjá þér." Nærveran segir þér ekki hvað þú eigir að gera né minnir þig á hvað þú hefðir átt að gera.
Skref 2: Settu hlutina í samhengi
Þegar andlega masið róast er gott að bjóða hugsanir þínar velkomnar og reyna að skilja það sem þær eru að segja þér. Í bók sinni Dare to Lead mælir Brené Brown með því að hlusta á þá sögu sem við segjum og spyrja okkur síðan hvort hún sé sönn. Ef þú segir t.d. við sjálfa(n) þig: „Mér mistekst alltaf allt“, er gott að rifja upp tíma þegar þér tókst vel til. Hvað kenndi það þér um sjálfa(n) þig?
Skref 3: Sjáðu heildarmyndina
Að vera sinn eigin bakhjarl leysir okkur ekki undan ábyrgð og þýðir heldur ekki ekki að við afneitum mistökum. Þvert á móti snýst þetta um að sjá heildarmyndina til að milda tilfinningar sínar og fara frá ásökunum og skömm og yfir í ábyrgar aðgerðir.
Stöndum með okkur sjálfum
Hlutirnir fara ekki alltaf eins og við óskum. Þess vegna er mikilvægt að standa með sjálfum sér í blíðu og stríðu og bregðast við lífinu með skýrleika og hugarró.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á mannlif.is 7. apríl 2021.