Vinnustaðarþing
Námskeið fyrir vinnustaðinn
Lengd:
4-7 klst.
Námskeiðslýsing
Fátt er vinnustöðum gagnlegra en góð og hreinskilin lýðræðisleg umræða um málefni vinnustaðarins. Til að slíkur fundur verði árangursríkur þurfa allir að upplifa að tilgangurinn sé góður og að allir séu hreinskilnir og uppbyggilegir. Allir verða að taka þátt og allir eiga að geta treyst því að skoðanir þeirra séu virtar og ræddar.
Ein nálgun á slíka umræðu er svokallað Vinnustaðarþing sem er byggt á fundarformi þjóðfundar þ.e. unnið í litlum hópum, skráð niður á miða og þeir ræddir á borðunum og síðan valdar bestu hugmyndirnar.
Vinnustaðarþing er opin og lýðræðisleg aðferð til að ræða mál og komast að niðurstöðu sem síðan er rædd áfram í þrengri hóp. Umræðuefni geta verið mörg, eins og t.d. ímynd, fortíð og framtíð, framtíðarsýn, styrkleikar og veikleikar, ógnanir og tækifæri, gildi vinnustaðarins, staða vinnustaðarins, leiðir til að efla og styrkja starfsanda o.fl.
Vinnulagið er skýrt og agað, sem tryggir að allir komist að og allar skoðanir heyrist og fái meðhöndlun. Einn aðili stýrir fundinum og hvert borð velur umræðustjóra/borðstjóra sem virkjar alla og tryggir að ferlið gangi vel fyrir sig.
Ferlið er í nokkrum skrefum frá því að spurningin sem er rædd er kynnt og þar til hvert borð kynnir niðurstöður sínar.
Mikilvægustu atriði Vinnustaðarþings eru:
- Lýðræðisleg umræða þar sem allar skoðanir fá umfjöllun
- Allir hafa jafnan rétt á að tjá sig um sínar hugmyndir og vægi atkvæða er jafnt
- Fundarstjóri tryggir að allt gangi vel fyrir sig og að tímamörk standist
- Umræðustjóri/borðstjóri stýrir umræðum á hverju borði og einn talar í einu
- Notast er við skapandi hugsun og hugarflug
- Allir undirbúa sig áður en umræður hefjast til að ýta undir góða umræðu
- Allir þátttakendur leggja fram sín sjónarmið og rökstyðja
- Allar niðurstöður af öllum borðum koma fram í fundargerð fundarins
Lengd:
Vinnustaðarþing getur tekið allt frá 4-7 klst. Reynslan sýnir að hver spurning tekur um 40 mínútur í umræðu. Mikilvægt er því að velja góðar spurningar og láta þær duga miðað við tímann sem áætlaður er.
Ávinningur
Ávinningur vinnustaðarins er að allir eru með, allar skoðanir fá að heyrast og með rökræðum eru dregnar fram bestu niðurstöðurnar. Lýðræðið fær að njóta sín.
Leiðbeinandi
Eyþór Eðvarðsson eða Ingrid Kuhlman, þjálfarar og ráðgjafar hjá Þekkingarmiðlun ehf.