Virðing í verki

Þjóðfundur var haldinn 14. nóvember sl. Á heimasíðu fundarins www.thjodfundur2009.is er að finna öll þau gildi sem þjóðfundargestir nefndu.

Orðið sem var oftast nefnt á eftir heiðarleika er virðing, sem er eitt mikilvægasta gildið í öllum samskiptum manna í milli.

Hvað er virðing?

Hægt væri að skilgreina virðingu á eftirfarandi hátt:

 • Virðing er að virða skoðanir annarra jafnvel þó að við séum þeim ósammála.
 • Virðing er að geta sett sig í spor annarra og séð hlutina frá öðru sjónarhorni en sínu eigin.
 • Virðing er að gera ekki lítið úr lífsviðhorfum, tilfinningum, hugmyndum eða skoðunum annarra.
 • Virðing er að bera ábyrgð á orðum sínum og gerðum.
 • Virðing er að koma fram við aðra af kurteisi og nærgætni.
 • Virðing er að dæma hluti og fólk ekki fyrirfram.
 • Virðing er að koma fram við aðra eins og við viljum að fólk komi fram við okkur.
 • Virðing er að fara vel með eigur annarra og taka ekki hluti í leyfisleysi.
 • Virðing er að virða tíma annarra og sýna stundvísi.
 • Virðing er að grípa ekki fram í fyrir fólki.
 • Virðing er að virða reglur samfélagsins, vinnustaðarins og heimilisins.
 • Virðing felur í sér sjálfsvirðingu s.s. að þekkja sína kosti og galla og sættast við þá. 
 • Besta leiðin til að öðlast virðingu er að vera virðingarverð sjálf. 

Skoðanir manna eru misjafnar og ólíkar eins og mannfólkið er misjafnt og ólíkt. Það er því ekki raunhæft að ætlast til þess að allir kunni að orða og segja hluti á þann hátt sem okkur líkar. Það er alls ekki víst að það sé viðmælandanum að kenna ef við upplifum virðingarleysi. Virðing er upplifun frekar en hegðun. Það er jú eingöngu túlkun á hegðuninni sem gefur vísbendingu um virðinguna.  Þeir sem eru virkilega liprir í samskiptum bera ábyrgð á því sjálfir að þeir túlki ekki að óþörfu að þeim sé ekki sýnd virðing, t.d. með því að spyrja nánar um það sem sagt var. Þeir bestu reyna að tryggja að orð þeirra sjálfra séu rétt túlkuð og enginn misskilningur verði.  

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 6. janúar 2010.