Raddlaus - máttlaus

Að vinna með röddina er eins og að skyggnast inn á við. Raddbeiting kemur inn á öll svið lífsins, daglega í samskiptum, sem hluti af persónugerð auk þess sem hún segir til um hæfileika og forystuhæfni. Hver og einn hefur sína raddtegund sem markar stóran hluta af persónuleikanum.

Um leið er röddin mjög viðkvæmur hluti af okkur og tiltölulega berskjaldaður því við notum hana jú talsvert. Hugarfarið gagnvart okkar eigin rödd getur verið margþætt og misjafnlega uppbyggilegt. Þannig kvarta sumir yfir því að líka ekki við sína eigin rödd eða hafa ekki úthald. Þeim finnst röddin vera lokuð, skræk, dökk, nefmælt, og finna fyrir alls kyns raddvandamálum. Einstaklingar hafa misjafna stjórn á röddinni en rétt beiting hennar er mikilvæg fyrir alla þá sem vinna með röddina á einn eða annan hátt. En flestir verða fyrir raddlegu áreiti og streitu af einhverju tagi í starfi. 

Fyrirlesturinn lýsir áhrifum raddarinnar á umhverfið og öfugt. Umhverfisþættir, álag, streita, sviðsskrekkur, taugar, tilfinningar og röddin, hvernig menn nýta sér, eða van-nýta, sannfæringarkraft raddar sinnar á mismunandi hátt. 

Fjallað er um það sem er til ráða þegar röddin bregst okkur. Getur röddin skemmt fyrir okkur? Góð raddbeiting - slæm raddbeiting, skræka taugaveiklaða týpan eða karlmannlega dimmrómaða týpan? Áhugaverð atriði varðandi raddbeitingu og þjóðerni. Kölluð er fram virk þátttaka áheyrenda, með raddspuna og skemmtilegum æfingum til að vekja athygli allra á sinni eigin rödd. 

Fyrirlesari: Ingveldur Ýr Jónsdóttir, söngkona og raddþjálfari