Við eigum það gjarnan til að kalla okkur illum nöfnum, draga úr okkur eða fara aftur og aftur yfir mistök í huganum. Í stað þess að klappa okkur á bakið rökkum við okkur niður og berjum áfram með svipu.
Slík sjálfsgagnrýni er frekar algeng. Guðni Gunnarsson lífsráðgjafi segir sem dæmi að meðalmanneskja hafni sér 800 sinnum á dag. Þar af leiðandi verjum við miklum tíma í sjálfsvorkunn, viðnám og síðan réttlætinguna á því. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að það að dæma sjálfan sig á neikvæðan hátt getur dregið úr frammistöðu okkar. Lykillinn að aukinni vellíðan og betri árangri er að sýna vinsemd í eigin garð.
Þrír þættir sjálfsvinsemdar
Sjálfsvinsemd eða -góðvild snýst um vingjarnlega en raunhæfa afstöðu til sjálfs síns. Samkvæmt Dr. Kristin Neff, sem er frumkvöðull í rannsóknum á sjálfsvinsemd, samanstendur hún af þremur þáttum:
- Vinsemd í eigin garð; að sýna sjálfum sér skilning og stuðning og skipta harðri sjálfsgagnrýni út fyrir mildari og jákvæðari orð.
- Sameiginleg manngæska, sem er viðurkenningin á því að þjáningar og það að ná ekki settu marki séu óhjákvæmilegur hluti af lífinu.
- Núvitund, sem felur í sér að fylgjast með neikvæðum tilfinningum án þess að ýkja þær, dæma eða bæla.
Kostir vinsemdar í eigin garð
Það að sýna vinsemd í eigin garð hefur margvíslega kosti í för með sér. Rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á félagslegan, sálfræðilegan og líkamlegan ávinning:
- Aukin hvatning: Samkvæmt rannsókn Háskólans í Kaliforníu frá 2011 getur sjálfsvinsemd aukið hvatninguna til að ná sér eftir bakslag. Rannsakendur komust að því að nemendur vörðu meiri tíma í að undirbúa sig undir upptökupróf ef þeir sýndu góðvild í eigin garð. Þeir sýndu líka meiri áhuga á að vinna í veikleikum sínum.
- Aukin hamingja: Í rannsókn sem birtist í Journal of Research in Personality árið 2007 kom fram að sjálfsvinsemd tengist hamingju, bjartsýni, visku, persónulegu frumkvæði og forvitni.
- Betri líkamsmynd: Fjölmargar rannsóknir hafa tengt sjálfsvinsemd við heilbrigðari líkamsmynd og minni skömm. Rannsókn sem var framkvæmd árið 2012 sýndi fram á að þeir sem sýna vinsemd í eigin garð eru minna uppteknir af eigin framkomu, hafa minni áhyggjur af líkamsþyngd og kunna betur að meta eigin líkama.
- Meiri sjálfsvirðing: Sjálfsvinsemd kemur innan frá. Rannsókn sem birtist í Journal of Research in Personality árið 2009 sýndi að sjálfsvinsemd gerir okkur kleift að sýna jákvætt viðhorf í eigin garð þrátt fyrir mistök, upplifaða vanhæfni eða ófullkomleika.
- Aukin seigla: Vinsemd í eigin garð kemur okkur langa leið þegar við þurfum að takast á við mótlæti eða bakslag. Rannsóknir sýna ítrekað að sjálfsvinsemd er lykilatriði þegar við stöndum andspænis erfiðleikum. Rannsókn sem birtist í Psychological link árið 2011 sýndi t.d. að fólk sem sýnir vinsemd í eigin garð nær sér betur á strik eftir skilnað.
- Færri sálfræðileg vandamál: Vinsemd í eigin garð getur dregið úr andlegum sjúkdómum. Rannsókn sem birtist í Clinical Psychology Review árið 2012 sýndi t.d. fram á að sjálfsvinsemd dregur úr kvíða og þunglyndi auk þess sem hún dregur úr skaðlegum áhrifum streitu.
Fyrsta skrefið að aukinni vinsemd í eigin garð er að taka sjálfum sér eins og maður er og koma fram við sjálfan sig eins og maður myndi koma fram við aðra. Stundum eigum við nefnilega auðveldara með að sýna öðrum skilning og velvild en sjálf okkur. Sjálfsvinsemd leysir okkur ekki undan ábyrgð heldur frelsar okkur frá sjálfshatri sem kemur í veg fyrir að við bregðumst við lífinu með skýrleika og hugarró. Segðu einfaldlega við sjálfa(n) þig: „Ég gerði mitt besta. Hvað gæti ég gert til að ná meiri árangri næst?“ Stattu með sjálfum þér í blíðu og stríðu.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 20. október 2015.