Það fara milli 50.000 og 70.000 hugsanir um hug meðalmanneskju á dag. Þannig er því farið oft og tíðum að við erum þræll hugsana okkar og tilfinninga og látum þær þvælast of mikið fyrir okkur.
Við verjum með öðrum orðum alltof miklum tíma í kollinum á okkur – í alls kyns hugsanir, greiningar, dóma og það að gera lítið úr okkur sjálfum. Neikvæðar hugrenningar geta þannig tekið öll völd og lokað dyrunum að áhyggjulausu og eðlilegu lífi.
Rannsóknir Christopher Pepping og félaga við Griffith háskólann í Ástralíu hafa sýnt að núvitund getur hjálpað okkur við að öðlast umburðarlyndi gagnvart okkur sjálfum og styrkt sjálfsálitið. Læknirinn og frumkvöðullinn Jon Kabat-Zinn, sem innleiddi núvitundariðkun inn í vestrænt heilbrigðiskerfi, skilgreinir núvitund á eftirfarandi hátt: „Núvitund er að beina athyglinni með ákveðnum hætti; vísvitandi, að augnablikinu, og án þess að dæma.“
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að núvitund stuðlar að betra sjálfsáliti:
- Að setja merkimiða á innri upplifanir áður en við sleppum þeim kemur í veg fyrir að við festumst í niðurrifshugsunum og -tilfinningum. Merkmiðar sem hægt er að nota eru m.a.: gagnleg/ekki gagnleg hugsun, tegundir hugsana (skipulagshugsanir, ótti, dómur, upprifjun) eða líkamleg skynjun (t.d. hiti, streita, óróleiki ofl.)
- Að dæma ekki hugsanir og tilfinningar heldur samþykkja þær getur hjálpað okkur við að þróa hlutlausara viðhorf gagnvart okkur sjálfum og taka okkur í sátt.
- Að hafa athyglina í núinu á opinn hátt getur forðað okkur frá því að festast í sjálfsgagnrýni sem tengist yfirleitt atburðum í fortíðinni eða framtíðinni. Við eyðum oft dýrmætum sekúndum lífs okkar í áhyggjur af framtíðinni eða vangaveltur um fortíðina.
- Að fylgjast með hugsunum og tilfinningum koma og fara eins og ský á himni án þess að bregðast við þeim. Þetta geta verið hugsanir eins og „Mér er kalt“, „Ég á eftir að kaupa í matinn“, „Hvað ætli Nonni hafi meint með þessu?“. Við getum verið hlutlaus áhorfandi að þessum hugsunum.
Gott er að setja spurningamerki við hugsanir sínar og breyta sambandi sinni við þær. Við erum ekki hugsanir okkar eða tilfinningar. Þær eru ekki góðar eða slæmar, þær bara eru og líða svo hjá. Þær eru ekki staðreyndir og endurspegla ekki endilega raunveruleikann, og það er ávallt hægt að breyta þeim. Það sama á við um hugarfar og hegðun. Við getum breytt athöfnum okkar hvenær sem er.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 7. nóvember 2016.